Verðbólguspá: mánuður tollabreytinga og hækkunar krónutölugjalda

Verðbólguspá: mánuður tollabreytinga og hækkunar krónutölugjalda

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) lækki um 0,6% milli mánaða í janúar og stendur þá ársverðbólgan í stað í 1,9%. Verðbólguhorfur eru enn góðar til skamms tíma og gerum við ráð fyrir að verðbólga haldist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram að hausti. Hvort ársverðbólgan hækkar með haustinu eða verður áfram lítil ræðst að mestu leyti af þróun gengis krónunnar. Lykilspurningin er hvort gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins og einskiptis gjaldeyrisinnflæði muni halda áfram að styrkja gengi krónunnar enn frekar eða hvort meira jafnvægi muni nást á gjaldeyrismarkaði. Að okkar mati er raungengið orðið frekar sterkt um þessar mundir og er ekki sjálfgefið að viðskiptakjarabatinn haldi áfram næstu misseri. Af þeim sökum eru vaxandi líkur á að jafnvægi muni nást á gjaldeyrismarkaði og í öllu falli ekki ástæða til að treysta á að styrking krónunnar haldi verðbólgunni í skefjum líkt og síðustu misserin. Að auki hefur verðbólga í helstu viðskiptalöndum aukist sem gæti stöðvað lækkun á verði innfluttra vara og aukið verðbólguþrýsting með haustinu

Heimild: Greiningardeild Arion banka

Við spáum því að verðlag hækki um 0,7% í þegar útsölur ganga til baka í febrúar. Þá spáum við 0,5% hækkun í mars og 0,3% í apríl. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í í 2,2% í apríl.

Útsöluáhrif og afnám tolla lækkar verð í ársbyrjun

Í ár gerum við ráð fyrir að útsöluáhrifin verði aðeins meiri en í fyrra. Þá lækka föt og skór (-0,67% áhrif á VNV) og húsgögn og heimilisbúnaður (-0,28% áhrif á VNV). Mikil lækkun húsgagna skýrist annars vegar af afnámi tolla og hins vegar af styrkingu krónunnar undanfarna mánuði, en húsgögn gætu lækkað um allt að 10% sökum afnáms tolla. Tollabreytingarnar hafa einnig víðtækari áhrif í okkar spá og sem dæmi lækka sjónvörp, útvarpstæki og hljómtæki um 7,5%. Leikföng og spil lækka um 10% og snyrtivörur og barnavagnar lækka um 10% ásamt ýmsum íþróttabúnaði. Þetta eru þó aðeins örfáir vöruflokkar sem nefndir eru hér sem dæmi og byggir á samantekt Félags Atvinnurekenda. Lækkanirnar munu því einnig endurspeglast í tómstundum og menningu (-0,10% áhrif á VNV).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Ferðaliðurinn stendur nánast í stað

Við spáum því að ferðaliðurinn í heild breytist lítið milli mánaða, en þó benda mælingar til þess að flugfargjöld til útlanda lækki um 11% (-0,13% áhrif á VNV). Á móti vegur hækkun eldsneytisverðs innanlands (+0,13% áhrif á VNV) og stafar það helst af 4,7% hækkun krónutölugjalda um áramótin en skv. fjárlögum 2017 hækka bensín- og olíugjöld og einnig kolefnisgjald. Einnig hefur hráolíuverð á heimsmörkuðum hækkað síðustu mánuði og má gera ráð fyrir að ef hækkunin heldur áfram á nýju ári muni það fljótlega endurspeglast í hærra eldsneytisverði.

Húsnæðisliðurinn heldur áfram að slá fyrri met

Við spáum því að húsnæðisliðurinn haldi áfram að hækka og vegur þyngst hækkun húsnæðisverðs (+0,16% áhrif á VNV). Á ársgrundvelli er því líklegt að hækkun fasteignaverðs haldi áfram að slá fyrri met og fari jafnvel yfir 15% á ársgrundvelli um land allt. Einnig gerum við ráð fyrir að aðrir undirliðir hækki um áramótin eins og greidd húsaleiga, hiti og rafmagn og annað vegna húsnæðis (samtals +0,09% áhrif á VNV). Húsnæðisliðurinn hefur því samtals +0,25% áhrif á VNV til hækkunar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Matarkarfan hækkar ásamt áfengi og tóbaki

Gera má ráð fyrir að matur og drykkjarvörur hafi hækkað um áramótin líkt og á síðustu árum (+0,07% áhrif á VNV) og sömuleiðis hækkar áfengi og tóbak vegna 4,7% hækkunar krónutölugjalda (+0,05% áhrif á VNV). Einnig spáum við að aðrar vörur og þjónusta hækki (+0,03% áhrif á VNV) ásamt heilsu (+0,03% áhrif á VNV) og hótelum og veitingastöðum (+0,02% áhrif á VNV).

Sjómannaverkfall hristir upp í gjaldeyrismarkaðinum

Frá því um miðjan desember hefur hægt verulega á styrkingu krónunnar og stóð gengi krónunnar gagnvart evru nánast í stað í desember mánuði. Þá veiktist krónan nokkuð hratt í byrjun árs og nam veikingin gagnvart evru 3% á fyrstu átta viðskiptadögum ársins. Skýrist veikingin að hluta til af sjómannaverkfallinu sem stendur nú yfir og er því lítill sem enginn fiskútflutningur. Einnig gerist þetta utan háannatíma ferðaþjónustunnar og því eru gjaldeyristekjur þjóðarbúsins minni nú en undanfarna mánuði. Krónan fylgir því þróun raunhagkerfisins og endurspeglar þetta hvaða áhrif það gæti haft ef viðsnúningur yrði á viðskiptakjarabatanum og ef hægja færi á fjölgun ferðamanna. Það eru þó engar vísbendingar um að það gerist á næstunni en ljóst er að gengi krónunnar þróast að einhverju leyti í takt við útflutningstekjur þjóðarbúsins. Sömuleiðis ræðst þróun verðbólgunnar á næstu árum að miklu leyti af gengisþróun krónunnar. Að okkar mati eru verðbólguhorfur þó góðar til skamms tíma og gerum við ráð fyrir að verðbólga verði undir verðbólgumarkmiði fram að hausti.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verðbólguþróun næstu mánuði:

Febrúar +0,7%: Útsöluáhrif ganga til baka, húsnæðisverð og tómstundir hækka.
Mars +0,5%: Útsöluáhrif ganga til baka, húsnæðisverð og flugfargjöld hækka.
Apríl +0,3%: Helsta hækkunin í apríl verður hækkun húsnæðisverðs.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka