Hvað gerist ef stýrivextir lækka um 200 punkta?

Hvað gerist ef stýrivextir lækka um 200 punkta?

Nær samfleytt frá því að verðbólgumarkmið með vexti sem stýritæki var tekið upp árið 2001 hefur Seðlabankinn góðu eða illu heilli mátt þola mikla gagnrýni fyrir háa vexti. Gagnrýnin á stefnu Seðlabankans er nú hávær sem aldrei fyrr þó að stýrivextir séu nú um 3 prósentustigum lægri en þeir hafa verið að jafnaði frá því að verðbólgumarkmið var tekið upp og verðbólga sé búin að vera innan vikmarka verðbólgumarkmiðs í bráðum þrjú ár. Gagnrýnin snýr ekki síst að miklum vaxtamun við útlönd og að svigrúm sé til vaxtalækkana fyrst verðbólga, sem er drifin áfram af húsnæðisverði, hefur haldist svona lág.

Við skulum því velta fyrir okkur hvað myndi gerast ef Seðlabankinn myndi í dag tilkynna um 200 punkta lækkun stýrivaxta eða úr 5,25% í 3,25%. Við skulum einnig gera ráð fyrir því að þetta væri breyting á stefnu peningastefnunefndar, sem hyggst nú halda vaxtastigi mun nær nágrannalöndum en áður hefur verið raunin. Hér skulum við þó hafa þann fyrirvara að markmið um stöðugt verðlag er bundið í lög svo stefnubreyting þyrfti að samræmast því markmiði. Enn fremur gerum við ráð fyrir því að langtíma verðbólguvæntingar haldi nokkurn veginn kjölfestu sinni sem þýðir að hér væri um að ræða raunvaxtalækkun, a.m.k. til skemmri tíma.

Nauðsynlegt er að hafa í huga að þetta er ekki spá og hvorki ítarleg né tæmandi greining á fjölþættum áhrifum slíkrar vaxtalækkunar. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að reyna að gera sér í hugarlund hver helstu áhrifin gætu orðið. Er vaxtastig á Íslandi of hátt? Er gott að lækka vexti? Hverjir hagnast og hverjir tapa á 200 punkta stýrivaxtalækkun? Vonandi hjálpar það sem hér fer á eftir við að svara slíkum spurningum.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Kátt í Kauphöllinni

Nær öruggt er að áhrifa vaxtalækkunarinnar myndi fyrst gæta í Kauphöll Íslands. Hlutabréfaverð myndi hækka talsvert þar sem fjármögnunarkostnaður fyrirtækja lækkar, þar á meðal ávöxtunarkrafa eigin fjár. Lækkun stýrivaxta myndi einnig hafa áhrif á skuldabréfamarkað þar sem skammtímavextir fylgja stýrivöxtum að miklu leyti. Þannig myndi ávöxtunarkrafa stuttra skuldabréfa og víxla líklega lækka í kringum 200 punkta. Líklegt er að áhrif vaxtalækkunar færu svo dvínandi eftir því sem líftími bréfa er lengri. Við teljum því að lækkun stýrivaxta myndi lækka ávöxtunarkröfu lengri bréfa og þar með auka verðmæti þeirra, líkt og gerðist í ágúst þegar Seðlabankinn lækkaði nokkuð óvænt vexti um 50 punkta.

Hér er rétt að nefna að á móti lækka fjármagnstekjur þeirra sem eiga óbundinn sparnað eða sparnað sem bundinn er til skemmri tíma svo sem á bankareikningum, í peningamarkaðssjóðum eða víxlum. Það á ekki síst við um eldra fólk sem þarf að geta gengið á sinn höfuðstól í stað þess að binda hann til lengri tíma.

 

Heimildir: Bloomberg, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Hækkun annars eignaverðs, einnig húsnæðisverðs

Lækkun stýrivaxta myndi ekki einungis hafa áhrif á Kauphöllina heldur alla eignamarkaði og þar er húsnæðismarkaðurinn ekki undanskilinn. Með lækkun raunvaxta lækkar fjármögnunarkostnaður heimila. Fyrst um sinn lækka vextir á fasteignalánum sem bera breytilega vexti, en einnig ætti stýrivaxtalækkun að hafa áhrif á fjármögnunarkjör bankanna og gera þeim kleift að bjóða lægri vexti sem eru fastir til lengri tíma. Með ódýrari fjármögnun skapast aukið svigrúm til skuldsetningar sem auðveldar kaup og endurfjármögnun lána sem þrýstir húsnæðisverði upp á við. Þetta getur gerst hratt líkt og þegar fjármögnun íbúðarhúsnæðis varð mun auðveldari árið 2004 og húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 40% á innan við ári. Líklegt er að heildarniðurstaðan verði sú að húsnæðisverð hækki eftir vaxtalækkun þar til húsnæðiskostnaður í hlutfalli við ráðstöfunartekjur verði svipaður og áður.

