Vísitala neysluverðs hækkar um 0,14% í desember

Vísitala neysluverðs hækkar um 0,14% í desember

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,14% í desember skv. nýbirtum mælingum Hagstofunnar og er það húsnæðisliðurinn sem keyrir verðbólguna áfram. Húsnæðisverð hækkaði um 1,6% um land allt, en mest hækkaði húsnæði utan höfuðborgarsvæðisins, eða um 4,2% milli mánaða. Þetta er áttundi mánuðurinn í röð sem húsnæðisverð hækkar um 1% eða meira milli mánaða. Þróun vísitölunnar var undir spám greiningaraðila en þær lágu á bilinu +0,2% til +0,5% og spáðum við 0,3% hækkun verðlags. Ársverðbólga mælist nú 1,9% og kjarnavísitala 1 hefur hækkað um 2,1% síðustu 12 mánuði en án húsnæðisliðarins er verðhjöðnun upp á -0,8%.

Það sem helst kom á óvart í mánuðinum var töluverð lækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði (-0,07% áhrif á VNV), lækkun á matarkörfunni (-0,06% áhrif á VNV), lækkun á fatnaði (-0,06% áhrif á VNV) og tómstundum og menningu (-0,05% áhrif á VNV).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Við spáum því að verðlag lækki um -0,6% í útsölum janúar. Þá spáum við 0,6% hækkun í febrúar á næsta ári þegar útsölur byrja að ganga til baka og 0,4% hækkun í mars. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í í 1,8% í mars á næsta ári.

Húsgögn og tómstundir lækka

Húsgögn lækkuðu í desember (-0,07% áhrif á VNV), þvert á okkar spár. Mest lækkuðu raftæki um 3,5%, vefnaðarvörur um 2,8% og borðbúnaður um 2,4%. Í jólamánuðinum hafa húsgögn sjaldan lækkað jafnmikið og í ár og má rekja þróunina til styrkingu krónunnar. Tómstundir og menning lækka einnig (-0,05% áhrif á VNV) og vegur þar þyngst lækkun á sjónvörpum (-7,8% lækkun) og hljómflutningstækjum (-3,8% lækkun). Það er mesta lækkun á tómstundum og menningu í desember frá árinu 2010.

Matarkarfan og föt lækka

Matur og drykkjarvörur lækkuðu milli mánaða (-0,06% áhrif á VNV) og var það nokkuð þvert á flesta vöruflokka. Lækkunin var nokkuð umfram okkar spár og má einnig rekja það til styrkingar krónunnar. Fatnaður lækkaði sömuleiðis (-0,06% áhrif á VNV) en skór hækkuðu í verði. Í janúar má svo gera ráð fyrir frekari lækkunum á fötum og skóm í útsölum eftir hátíðirnar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka 

Ferðaliðurinn hækkar

Ferðaliðurinn hækkaði milli mánaða (+0,08% áhrif á VNV) og má segja að ferðaliðurinn og húsnæðisliðurinn séu nánast einu liðirnir sem hækka að einhverju ráði. Þar af hækka flugfargjöld til útlanda um 6,5% (+0,08% áhrif á VNV) og flugfargjöld innanlands hækka um 11,1% (+0,02% áhrif á VNV). Þá hækkar einnig bensín og olíur (+0,03% áhrif á VNV) en aðrir liðir lækka á móti s.s. bílar (-0,02% áhrif á VNV).

Gengi krónunnar ræður miklu um verðbólguþróun fram á við

Með hverjum mánuðinum sem líður virðist sem verðbólguþrýstingur á innlendar vörur gefi eftir í vaxandi mæli og einnig dregur úr hækkun verðlags á opinberri og annarri þjónustu. Eftir standa í raun tveir þættir sem yfirgnæfa aðra undirliði VNV: hækkun húsnæðisverðs og lækkun á innfluttum vörum. Það er fátt sem bendir til þess að það muni draga úr hækkun húsnæðisverðs á næstu mánuðum eða misserum. Þá er í raun lykilspurningin hvort styrking krónunnar muni halda áfram og hvort innfluttar vörur lækki frekar í verði. Ef svo er þá má búast við verðbólgu við eða undir verðbólgumarkmiði. Aftur á móti ef hægir á styrkingu nafngengisins er líklegt að verðhjöðnun innfluttra vara muni gefa eftir. Verðbólgan væri þá fljót að hækka úr 1,9% í rúm 3% og hefði það töluverð áhrif á horfur í peningamálum og vaxtahækkanir væru líklegar í kjölfarið. Verðbólguþróun veltur því að miklu leyti á þróun gengis krónunnar framundan og getur það ráðið úrslitum hvort við fáum enn eitt árið með verðbólgu undir verðbólgumarkmiði eða hvort bóla fari á vaxandi verðbólguþrýstingi.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka 

Verðbólguþróun næstu mánuði:

• Janúar -0,6%: Útsölur í upphafi næsta árs á fötum og skóm og húsgögnum.
• Febrúar +0,6%: Útsöluáhrif ganga til baka, matarverð hækkar og húsnæðisverð hækkar.
• Mars +0,4%: Útsöluáhrif ganga til baka og húsnæðisverð hækkar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.