Spenna í hagkerfinu kemur í veg fyrir vaxtalækkun

Spenna í hagkerfinu kemur í veg fyrir vaxtalækkun

Peningastefnunefnd hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5,25% líkt og við spáðum. Helstu rök nefndarinnar fyrir ákvörðun sinni eru aukin spenna í hagkerfinu og vísbendingar um að farið sé að reyna á þanþol innlendra framleiðsluþátta. Í yfirlýsingu nefndarinnar kemur fram að hagvöxtur sé borinn uppi af innlendri eftirspurn, sem jókst um tæplega 10% á fyrri hluta ársins, að störfum fjölgi hratt og atvinnuleysi fari minnkandi. Mikilvægur þáttur sem vinnur á móti spennu á vinnumarkaði er þó meiri aðflutningur vinnuafls. Aðalhagfræðingur Seðlabankans kom einnig inn á að batnandi fjárhagur einkageirans væri drifkraftur innlendrar eftirspurnar. Hreinn auður heimila hefur vaxið hratt að raunvirði að undanförnu, eða um 18% milli áranna 2015 og 2016, og sömuleiðis hafa ráðstöfunartekjur aukist hratt. Á sama tíma er aðhald í ríkisfjármálum að minnka og töluverð óvissa ríkir um stefnu í ríkisfjármálum næstu árin. Þrátt fyrir að verðbólguhorfur fari batnandi og kjölfesta verðbólguvæntinga styrkist eru það því hin ýmsu merki um vaxandi spennu í hagkerfinu sem koma í veg fyrir vaxtalækkun að þessu sinni. Einnig var áhersla lögð á varfærin skref við ákvörðun vaxtastigs í yfirlýsingu peningastefnunefndar og ítrekaði Seðlabankastjóri þau sjónarmið á vaxtaákvörðunarfundi.

Heimild: Peningamál Seðlabankans 2016/4.

Seðlabankinn spáir raungengi í hæstu hæðum

Líkt og gefið hafði verið í skyn birti Seðlabankinn nú spá um gengi krónunnar og er hún innbyggð í haglíkan bankans. Spáin gerir ráð fyrir áframhaldandi styrkingu gengis krónunnar og að gengisvísitalan verði að meðaltali 157 stig árið 2019 sem þýðir 4% styrkingu frá því sem nú er. Í spánni er þó gengi krónunnar 1% veikara á næsta ári heldur en það er í augnablikinu sem endurspeglar að krónan hefur styrkst frá því að spá Seðlabankans var gerð. Í Peningamálum er gengisstyrkingin rakin til meiri viðskiptakjarabata en áður var gert ráð fyrir, aukinna umsvifa í ferðaþjónustu og aukinnar ásóknar erlendra aðila í innlenda eignir. Um gengisspánna er mikil óvissa og sagði aðalhagfræðingur í morgun að þetta væru vafasöm vísindi – í raun væri alveg jafn vitlaust að spá fyrir um gengið og að spá föstu gengi. Seðlabankastjóri talaði í svipuðum dúr.

Sé horft á raungengi krónunnar má sjá að það heldur áfram að hækka á spátímanum og verður undir lok hans orðið 6% hærra en árið 2007. Þetta er nokkuð hærra raungengi en gert er ráð fyrir í nýútkominni hagspá Greiningardeildar og er að okkar mati raungengi sem er verulega yfir jafnvægisraungengi, jafnvel þótt við gerum ráð fyrir því að það haldi áfram að hækka lítillega á næstu árum, eins og Seðlabankinn gerir ráð fyrir í spá sinni (þó það sé ekki tekið fram hversu mikið). Í Peningamálum og á kynningarfundi í morgun kom fram að þessi nafngengisstyrking sé að nokkru leyti aðlögun að hækkun jafnvægisraungengis. Það kemur okkur þó nokkuð á óvart að Seðlabankinn spái jafn háu raungengi og raun ber vitni, einkum í ljósi þess að raungengið verður árið 2019 nærri 17% yfir því jafnvægisraungengi sem bankinn mat í maí sl. Í hagspá Greiningardeildar kom fram að mikil gengisstyrking í viðbót, þ.e. frá byrjun nóvember, myndi að öllum líkindum þýða að gengið myndi gefa eftir síðar. Það mat hefur heilt yfir lítið breyst.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Rúmur milljarður á dag mun áfram koma skapinu í lag

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að Seðlabankinn hefur „keypt hlutfallslega minna af gjaldeyrisinnstreyminu en hann gerði fyrr á þessu ári. Peningastefnunefnd telur að óbreyttu rétt að halda áfram á þeirri braut.“ Á kynningarfundinum í morgun var því bætt við að hér væri ekki um veigamikla breytingu að ræða og að óvissa um ýmsa þætti, sem t.d. snúa að losun hafta, kallar á smærri skref. Þessi stefna verður endurmetin í desember og er í takt við okkar væntingar, en við höfðum reiknað með að Seðlabankinn muni hægja á gjaldeyrisinngripum en þó áfram vera virkur í að safna í gjaldeyrisforðann.

Fullyrðingar um að Seðlabankinn hafi keypt hlutfallslega minna af gjaldeyrisinnstreyminu upp á síðkastið koma þó nokkuð á óvart þegar horft er á hlutdeild Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði. Einkum vegna þess að Seðlabankinn keypti gjaldeyri að andvirði 49 ma.kr. í október og á myndinni má sjá að ef horft er framhjá janúar sl. hefur hlutdeild Seðlabankans í veltu á gjaldeyrismarkaði verið nokkuð stöðug á árinu.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Gögn til 11. nóvember

Verðbólga við markmið út spátímann

Miðað uppfærða verðbólguspá Seðlabankans er hinn margumtalaði verðbólgukúfur ekki á leiðinni. Verðbólga verður við og undir markmiði út árið 2018, en fer lítillega yfir það árið 2019 og þá innan vikmarka. Spáin er að nokkru leyti ólík okkar spá, en það skýrist að miklu leyti af því að við gerum ráð fyrir föstu gengi í okkar grunnspá. Í sviðsmynd þar sem gengið styrkist um 8% 2017 en tekur svo að veikjast fer verðbólgan hins vegar neðar á næsta ári en svo yfir markmið þegar gengið veikist. Í ljósi orða um óvissu við gengisspár sem áður var vitnað í er krónan sem fyrr einn stærsti óvissuþátturinn í verðbólguspám, ef ekki sá stærsti.

Vissulega eru inni í verðbólguspánni forsendur Seðlabankans um stýrivaxtaferil og getur sá ferill falið í sér hækkun vaxta. Engu að síður er ekki fram hjá því litið að miðað við batnandi verðbólguhorfur og aukna kjölfestu verðbólguvæntinga séu auknar líkur á vaxtalækkun á næstu misserum. Það veltur þó aðallega á þremur þáttum að okkar mati. Í fyrsta lagi að hve miklu leyti innflutt vinnuafl nær að draga úr spennu á vinnumarkaði. Í öðru lagi hvort launaþróun næstu mánuði feli í sér meiri hækkanir en SALEK samkomulagið felur í sér. Í þriðja lagi skiptir máli hvort aðhalds verður gætt í ríkisfjármálum í stefnu nýrrar ríkisstjórnar. Ef þessir þættir styðja við peningastefnu Seðlabankans dregur það úr líkum á vaxandi verðbólgu eykur líkur á stýrivaxtalækkun. Þá bentum við á í nýlegum Markaðspunkti að horfur séu á að raunvextir gætu lækkað á næstu árum, sem eykur enn líkur á lækkun stýrivaxta, þó það gæti verið bið eftir því.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Seðlabankinn spáir meiri hagvexti en við í ár – minni á næsta ári

Í ár spáir Seðlabankinn 5% hagvexti en Greiningardeild hafði fyrr í mánuðinum spáð 4,7% hagvexti. Munurinn skýrist fyrst og fremst af hagstæðari utanríkisviðskiptum í spá Seðlabankans og meiri vexti samneyslu. Á næsta ári reiknum við með meiri hagvexti (5,2%) en Seðlabankinn (4,5%) og skýrist það að mestu leyti af mismiklum vexti fjárfestingar, nánar tiltekið atvinnuvegafjárfestingar. Þess ber þó að geta að í sviðsmynd okkar þar sem gert var ráð fyrir áframhaldandi gengisstyrkingu var hagvöxtur 4,4% árið 2017. Um árin 2018 og 2019 ríkir eðli málsins samkvæmt mikil óvissa en spár okkar og Seðlabankans eru nokkuð áþekkar þó sjá megi mun nokkurra undirliða á myndinni hér að neðan.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.