10,2% hagvöxtur á 3F: Ísland sjaldan verið sprækara

10,2% hagvöxtur á 3F: Ísland sjaldan verið sprækara

Það má með sanni segja að íslenska hagkerfið sé sprækt um þessar mundir. Samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Íslands jókst landsframleiðslan á þriðja ársfjórðungi (3F) um 10,2% samanborið við sama tíma í fyrra. Þessi miklu vöxtur kom okkur nokkuð á óvart, en við gerðum ráð fyrir 7,4% vexti. Vöxtur þjóðarútgjalda var nokkurn veginn í takt við okkar spá en utanríkisverslun, þá einkum og sér í lagi útflutningur, fór talsvert fram úr væntingum okkar. Það er ánægjulegt að fjárfesting, einkaneysla og útflutningur leggja öll verulega til hagvaxtar og vöxturinn því byggður á breiðum grunni.

Að þessu sinni skýrist magnaukning landsframleiðslunnar að miklu leyti af framlagi utanríkisverslunar. Alls jókst útflutningur um 16,4%, þar af jókst vöruútflutningur um 6,1% og þjónustuútflutningur um 25,4%, og því vart hægt að sjá af þessum tölum að sterk króna sé orðin dragbítur á útflutning. Þá var innflutningsvöxturinn nokkuð sterkari en við áttum von á, eða 16,9% vöxtur samanborið við 14% vöxt í spánni.

Vöxtur þjóðarútgjalda hefur verið á miklu flugi að undanförnu og hefur hvert „metið síðan fyrir hrun“ verið slegið. Miðað við nýjustu tölur Hagstofunnar nam vöxtur þjóðarútgjalda 9,6% á þriðja fjórðungi þessa árs, sem er mesti vöxtur þjóðarútgjalda á einum fjórðungi síðan síðla árs 2006, en við höfðum gert ráð fyrir 9,9% vexti í spá okkar í nóvember. Einkaneyslan jókst um 6% og hægði því örlítið á vextinum samanborið við fyrri fjórðunga þessa árs, á meðan fjárfesting jókst um 24%.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Út frá hagfræðinni hefur velsæld sjaldan aukist jafn mikið

Líkt og áður sagði var hagvöxtur á 3F 10,2%, en þetta er mesti vöxtur á einum fjórðungi sem mælst hefur síðan á 4F árið 2007. Ekki nóg með það, heldur klifrar þessi fjórðungur hátt upp sögulegu stigatöfluna, en þetta er fjórði sterkasti fjórðungurinn hagvaxtarlega séð frá árinu 1998. Ef við lítum á landsframleiðslu sem mælikvarða á velsæld, líkt og oft hefur verið gert innan hagfræðinnar, mætti segja að á síðustu átján árum hefur velsæld aðeins þrisvar sinnum aukist hraðar.

Heimild: Hagstofa Íslands

Að þessu sinni var hagvöxturinn drifinn áfram af utanríkisverslun, einkaneyslu og fjárfestingu. Líkt og síðustu þrjá fjórðunga var fjárfestingin driffjöðurin, með atvinnuvegafjárfestingu fremsta í flokki (28,7% vöxtur á 3F). Þá fögnum við því að sjá áframhaldandi kraft í íbúðafjárfestingu, en vöxturinn á 3F nam 21,3%. Sökum mikils útflutningsvaxtar var framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar jákvætt, í fyrsta sinn á þessu ári. Þá jukust birgðir og munar þar mestu um aukningu í birgðum sjávarafurða og stóriðju, en samdráttur var í birgðum kísiljárns og olíu.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hagvöxtur árið 2016 fram úr væntingum

Ýmsir óreglulegir þættir, s.s. birgðabreytingar og fjárfesting í skipum og flugvélum geta haft umtalsverð áhrif á landsframleiðslutölur á milli fjórðunga. Til að átta sig á raunverulegum vexti í hagkerfinu gefur gleggri mynd að skoða samtölu fyrstu níu mánaða ársins.

Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur landsframleiðslan vaxið um 6,2%. Okkar spá hljóðar upp á 4,7% vöxt í ár en greiningaraðilar gera að meðaltali ráð fyrir 5% vexti. Til þess hagvöxtur árið 2016 endi í 5% má landsframleiðslan aðeins vaxa um 1,35% á síðasta fjórðungi þessa árs. Miðað við þróttinn í hagkerfinu, og þann gríðarlega vöxt sem stefnir í í komum ferðamanna til landsins á 4F, þykir okkur líklegt að hagvöxturinn eigi eftir að fara fram úr væntingum flestra. 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka