Húsnæðismarkaðurinn: Enn í leit að jafnvægi

Húsnæðismarkaðurinn: Enn í leit að jafnvægi

Greiningardeild Arion banka hefur nú birt nýja skýrslu um íbúðamarkaðinn. Í skýrslunni má finna ýmsar upplýsingar sem snúa að þessum mikilvæga markaði, t.d. um eftirspurn, verðþróun, áætlanir um byggingu íbúða og verðspá.

Húsnæðismarkaðurinn: Enn í leit að jafnvægi 
Glærur frá kynningarfundi 

Helstu niðurstöður: 

  • Húsnæðisverð hefur hækkað sífellt hraðar síðustu mánuði og nam árshækkunin á höfuðborgarsvæðinu í desember 15%.
  • Önnur svæði hafa tekið við sér síðustu mánuði og hefur húsnæðisverð utan höfuðborgarsvæðisins hækkað um 20% sl. 12 mánuði. Sú hækkun er að mestu leyti drifin áfram af mikilli hækkun húsnæðisverðs í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins.
  • Hagstætt efnahagsástand, fólksfjölgun, kaupmátturaukning og gott aðgengi að fjármögnun hafa stutt við hækkanir á húsnæðisverði og munu líklega gera áfram.
  • Hækkun húsnæðisverðs skýrist einnig af því að of lítið hefur verið byggt síðustu ár og áætlanir hafa ekki staðist. Byggja þarf a.m.k. 8.000 íbúðir á næstu þremur árum til að halda í við fólksfjölgun og er þá ekki tekið fyllilega tillit til uppsafnaðrar þarfar. Samkvæmt okkar spá er ólíklegt að sá fjöldi náist.
  • Leiguverð hefur hækkað hægar en húsnæðisverð síðastliðin tvö ár og er hlutfall húsnæðisverðs og leiguverðs að nálgast langtímameðaltal. Lítið framboð og ótrygg búseta hafa sett svip sinn á leigumarkaðinn en svokölluðum Leiguheimilum er m.a. ætlað að tækla þann vanda.
  • Við spáum 14% hækkun húsnæðisverðs í ár, 9,7% á næsta ári og 7,5% árið 2019. Spáin er háð ströngum forsendum og leiðir sviðsmyndagreining í ljós að breyttar forsendur geta aukið eða slegið á verðhækkanir.
  • Íbúðamarkaðurinn er vel heitur um þessar mundir og útlit fyrir að hann hitni ennþá meira gangi spá okkar eftir. Nú þegar glittir í gul ljós á sumum svæðum þar sem verð hefur hækkað sérlega mikið.
  • Gangi spáin eftir er útlit fyrir að húsnæðisverð hækki talsvert umfram flestar undirliggjandi hagstærðir á borð við kaupmátt ráðstöfunartekna. Til lengri tíma er því ástæða til að vara við ofhitnun á markaðinum.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Þjóðskrá Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Miðað er við fjölda íbúa á íbúð árið 2015.