Þeir sem eiga íbúðarhúsnæði hagnast á lækkun vaxta. Einnig myndu þeir hagnast sem kaupa húsnæði rétt eftir stýrivaxtalækkun en áður en húsnæðisverð hækkar. Á hinn bóginn væru þeir sem ætla að koma inn á húsnæðismarkaðinn eftir verðhækkunina, eða þeir sem þurfa að stækka við sig, að vissu leyti verr settir en áður þar sem þeir þurfa að leggja fram meira eigið fé. Þá hefur lækkun stýrivaxta ennfremur áhrif á þennan hóp þar sem hún gerir þeim að einhverju leyti erfiðara fyrir að spara sem eykur vanda þeirra enn frekar.

Til lengri tíma myndu þó áhrifin vera önnur. Lækkun vaxta hvetur til örari íbúðafjárfestingar sem myndi með tíð og tíma halda aftur af hækkun húsnæðisverðs. Einn helsti vandi húsnæðismarkaðarins í dag er að framboð eykst ekki í takt við eftirspurn svo stýrivaxtalækkun gæti hjálpað til við að leysa það, en aðlögunin gæti orðið sveiflukennd.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Neysla eykst til skamms tíma

Hækkun eignaverðs eins og áður hefur verið rakin leiðir til þess að heimilin hafa meira svigrúm til þess að auka neyslu, a.m.k. tímabundið. Einnig dregur lækkun vaxta úr hvata til sparnaðar sem eykur neyslu. Vaxtalækkun hefur einnig bein áhrif á neyslu og ýtir það undir skuldsetta neyslu. Það er meira freistandi að kaupa 5 milljóna króna bíl með láni á 8% vöxtum heldur en 10% vöxtum líkt og algengt er nú eða að taka yfirdrátt til ef vextir lækka.

Fjárfesting eykst líklega

Þar sem fjármagn verður ódýrara eykst hvatinn til fjárfestingar og ávöxtunarkrafa fjárfestingarkosta lækkar. Því myndi fjárfesting að líkindum aukast. Sú aukning myndi sem fyrr segir eiga sér stað í gegnum íbúðafjárfestingu, en atvinnuvegafjárfesting myndi líklega einnig aukast. Hve sterk áhrifin verða á fjárfestingu ræðst að miklu leyti af því hve víðtæk lækkun ávöxtunarkröfu á markaði verður eftir líftíma. Þá er ekki útilokað að hið opinbera freistist til þess að nýta sér hagstæð lánakjör til skuldsetningar og fjárfestinga sem myndu þó um leið stuðla að hækkun ávöxtunarkröfu lengri bréfa. Á hinn bóginn myndi lækkun vaxta draga úr innflæði erlends fjármagns að óbreyttu og fá innlenda fjárfesta til að horfa meira út fyrir landsteinanna, en hvort tveggja myndi hafa áhrif til minni fjárfestingar. Í heildina teljum við þó að fyrri áhrifin séu hinum yfirsterkari svo að fjárfesting myndi aukast í heildina.

Styrkingarþrýstingur á krónuna minnkar

Eins og ævinlega er erfitt að spá fyrir um gengi gjaldmiðla og í kjölfar síðustu vaxtaákvörðunar Seðlabankans sagði aðalhagfræðingur bankans eitthvað á þá leið að kirkjugarðarnir væru fullir af mönnum sem hefðu spáð vitlaust fyrir um gengi gjaldmiðla. Engu að síður eru líkur á að hægja myndi á styrkingu krónunnar og hún jafnvel veikjast ef stýrivextir lækka verulega. Í fyrsta lagi myndi örvun innlendrar fjárfestingar auka innflutning sem rýrir viðskiptajöfnuð. Í öðru lagi myndi skapast aukinn hvati fyrir lífeyrissjóði og aðra innlenda fjárfesta til að fara erlendis en að sama skapi draga úr hvata fyrir erlenda aðila til að fjárfesta hér á landi þar sem vaxtamunur minnkar. Þannig myndi hreint gjaldeyrisinnflæði minnka eða snúast við í útflæði. Þá má að sama skapi nefna að raungengi krónunnar er nú þegar orðið sögulega hátt sem eykur líkurnar á að gengið gefi eitthvað eftir, þó að erfitt sé að fullyrða um það.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Hvað ef verðbólga eykst og verðbólguvæntingar halda ekki kjölfestu?

