Vísitala neysluverðs nánast óbreytt milli mánaða

Vísitala neysluverðs nánast óbreytt milli mánaða

Vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um 0,02% milli mánaða í nóvember skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar og mælist þá ársverðbólgan 2,1%. Þetta er nokkurn veginn í takt við spár greiningaraðila en þær lágu á bilinu 0% til -0,2% og spáðum við 0,2% lækkun. Kjarnavísitala 1 hefur hækkað um 2,4% síðastliðið ár en líkt og áður er verðhjöðnun upp á 0,3% ef litið er til VNV án húsnæðis. Það er því augljóst að hækkun húsnæðisverðs drífur verðbólguna áfram þessa dagana. Húsnæðisverð hækkaði um 1,4% milli mánaða í nóvember skv. mælingu Hagstofunnar og er það sjöundi mánuðurinn í röð sem húsnæðisverð hækkar um 1% eða meira. Undanfarna mánuði hefur einbýli sérstaklega hækkað í verði og eru ýmis merki um að aukinn kaupmáttur, aukin greiðslugeta og aukið veðrými heimila sé að skila sér í formi aukinnar eftirspurnar á fasteignamarkaði.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Við spáum því að verðlag standi í stað í desember en lækki svo um 0,7% í útsölum janúar. Þá spáum við 0,7% hækkun í febrúar á næsta ári þegar útsölur byrja að ganga til baka. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í í 1,7% í febrúar á næsta ári.

Húsnæðisverð nær nýjum hæðum

Húsnæðisverð hækkaði um 1,4% milli mánaða í nóvember og hafði reiknuð húsaleiga því +0,22% áhrif á VNV. Greidd húsaleiga hækkaði einnig (+0,05% áhrif á VNV) og hafði húsnæðisliðurinn í heild sinni því +0,27% áhrif til hækkunar á VNV.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Það vekur athygli okkar hve hratt einbýli hefur hækkað í verði á höfuðborgarsvæðinu. Síðustu þrjá mánuði hefur einbýli hækkað um 8% og síðustu 6 mánuði nemur hækkunin 11%. Fjölbýli hefur hækkað um 5% síðustu þrjá mánuði og 10% undanfarið hálft ár. Það er því nokkur viðsnúningur á fasteignamarkaði og merki um að aukinn kaupmáttur, aukin greiðslugeta og meira veðrými heimila sé að skila sér í aukinni eftirspurn. Gera má ráð fyrir að eitthvað hægi á markaðinum yfir hátíðirnar framundan en að svo haldi fasteignaverð áfram að hækka á nýju ári. Hér að neðan má sjá að húsnæðisverð sem hlutfall af byggingakostnaði hefur hækkað nokkuð síðustu misseri og því má færa rök fyrir því að nú sé arðbærara að byggja íbúðarhúsnæði en áður. Ljóst er að fasteignamarkaðurinn kallar eftir auknu framboði af íbúðarhúsnæði. Hins vegar hefur fasteignaverð sem hlutfall af launavísitölu ekki hækkað svo neinu nemur undanfarið ár en er þó nokkuð hærra en það var árið 2012.

Flugfargjöld, matarkarfan og húsgögn lækka í verði

Ferðaliðurinn hafði í heild sinni -0,19% áhrif á VNV og skýrist það að mestu leyti af lækkun flugfargjalda (-0,11% áhrif á VNV). Einnig lækka bílar í verði (-0,04% áhrif á VNV) og sömuleiðis lækkar kostnaður við rekstur ökutækja (-0,04% áhrif á VNV) og þar vegur þungt lækkun á verði hjólbarða. Matarkarfan lækkar einnig (-0,10% áhrif á VNV) og er það þriðji mánuðurinn í röð sem matarkarfan lækkar í verði, en frá því í ágúst hefur matarkarfan lækkað um tæp 2%. Þá lækka einnig húsgögn og heimilisbúnaður (-0,03% áhrif á VNV).

Föt og skór hækka í verði

Þvert á okkar spá hækkuðu föt og skór í verði um 1,6% (+0,07% áhrif á VNV). Þó þarf að hafa í huga að fatnaður hefur almennt lækkað í verði um tæp 4% frá áramótum. Föt og skór hafa í raun almennt séð lækkað í verði frá árinu 2013 eða frá því að krónan fór að styrkjast svo nokkru nemur.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Fylgst verður með þróun fasteignaverðs næstu mánuði

Á sama tíma og vísitala neysluverðs stóð nánast í stað milli mánaða lækkaði vísitalan án húsnæðisverðs um 0,41%. Bilið á milli ársverðbólgu með og án húsnæðisliðarins heldur því áfram að breikka. Þá vekur það mann vissulega til umhugsunar að húsnæðisverð hefur hækkað nánast samfellt í tvö ár og undanfarna mánuði hafa verðhækkanir verið myndarlegri en áður hefur sést í nokkurn tíma. Á sama tíma hækkar byggingavísitala töluvert hægar og er því orðið arðbærara að byggja hús í dag en var fyrir ári síðan. Það má því gera ráð fyrir því að með tíð og tíma aukist framboð af íbúðarhúsnæði en umtalsverð þörf er fyrir fjölgun íbúða á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir. Fylgst verður með þróun fasteignaverðs á næstu mánuðum en ef þróunin heldur áfram stefnir í að raunhækkun húsnæðisverðs á árinu 2016 geti orðið nálægt 11%.

Heimild: Hagstofa Íslands

Verðbólguþróun næstu mánuði:
Desember óbreytt: Flugfargjöld og húsnæðisverð hækkar en matarkarfan og tómstundir lækka.
Janúar -0,7%: Útsölur í upphafi næsta árs á fötum og skóm og húsgögnum.
Febrúar +0,7%: Útsöluáhrif ganga til baka, matarverð hækkar og húsnæðisverð hækkar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka