Vaxtalækkun í jólaköttinn

Vaxtalækkun í jólaköttinn

Stýrivaxtaákvörðun peningastefnunefndar verður kynnt n.k. miðvikudag, 14. desember. Við síðustu vaxtaákvörðun var nefndin klofin, en tveir nefndarmenn af fimm töldu rétt að lækka vexti um 0,25 prósentustig. Sem fyrr teljum við að valið standi á milli óbreyttra vaxta og vaxtalækkunar. Að okkar mati hafa nýjar efnahagstölur lagt enn þyngri lóð á vogaskálar vaxtahaukanna og spáum við óbreyttum stýrivöxtum. Margir vonast eftir vaxtalækkun í jólagjöf en við erum á þeim buxunum að hún fari í jólaköttinn þennan desember.

Heimild: Fundargerð peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, nóvember 2016

Ef við förum yfir þau rök er komu fram í fundargerð nefndarinnar er ljóst að mörg þeirra eiga ennþá rétt á sér.

Óvissa í ríkisfjármálum og breytingar á aðhaldsstigi. Vissulega hefur nýtt fjárlagafrumvarp verið lagt fram á Alþingi frá síðustu vaxtaákvörðun, frumvarp sem gerir ráð fyrir 28 ma.kr. rekstrarafgangi og ætti ekki að velgja peningastefnunefndinni neitt sérstaklega undir uggum. Þá ítrekaði fjármálaráðherra í kynningu sinni á frumvarpinu að „mikilvægt væri að auka þjóðhagslegan sparnað í formi aðhalds í opinberum rekstri til að draga úr eftirspurnarvexti.“ Aftur á móti er ekki búið að samþykkja frumvarpið, sem við teljum litlar líkur á að fari óbreytt í gegnum þingið, og ekki er búið að mynda ríkisstjórn. Við teljum því að óvissa sé ennþá til staðar um stefnu í ríkisfjármálum. Tilefni til að halda óbreyttum vöxtum. 

Órói á vinnumarkaði. Nýjustu fréttir og hagtölur sýna frekari spennu á vinnumarkaði, en samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands mældist atvinnuleysi 2,7% í október, atvinnuþátttaka mældist 82,5% og fjöldi starfandi jókst um 12.900 á milli ára. Þá er óljóst hvort launahækkun þjóðkjörinna fulltrúa og nýir kjarasamningar kennara eigi eftir að hleypa höfrungahlaupinu af stað á nýjan leik, en verði kjarasamningar teknir upp næstkomandi febrúar gæti það haft í för með sér meiri hækkanir en Seðlabankinn gerir ráð fyrir í verðbólguspá sinni. Tilefni til að halda óbreyttum vöxtum.

Óvissa um áhrif losunar fjármagnshafta. Við teljum að lítið hafi breyst frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi hvað varðar óvissu um haftalosun. Þá er stutt í áramótin, þegar höft á innlenda aðila verða rýmkuð enn frekar. Tilefni til að halda óbreyttum vöxtum.

Óvissa um alþjóðlegar efnahagshorfur. Þann 30. nóvember sl. samþykktu OPEC ríkin að draga úr olíuframleiðslu í þeim tilgangi að styðja við olíuverð. Í kjölfarið tók hráolíuverð hressilega við sér og fór hæst í tæpa 55 USD á tunnu, en hefur gefið nokkuð eftir síðustu tvo daga. Þegar þetta er ritað hefur verð á Brent hráolíu hækkað um tæp 14% frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi. Þá hefur breska þingið samþykkt Brexit áætlun Theresu May, forsætisráðherra Bretlands. Tilefni til að halda óbreyttum vöxtum.

Mikill vaxtamunur við útlönd. Í fundargerð peningastefnunefndar í nóvember er rætt um minnkun vaxtamunar sem rök fyrir lækkun vaxta. Það gæti aukið hvata innlendra aðila til að fjárfest erlendis og dregið úr gengishækkun krónunnar, sem væri orðin fullmikil á skömmum tíma. Síðan peningastefnunefnd ræddi þetta hefur krónan styrkst um rúm 2% mælt með gengisvísitölu. Á sama tíma hefur munur á langtímavöxtum á Íslandi og í Bandaríkjunum og á Evrusvæðinu minnkað um rúmlega 30 punkta, enda hafa vextir erlendis hækkað. Vaxtamunur milli Íslands og Bandaríkjanna virðist t.a.m. ekki hafa verið jafn lítill frá ársbyrjun 2011. Miðað við þessa þróun teljum við að ólíklegt að peningastefnunefnd lækki vexti á grundvelli vaxtamunar. Tilefni til að halda vöxtum óbreyttum.

Heimildir: Bloomberg, Kodiak, Greiningardeild Arion banka

10,2% hagvöxtur á 3F: Jólagjöf til vaxtahauka

Það mætti segja að jólin hafi komið snemma í ár hjá vaxtahaukum en landsframleiðslutölur fyrir þriðja ársfjórðung eru ekki til þess fallnar að auka líkur á vaxtalækkun. Landsframleiðslan jókst um 10,2% samanborið við sama tíma í fyrra, sem er mesti vöxtur á einum fjórðungi síðan 2007, og innlend eftirspurn jókst um 9,6%, sem einnig er mesti vöxtur á einum fjórðungi síðan fyrir hrun. Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur landsframleiðslan vaxið um 6,2%, sem bendir til þess að Seðlabankinn hafi vanmetið kraftinn í hagkerfinu í síðustu spá sinni, sem ýtir enn undir þá skoðun að peningastefnunefnd muni halda vöxtum óbreyttum.

Þá hafa aðrar hagtölur einnig lagst á sveif með vaxtahaukunum: launavísitalan hækkaði um 10,4% á ársgrunni í október, vísitala kaupmáttar launa hækkaði um 8,5% á ársgrunni í október, sala á nýjum bílum í nóvember jókst um 20,4% samanborið við sama tíma í fyrra, vísitala í búðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2% frá fyrri mánuði í nóvember og sala á freyðivíni jókst um 24% í nóvember miðað við nóvember í fyrra! Með þessa þróun bak við eyrað og augun á landsframleiðslutölunum mun peningastefnunefnd áfram vísa til vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands

Verðbólguvæntingar standa í stað

Frá síðustu vaxtaákvörðun í nóvember hafa verðbólguvæntingar nokkurn veginn staðið í stað og er því taumhald peningastefnunnar óbreytt. Ef litið er til könnunar á verðbólguvæntingum markaðsaðila frá því í nóvember eru væntingar um ársverðbólgu eftir 1 ár, 5 ár og 10 ár óbreyttar frá síðustu mælingu. Þá hafa verðbólguvæntingar til 2 ára hækkað úr 3,0% í 3,1%. Svipaða sögu er að segja um verðbólguvæntingar á markaði en þær eru meira eða minna óbreyttar frá því í nóvember. Engu að síður er mat 64% aðspurðra að taumhald peningastefnunnar sé of þétt eða alltof þétt um þessar mundir. Þá meta tæp 29% sem svo að taumhaldið sé hæfilegt en 7% telja taumhaldið of laust. Markaðsaðilar eru því flestir á því að lækka þurfi vexti og byggja rök sín á að verðbólguhorfur hafi batnað upp á síðkastið. Við teljum hins vegar ólíklegt að vaxtalækkun líti dagsins ljós í desember miðað við að verðbólguvæntingar eru óbreyttar frá síðustu stýrivaxtaákvörðun.

Heimild: Seðlabanki Íslands

Þó þarf að hafa í huga að Seðlabankinn lækkaði verðbólguspá sína töluvert við útgáfu síðustu Peningamála og byggir það að miklu leyti á forsendum um frekari styrkingu krónunnar. Seðlabankinn spáði að viðskiptavegin gengisvísitala krónunnar yrði tæplega 165 á næsta ári og færi svo undir 160 árið 2018. Gengisvísitalan hefur nú þegar nálgast 160 og er það töluvert meiri styrking en Seðlabankinn gerði ráð fyrir. Mögulegt er að peningastefnunefnd taki styrkingu krónunnar að undanförnu með í reikninginn, endurmeti verðbólguhorfur út frá þeim forsendum og geri ráð fyrir enn minni verðbólgu en í síðustu verðbólguspá. Sterkar útflutningstölur og nýlegar tölur um viðskiptaafgang benda vissulega til að krónan muni styrkjast áfram. Þannig má færa rök fyrir því að verðbólga verði minni og að svigrúm sé fyrir lækkun stýrivaxta. Við teljum þó líklegra að nefndin kjósi að bíða og meta stöðuna á nýju ári með opinn hug fyrir vaxtalækkun, en þá liggja fjárlög fyrir, losun fjármagnshafta hefur gengið í gegn og staðan á vinnumarkaði verður skýrari, nema verðbólguhorfur versni á næstu mánuðum.

Heimild: Seðlabanki Íslands