Meiri viðskiptaafgangur þrátt fyrir sterkari krónu

Meiri viðskiptaafgangur þrátt fyrir sterkari krónu

Fyrir helgi birti Seðlabanki Íslands tölur um greiðslujöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins. Óhætt er að segja að tölurnar beri vott um góða ytri stöðu þjóðarbúsins um þessar mundir. Viðskiptajöfnuður var jákvæður um 100 ma.kr. og hefur afgangurinn aldrei verið meiri á einum ársfjórðungi. Myndarlegur afgangur af þjónustuviðskiptum við útlönd, sem er að langstærstu leyti drifinn áfram af ferðaþjónustu, ræður þar mestu og án hans væri hér viðskiptahalli að öðru óbreyttu.

Þetta er nokkuð meiri viðskiptaafgangur en við höfðum áætlað í hagspá okkar og skýrist það einkum af þrennu. Í fyrsta lagi jukust ferðaþjónustutekjur á hvern erlendan ferðamann í erlendri mynt meira en við áætluðum, í öðru lagi voru aðrir liðir þjónustuviðskipta lítillega hagstæðari en við höfðum spáð og loks voru frumþáttatekjur við útlönd jákvæðar. Það síðastnefnda kemur sérstaklega á óvart, enda hafði t.d. Seðlabankinn spáð því að jöfnuður frumþáttatekna myndi vera neikvæður um 10 ma.kr. á árinu. Aftur á móti hefur jöfnuður frumþáttatekna verið jákvæður síðustu fjóra ársfjórðunga og jákvæður um 33 ma.kr. fyrstu 9 mánuði ársins. Það sem helst skýrir þessa hagstæðu þróun er að nettó vaxtagreiðslur til útlanda hafa dregist verulega saman, en það helgast fyrst og fremst af sífellt batnandi erlendri stöðu þjóðarbúsins.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Ísland er orðið hreinn lánveitandi við útlönd

Erlend staða þjóðarbúsins er jákvæð sem nemur 3% af vergri landsframleiðslu eða 60 ma.kr. Erlenda staðan hefur ekki verið jafn hagstæð frá upphafi mælinga og líklega þarf að fara aftur til stríðsáranna til að finna viðlíka stöðu. Bætt erlend skuldastaða, þannig að Ísland sé orðinn hreinn lánveitandi við útlönd, þýðir að hættan á gjaldeyriskrísu sé minni en oft áður. Ör gjaldeyrisforðasöfnun Seðlabankans, sem á sér heldur engin fordæmi hér á landi, dregur enn fremur úr líkum á gjaldeyriskrísu og hröðu gengisfalli.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Sé rýnt nánar í erlendu stöðuna má sjá að á eignahliðinni er stækkun gjaldeyrisforðans sú stærð sem dregur vagninn. Það vekur athygli okkar að bæði eignir og skuldir í beinni erlendri fjárfestingu dragast mikið saman. Erfitt er að gera sér grein fyrir því hvað er þar að baki en mögulega eru hér á ferðinni áhrif af sölu íslenskra fyrirtækja í erlendri starfsemi til erlendra aðila, uppgjöri slitabúa og loks sterkara gengi krónunnar. Annað sem vekur athygli er að skuldabréfaútgáfa íslenskra aðila til útlendinga jókst um 65 ma. kr., en um 25 ma.kr. ef tekið er tillit til gengisbreytinga. Settar hafa verið talsverðar hömlur á skuldabréfafjárfestingar erlendra aðila hér á landi svo þarna er líklega á ferðinni útgáfa t.d. íslenskra banka í erlendri mynt. Einnig má sjá að lán til íslenskra aðila lækkuðu nokkuð svo einnig er mögulegt að hér sé á ferðinni endurfjármögnun.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Takmörkuð áhrif gengisstyrkingar á utanríkisverslun enn sem komið er

