Spáum 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs í desember

Spáum 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs í desember

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,3% í desember en mæling Hagstofunnar verður birt þann 22. des. nk. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í stað í 2,1%. Verðbólguspá okkar fyrir næstu mánuði hefur hliðrast upp á við og stafar það aðallega af þeim gjaldskrárhækkunum sem eru framundan. Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2017 gerir ráð fyrir 4,7% hækkun á olíugjaldi, almennu og sérstöku bensíngjaldi, kolefnisgjaldi og bifreiðagjaldi um næstu áramót. Einnig hækkar álagning á áfengi og tóbak um 4,7%. Þessu til viðbótar eru þó nokkrar gjaldskrárhækkanir í kortunum hjá Reykjavíkurborg um næstu áramót.

Einnig hafa fjarskiptafélögin verið að tilkynna verðhækkanir að undanförnu. Nova mun hækka verðskrár sínar um áramótin en Vodafone og Síminn hafa nú þegar hækkað sínar verðskrár. Við gerum þó ráð fyrir að verðhækkanirnar hafi takmörkuð áhrif á VNV. Helstu liðir sem hækka í mánuðinum eru reiknuð húsaleiga (+0,16% áhrif á VNV) og flugfargjöld til útlanda (+0,14% áhrif á VNV). Á móti þessum hækkunum vegur þó styrking krónunnar en gengisvísitalan í desember er 4,8% sterkari en hún var í október að meðaltali og hefur það áhrif á liði eins og matarkörfuna og föt og skó.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Við spáum því að verðlag lækki um -0,6% í útsölum janúar. Þá spáum við 0,6% hækkun í febrúar á næsta ári þegar útsölur byrja að ganga til baka og 0,4% hækkun í mars. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í í 2,1% í mars á næsta ári.

Flugfargjöld og húsnæðisverð drífa áfram hækkanir í desember

Við spáum að fasteignaverð haldi áfram að hækka í desember og gerum ráð fyrir um rúmlega 1% hækkun (reiknuð húsaleiga +0,16% áhrif á VNV). Gangi spáin eftir mun fasteignaverð um allt land hafa hækkað um 14% á þessu ári. Á sama tíma stefnir ársverðbólgan í 2,0% og er því raunhækkun um 12%. Það er ljóst að slíkar hækkanir eru ekki sjálfbærar til lengri tíma litið. En hver þróunin verður á næstu misserum veltur að miklu leyti á því hve hratt framboð af nýjum íbúðum mun aukast. Þá spáum við að flugfargjöld til útlanda hækki um 12% (+0,14% áhrif á VNV) og er það í takt við þróun fyrri ára, en flugfargjöld hækka gjarnan í desember. Við gerum þó ráð fyrir ívið minni hækkunum í ár en undanfarin tvö ár.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Beðið eftir gjaldskrárhækkunum um áramótin

Í desember gerum við ráð fyrir að eldsneytisverð hækki (+0,03% áhrif á VNV) og verð á áfengi og tóbaki lækki lítillega (-0,01% áhrif á VNV). Engu að síður eru verulegar gjaldskrárhækkanir í kortunum um áramótin. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 hækkar olíugjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, almennt og sérstakt bensíngjald, kolefnisgjald og bifreiðagjald um 4,7% um næstu áramót. Hækkunin kann að hafa 0,05% til 0,07% áhrif á verðlag í janúar og þá þarf einnig að hafa í huga að verð á hráolíu hefur hækkað að undanförnu. Álagning á áfengi hækkar einnig um 4,7% um áramótin samkvæmt fjárlagafrumvarpi og hefur það svipuð áhrif á verðlag í janúar. Þá þarf einnig að horfa til þess að Reykjavíkurborg er að hækka ýmsar gjaldskrár sem mun hafa að öllum líkindum hafa áhrif til hækkunar á verðlag í janúar.

Húsgögn hækka en matarkarfan og föt og skór lækka

Við spáum því að húsgögn og heimilisbúnaður hækki í verði milli mánaða (+0,04% áhrif á VNV) og einnig aðrar vörur og þjónusta (+0,01% áhrif á VNV). Hins vegar gerum við ráð fyrir að matarkarfan haldi áfram að lækka (-0,03% áhrif á VNV) en þó minna en undanfarna mánuði. Einnig spáum við að föt og skór lækki í verði (-0,02% áhrif á VNV) og tómstundir og menning (-0,02% áhrif á VNV).

Afnám tolla og gjaldskrárhækkanir togast á um áramótin

Verulegar breytingar verða á gjaldskrám og tollum nú um áramótin sem mun hafa áhrif á verðlagsþróun í janúar. Líkt og áður var nefnt hækkar álagning á áfengi, tóbak og eldsneyti í ársbyrjun 2017 um 4,7% og samtals gerum við ráð fyrir að áhrif á verðlag verði um 0,10% - 0,15% til hækkunar. Hins vegar taka síðari breytingar á tollum gildi 1. janúar 2017 og er þar með verið að afnema tolla á allar vörur nema mat- og drykkjarvöru. Líklegt er að það hafi einhver áhrif til lækkunar á verðlag en þó er óljóst hve mikið vægi vörurnar hafa í vísitölu neysluverðs. Afnám tolla og gjaldskrárhækkanir togast því á um áramótin en að okkar mati munu gjaldskrárhækkanirnar vega þyngra og hafa meiri áhrif á verðlag til hækkunar.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

Janúar -0,6%: Útsölur í upphafi næsta árs á fötum og skóm og húsgögnum.
Febrúar +0,6%: Útsöluáhrif ganga til baka, matarverð hækkar og húsnæðisverð hækkar.
Mars +0,4%: Útsöluáhrif ganga til baka og húsnæðisverð hækkar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka