Hækkun krónutölugjalda og íbúðaverðs vegur á móti útsöluáhrifum

Hækkun krónutölugjalda og íbúðaverðs vegur á móti útsöluáhrifum

Vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um 0,57% í janúar skv. nýbirtum mælingum Hagstofunnar og stendur ársverðbólgan óbreytt í 1,9%. Milli mánaða lækka föt og skór (-0,42% áhrif á VNV) og húsgögn og heimilisbúnaður (-0,31% áhrif á VNV) og má rekja það til útsöluáhrifa í ársbyrjun. Á móti vegur hækkun krónutölugjalda samkvæmt fjárlögum 2017. Endurspeglast krónutölugjöldin helst í hækkun eldsneytisverðs (+0,14% áhrif á VNV) og hækkun áfengis og tóbaks (+0,12% áhrif á VNV). Líkt og fyrri mánuði hækkar húsnæðisverð hratt milli mánaða eða 1,25% um land allt (+0,22% áhrif á VNV) og má segja að húsnæðisliðurinn sé einn helsti liðurinn sem drífi áfram verðbólguna. Án húsnæðisliðarins mælist ársverðbólgan -0,9%. Verðbólguhorfur næstu mánuði ráðast að miklu leyti af gengisþróun krónunnar en frá áramótum hefur nafngengi krónunnar veikst um 4,5%. Haldi sjómannaverkfallið áfram næstu vikur má búast við frekari veikingu krónunnar og gæti það haft áhrif á verðlagningu innfluttra vara. Enn sem komið er hafa þó innfluttar vörur lækkað í verði milli ára um rúmt prósentustig og er því langt í land þar til þær fara að hækka í verði á ársgrundvelli.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Við spáum því að verðlag hækki um 0,7% þegar útsölur ganga til baka í febrúar. Þá spáum við 0,5% hækkun í mars og 0,3% í apríl. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í í 2,1% í apríl.

Útsöluáhrif og afnám tolla lækka verð í ársbyrjun

Föt og skór lækkuðu um tæp 10% (-0,42% áhrif á VNV) og var það almennt minna en spáð var. Þá lækkuðu húsgögn og heimilisbúnaður um -7,6% (-0,31% áhrif á VNV). Útsöluáhrifin í heild voru því minni en þau hafa verið í janúar mánuði undanfarin ár. Við gerum ráð fyrir að föt og skór og húsgögn og heimilisbúnaður hækki svo í febrúar og mars þegar útsöluáhrifin ganga að mestu leyti til baka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Hækkun krónutölugjalda hækkar verðlag um 0,24%

Um áramót taka yfirleitt ýmsar skattahækkanir, hækkanir á krónutölugjöldum og gjaldskrárhækkanir gildi hjá opinberum fyrirtækjum. Í gegnum tíðina hefur verðlag því gjarnan hækkað í janúar vegna þessa. Árið í ár er engin undantekning og hefur hækkun krónutölugjalda 0,24% áhrif til hækkunar á VNV. Hækkunin skiptist í annars vegar eldsneyti (+0,14% áhrif á VNV) og hins vegar áfengi og tóbak (+0,12% áhrif á VNV).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Húsnæði utan höfuðborgarsvæðisins hefur hækkar um 20%

Húsnæðisverð hækkaði um 1,25% milli mánaða um land allt (+0,22% áhrif á VNV). Á höfuðborgarsvæðinu hækkaði fjölbýli um 1,4% á meðan sérbýli lækkaði um 0,13%. Utan höfuðborgarsvæðisins hækkaði húsnæðisverð um 2,8% en mánuðinn á undan nam hækkunin 4,2% og hefur því fasteignaverð úti á landi tekið hressilega við sér. Árshækkun á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins nemur því tæplega 20% um þessar mundir. Húsnæðisliðurinn án reiknaðrar húsaleigu hafði +0,13% áhrif til hækkunar á VNV.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Myndarleg lækkun á öðrum liðum

Athygli vekur að bílar lækkuðu um heil 3,4% (-0,20% áhrif á VNV) og hefur því styrking krónunnar á síðasta ári enn áhrif til lækkunar á innfluttar vörur, þrátt fyrir veikingu krónunnar að undanförnu. Það er því merki um að nokkur töf er á áhrifum krónunnar á verðlag eða sem nemur nokkrum mánuðum. Flugfargjöld til útlanda lækkuðu einnig (-0,15% áhrif á VNV) sem og póstur og sími (-0,08% áhrif á VNV) og tómstundir og menning (-0,06% áhrif á VNV). Helsti liðurinn sem olli lækkun á tómstundum og menningu var 12,6% lækkun á sjónvörpum og útvörpum ásamt 7,3% lækkun á leikjatölvum. Lækkunina má að hluta til rekja til seinni áfanga í afnámi tolla.

Útlit fyrir veikingu krónunnar á meðan sjómannaverkfall stendur yfir

Frá ársbyrjun hefur gengi krónunnar veikst um 4,5% gagnvart evru og skýrist það helst af yfirstandandi sjómannaverkfalli. Einnig skilar þjóðarbúið minni gjaldeyristekjum utan háannatíma ferðaþjónustunnar. Gengisþróun krónunnar endurspeglar því gjaldeyristekjur þjóðarbúsins og viðskiptakjör hverju sinni. Svo lengi sem sjómannaverkfallið heldur áfram má búast við því að veiking krónunnar haldi áfram en ef kjaradeilan leysist má áætla að gengi krónunnar verði stöðugra og að gengið jafnvel styrkist þegar líða fer á sumarið og háannatími ferðaþjónustunnar hefst. Hér að neðan má sjá hvernig dregið hefur úr gjaldeyrisinngripum Seðlabankans að undanförnu, samhliða veikingu krónunnar, og einnig hefur veltan almennt verið minni en hún var í haust. Það vekur þó athygli að Seðlabankinn er að kaupa gjaldeyri á sama tíma og gengi krónunnar veiktist í byrjun vikunnar. Það virðist því ekki sem Seðlabankinn muni leggjast gegn veikingu krónunnar og má þar af leiðandi leiða líkur að því að krónan veikist svo lengi sem sjómannaverkfallið stendur yfir.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Verðbólguþróun næstu mánuði:
Febrúar +0,7%: Útsöluáhrif ganga til baka, húsnæðisverð og tómstundir hækka.
Mars +0,5%: Útsöluáhrif ganga til baka, húsnæðisverð og flugfargjöld hækka.
Apríl +0,3%: Helsta hækkunin í apríl verður hækkun húsnæðisverðs.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.