Hér erum við búin að fara yfir að vaxtalækkun myndi hækka eignaverð og auka innlenda eftirspurn á mismunandi vegu. Er þá nóg að lækka bara vexti til þess að við verðum öll ríkari?

Ekki beinlínis. Til lengri tíma ræðst hagvöxtur af framleiðnivexti og fólksfjölgun. Stýrivextir hafa til lengri tíma mjög takmörkuð áhrif á hvort tveggja svo því má spyrja hvort hagkerfið geti farið á enn meiri siglingu þannig að það sé sjálfbært til lengri tíma? Að öllum líkindum þyrfti eitthvað undan að láta. Nær öruggt er að aukin örvun hagkerfisins á þessum stað hagsveiflunnar brjótist út í enn meiri framleiðsluspennu með aukinni neyslu og fjárfestingu, sem grefur undan stöðugleika, og/eða því að verðbólga taki á flug vegna aukins eftirspurnarþrýstings. Að okkar mati er óhjákvæmilegt að lækkun stýrivaxta hafi slík áhrif, þó að hugsanlegt sé að önnur áhrif gætu vegið á móti.
Með sama hætti má reyndar segja að ýmsir mælikvarðar gefi til kynna að vaxtastigið sé að halda aftur af æskilegri fjárfestingu. Þannig hefur útlánavöxtur bankanna verið undir hagvexti undanfarin ár, skuldsetning heimila og fyrirtækja ekki verið lægri á þessari öld og mikil þörf hefur byggst upp á fjárfestingu í innviðum og útflutningsatvinnuvegum.

Umfjöllunin hér hefur miðast við að verðbólguvæntingar haldi kjölfestu sinni og deila má um þá forsendu líkt og aðrar sem hér eru gefnar. Ef verðbólguvæntingar halda ekki er t.d. líklegt að raunáhrifin á eignamarkaði og eftirspurn yrðu minni, en að verðbólga myndi aftur á móti aukast meira en ella. Verðbólguvæntingar hafa nýlega komist nálægt verðbólgumarkmiði Seðlabankans og tíminn einn mun leiða í ljós hvort að þær haldist þar við áföll eða óvæntar stefnubreytingar líkt og mikla vaxtalækkun vegna breyttrar peningastefnu.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Halda rökin fyrir mikilli vaxtalækkun?

Eins og kom fram í byrjun er tilgangurinn með þessari hugarleikfimi að skoða hvort innstæða sé fyrir því að lækka stýrivexti verulega og dæmið sett fram eins og tilgangur þess væri að draga úr vaxtamun. Vissulega er rétt að vaxtamunur við útlönd er óheppilega mikill og í sjálfu sér er allt sem minnkar virkan vaxtamun og slær þannig á styrkingarþrýsting krónunnar vel þegið um þessar mundir, einkum þar sem raungengi krónunnar er komið á svipaðar slóðir og árið 2007. Minni vaxtamunur gæti þannig dregið eitthvað úr þenslu ef hann heldur aftur af óhóflegu fjármagnsflæði til landsins og hvetur til fjárfestinga Íslendinga erlendis. Aftur á móti er öðrum stýritækjum eins og bindisskyldu á tiltekið fjármagnsinnflæði og þjóðhagsvarúðartækjum ætlað að draga úr áhrifum vaxtamunar við útlönd. Ef þessar ráðstafanir duga til að koma í veg fyrir óhófleg vaxtamunaviðskipti og vaxandi ójafnvægi í hagkerfinu eru vaxtamunarökin fyrir vaxtalækkun máttlítil. Hvort að þessar ráðstafanir muni duga á tíminn eftir að leiða í ljós, svo enn má rökræða hvort vaxtamunur við útlönd geti skapað ójafnvægi í þjóðarbúskapnum og því eigi að lækka vexti.

Önnur rök fyrir því að lækka vexti er að verðbólga er búin að vera undir markmiði í næstum 3 ár og horfur eru á að hún verði áfram lítil. Ein kenningin sem gæti útskýrt þetta er að náttúrulegt raunvaxtastig hafi lækkað, sem þýðir að aðhald peningastefnunnar hafi verið meira en þurft hefur. Nýlega fjölluðum við um það að ýmislegt benti til þess að raunvaxtastig á Íslandi færi lækkandi um þessar mundir og hefur seðlabankastjóri tekið undir þær vangaveltur. Því gæti verið að Seðlabankinn sé að miða við hærra raunvaxtastig en þarf til að tryggja verðstöðugleika og þannig yrðu áhrifin af mikilli vaxtalækkun minni en ætla mætti.