Krónan: Sterkasta mynt í heimi?

Krónan: Sterkasta mynt í heimi?

Viðsnúningur íslensks þjóðarbúskapar á síðustu misserum hefur í raun verið lyginni líkastur ef horft er á stöðuna sem uppi var fyrir örfáum árum síðan. Á nokkrum misserum hefur gjaldeyrisskortur snúist í gnægð gjaldeyris, atvinnuleysi snúist í skort á vinnuafli o.s.frv. Samfara þessari hagstæðu þróun hafa laun hækkað verulega á síðustu árum og gengi krónunnar styrkst á nánast hverjum einasta degi frá því um mitt sumar og nemur styrkingin nú 17% frá ársbyrjun. Sem dæmi má nefna að krónan hefur styrkst gagnvart evru 135 vikur í röð. Á suma mælikvarða má segja á Íslendingar séu ein allra ríkasta þjóð í heimi og krónan sé sterkasti gjaldmiðill í heimi. Stóra spurningin er því hvort það sé eitthvað sem getur staðist til lengri tíma.

Gengi krónunnar endurspeglar m.a. framleiðslu í hagkerfinu, væntingar um efnahagsþróun og eftirspurn íslenska hagkerfisins. Þessi hraða gengisstyrking hefur veruleg neikvæð áhrif á afkomu útflutningsfyrirtækja og veikir samkeppnisstöðu þeirra. Á sama tíma stuðlar hún að mikilli aukningu innflutnings. Stórbætt skuldastaða þjóðarbúsins við útlönd og önnur hagstæð þróun þýðir að jafnvægisraungengi er líklega talsvert hærra en það var fyrir fáeinum árum síðan. En hvar gæti nýtt jafnvægisraungengi legið? Miðað við það jafnvægisraungengi sem við mátum í nýlegri hagspá okkar er raungengi krónunnar í dag um 10-12% hærra en staðist getur til lengdar. Talsverð óvissa er um þetta mat og yfirleitt sveiflast gengi gjaldmiðla í kringum jafnvægi. Því eru frávik frá langtímajafnvægi eðlileg og ásættanleg svo fremi sem þau verði ekki jafn mikil og t.d. á árunum 2004-2008.

Hér á eftir köfum við örlítið dýpra ofan í það hversu dýrt Ísland er orðið, hversu há laun eru orðin á Íslandi og hversu sterk krónan er orðin. Spurningin sem mun standa eftir er: Hefur þjóðarbúskapurinn efni á svo sterku gengi?Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. Jafnvægisraungengið hér er einungis einn af fjórum mælikvörðum þess sem fjallað var um í hagspá.

Miðað við samanburð á verðlagi milli landa er Ísland mjög dýrt

Kenningin um kaupmáttarjöfnuð (e. Purchasing Power Parity eða PPP) eða lögmálið um eitt verð er gjarnan notað til að kanna hvort að gengi gjaldmiðla sé úr takti við undirliggjandi stærðir. Samkvæmt kenningunni eiga allar vörur að kosta það sama í öllum löndum á hverjum tíma og því ætti raungengi að vera ætíð það sama. Þannig ætti kaffibolli í Reykjavík að kosta það sama og í Sidney. Á vefsíðunni Numbeo er hægt að bera saman verð hinna ýmsu vara og húsnæðisverð milli landa og borga. Þar er Reykjavík metinn 13. dýrasta borgin af 372 borgum. Það mat miðast við gengi gjaldmiðla um mitt ár 2016, en gengið hefur styrkst um 13% síðan þá svo Reykjavík hefur vafalítið færst ofar á listanum.

Augljóslega þá heldur kenningin um kaupmáttarjöfnuð ekki í sinni tærustu mynd. Engu að síður sýna rannsóknir að ef leiðrétt er fyrir öðrum þáttum sem hafa áhrif á raungengi þá haldi kenningin yfir löng tímabil og sérstaklega ef vikið er verulega langt frá jafnvægisgildum. Til þess að skoða hvernig kaupmáttarjöfnuður heldur milli landa eru til ýmsir mælikvarðar. Hér á eftir skoðum við hvernig hlutfallslegt verðlag er milli nokkurra landa miðað við mismunandi mælikvarða Eurostat, IMF og OECD, auk nýjustu gengisþróunar krónunnar.

Að fyrstu má sjá að verðlag á Íslandi, skv. Eurostat, hefur hækkað mikið frá 2015 og er 53% hærra en að meðaltali í ESB. Það vekur þó enn meiri athygli okkar að Ísland er orðið 7% dýrara en Noregur og er einungis 4% frá því að vera dýrara en Sviss.

Heimildir: Eurostat, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. Miðað við sama árstakt verðbólgu og í október og breytingu VNV á Íslandi. Gengi gjaldmiðla frá 5. desember 2016.

Árið 2015 var Sviss dýrasta land í heimi miðað við mismun á landsframleiðslu í dollurum á nafnvirði og leiðrétt fyrir kaupmáttjaröfnuði (PPP) skv. mati IMF eins og má sjá hér að neðan. Frá miðju ári 2015 hefur íslenska krónan styrkst um 22% gagnvart svissneskum franka svo að ef við miðum við kaupmáttarleiðrétt gengi gjaldmiðla skv. IMF frá 2015, þá er Ísland nú komið upp fyrir Sviss og að líkindum orðið dýrasta land í heimi á þeim mælikvarða.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, IMF, Greiningardeild Arion banka. Miðað við spáð PPP gengi gangvart dollar 2016 og markaðsgengi gjaldmiðla 5. desember.

Loks er hér að neðan mat OECD á því sama og að ofan þó að framsetningin sé nokkuð frábrugðin. Hér er sýnd yfir- eða undirverðlagning landa og gjaldmiðla gagnvart Bandaríkjunum miðað við hvert gengi gagnvart bandaríkjadal hefði þurft að vera árið 2015 svo að kaupmáttarjöfnuður myndi halda. Aftur er niðurstaðan sú að Ísland er dýrast. Samkvæmt þessu þyrfti krónan að veikjast um 27% til að verðlag væri sambærilegt við Bandaríkin. Aftur á móti þyrfti rússneska rúblan að styrkjast um 65% til að verðlag þar og í Bandaríkjunum væri hið sama.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, OECD, Greiningardeild Arion banka. Miðað við markaðsgengi 30. nóvember, PPP gengi gjaldmiðla fyrir 2015 og því er gert ráð fyrir sömu verðbólgu allsstaðar.

Laun Íslendinga mæld í erlendri mynt hafa hækkað hratt

Það er ekki einungis að verðlag á Íslandi hafi hækkað mikið í alþjóðlegum samanburði vegna sterkari krónu, heldur hafa laun á Íslandi hækkað enn meira, eða sem nemur aukningu kaupmáttar í krónum. Í efnahagshruninu og gengisfallinu sem því fylgdi fóru Íslendingar nokkur ár aftur í tímann í launum mældum í erlendri mynt. Síðan þá hafa Íslendingar getað keypt sífellt fleiri evrur, pund og dali fyrir launin sín og frá því í fyrra hefur sú þróun verið mjög ör. Gengi krónunnar hefur styrkst um 22% miðað við gengisvísitölu frá janúar 2015 og á sama tíma hefur launavísitalan hækkað um 18%. Þar af leiðandi getur íslenskt launafólk keypt 53%% meira af erlendum gjaldeyri fyrir laun sín heldur en þá. Einhver sem t.d. fékk 300 þúsund krónur útborgað í janúar 2015 gat þá keypt 1.962 evrur fyrir útborguð laun sín. Ef viðkomandi hefur fylgt launavísitölu eru laun hans nú 354 þúsund krónur og fyrir það fást í dag 2.972 evrur. Þar sem verðbólga erlendis hefur verið mjög lítil síðustu ár er hér um að ræða nær hreina kaupmáttaraukningu í erlendri mynt.

Líklega hefur kaupmáttur Íslendinga erlendis aldrei aukist jafn hratt á jafn stuttum tíma og verið meiri. T.d. getur íslenskur launamaður í dag keypt 61% fleiri evrur nú en í júlí 2007. Á þessari kaupmáttaraukningu er þó önnur hlið og það er hækkun launakostnaðar útflutningsfyrirtækja sem hafa tekjur í erlendri mynt. Miklar launahækkanir ofan í gengisstyrkingu rýra mjög samkeppnisstöðu þeirra. Einn stærsti óvissuþátturinn um hvort núverandi gengi geti staðist til lengdar er hvernig útflutningsgreinum mun reiða af í nýjum veruleika.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Hvað með tekjur íslenskra heimila í samanburði við aðrar þjóðir? Þar er svipaða sögu að segja og eru ráðstöfunartekjur fullvinnandi hjóna með tvö börn, metnar á markaðsvirði evru, að öllum líkindum hærri en á hinum Norðurlöndunum. Svipuð niðurstaða fæst þegar aðrir hópar, t.d. barnlausir og/eða einstæðir, eru skoðaðir. Athygli vekur að ráðstöfunartekjur hér eru hærri en í öllum þeim ríkjum sem eru borin saman hér að neðan, að einu undanskildu. Aðeins Sviss hefur hærri ráðstöfunartekjur og er í raun í sérflokki.

Heimildir: Eurostat, Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. Launavísitala fyrir Ísland árið 2016, annars gert ráð fyrir 3% ársvexti tekna í hverju landi.