Eins og við bentum á í nýjum markaðspunkti þá hefur krónan styrkst mikið síðustu misseri og er á mælikvarða verðlags og launa orðin ein „sterkasta“ mynt í heimi. Þessi hraða gengisstyrking á rætur sínar í afgangi utanríkisviðskipta og bættri erlendri skuldastöðu eins og farið var yfir hér að framan. Þó getur krónan ekki styrkst út í hið óendanlega og mikil styrking getur rýrt afgang utanríkisviðskipta.
Þar til nú hefur styrking krónunnar þó haft takmörkuð áhrif á útflutning. Einnig hefur innflutningsvöxtur ekki enn sett utanríkisviðskiptin úr skorðum. Þó má sjá að gengisstyrkingin er mögulega farin að bíta í myndarlegan afgang af utanríkisviðskiptum og var afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum 30 ma.kr. minni á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við í fyrra, þrátt fyrir metfjölgun erlendra ferðamanna. Skýringarnar á að ferðaþjónustan lyfti afganginum af vöru- og þjónustuviðskiptum ekki ofar er helst að finna í auknum vöruskiptahalla og meiri þjónustuinnflutningi.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Einn helsti óvissuþátturinn varðandi gengi krónunnar og utanríkisviðskiptin er hvernig ferðaþjónustufyrirtæki og erlendir ferðamenn bregðast við styrkingu krónunnar. Ætla mætti að sterkari króna myndi hafa nokkur áhrif á neyslu erlendra ferðamanna en hingað til virðast þau hafa verið afar lítil. Neysla á hvern ferðamann (fyrir utan flug) í erlendri mynt jókst um 9% milli ára á föstu gengi á 3. ársfjórðungi en aftur á móti dróst hún saman um 3,5% í krónum talið. Hér eru líklega að togast á tveir kraftar. Annars vegar hafa ferðamenn takmörkuð fjárráð og kaupmátt í sinni heimamynt sem setur takmörk fyrir neyslu þeirra á föstu gengi krónu, eða í erlendri mynt. Aftur á móti eykur lækkun flugfargjalda svigrúm til neyslu hér á landi, auk þess sem vera kann að ferðamenn séu fyrirfram búnir að ákveð hvað skuli gera á Íslandi, en líti á kostnaðinn að einhverju leyti sem seinni tíma vandamál . Svo virðist sem síðarnefndu áhrifin séu sterkari um þessar mundir. Mjög forvitnilegt verður að sjá þróunina á næstu mánuðum, einkum þar sem krónan er nú um 9% sterkari en hún var að meðaltali á síðasta ársfjórðungi.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Það sem fer upp kemur niður, eða hvað?

Þó að viðsnúningur þjóðarbúsins á síðustu árum virðist lyginni líkastur er hann engu að síður mikið fagnaðarefni. Fyrir utan lítið atvinnuleysi, góða fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja og góðan hagvöxt eru líklegast fáir sem trúðu því fyrir 2-3 árum að íslenska krónan myndi undir lok árs 2016 vera sterkasta mynt í heimi á suma mælikvarða, að kaupmáttur íslenskra launa jafnaðist á við fá lönd og að erlend staða þjóðarbúsins væri jákvæð. Hátt raungengi krónunnar og metafgangur af viðskiptum við útlönd er þó vísbending um að hagkerfið ráði við nokkuð hærra raungengi en áður. Hversu mikið hærra kemur í ljós þegar fram líða stundir en áhrifa gengisbreytinga á hagkerfið gætir jafnan með töfum. Til þess að koma í veg fyrir ofris krónunnar er nú gullið tækifæri til þess að losa fjármagnshöft á útflæði hraðar og meira en hefur verið áætlað.

Þar sem gengi krónunnar hefur styrkst síðustu 78 af 100 viðskiptadögum og raungengið er á svipuðum slóðum og á árunum 2005-2007 er ástæða til að ganga varlega inn um gleðinnar dyr. Tölur um utanríkisviðskipti gefa lítið tilefni til að ætla að krónan veikist verulega á næstunni. Hins vegar, líkt og áður sagði, koma áhrif snarpra gengisbreytinga fram með nokkrum töfum. Snörp styrking krónunnar mun hafa vaxandi neikvæð áhrif á íslensk útflutningsfyrirtæki og þar með atvinnulíf og vinnumarkað. Að sama skapi mun innflutningur og neysla færast í vöxt og halli á vöruskiptum færast í aukana. Frá því sjónarhorni erum við þeirrar skoðunar að krónan eigi í besta falli litla gengisstyrkingu inni.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.