Spáum óbreyttum vöxtum – húsnæðisskortur hækkar verðbólguspá

Spáum óbreyttum vöxtum – húsnæðisskortur hækkar verðbólguspá

Þann 8. febrúar nk. birtir peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands vaxtaákvörðun og spáum við að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum í 5%. Í desember kom nefndin okkur nokkuð á óvart og lækkaði vexti um 0,25 prósentustig og gaf í skyn að fleiri, en litlar, vaxtalækkanir væru í pípunum. Síðan þá hefur gengi krónunnar veikst lítillega, verðbólguhorfur erlendis hafa frekar versnað og enn má ætla að hætta sé á að kjarasamningar verði teknir upp á næstu vikum, sem gæti þýtt meiri launahækkanir en ella. Þá bendir ný skýrsla Greiningardeildar um húsnæðismarkaðinn til áframhaldandi hækkana húsnæðisverðs á árinu og vaxandi verðbólgu í árslok. Þessir þættir gætu leitt til þess að nefndin verði varfærnari og klæði sig úr vaxtalækkunarbuxunum, í bili a.m.k., þó að verðbólguvæntingar séu enn lítillega undir verðbólgumarkmiði.

Heimild: Fundargerð peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, desember 2016

Til að átta sig á því hvað nefndarmönnum verður efst í huga á fundinum í næstu viku er gagnlegt að líta á hvernig þættirnir sem lágu til grundvallar síðustu ákvörðun hafa þróast:

  • Óvissa um aðhald í ríkisfjármálum hefur minnkað frá síðustu ákvörðun en fjárlög 2017 voru samþykkt stuttu eftir hana. Afgangur á frumjöfnuði verður um 91 ma.kr., sem er svipuð upphæð og var skv. fjárlagafrumvarpi. Á móti kemur þó að útgjöld aukast meira en skv. fjárlagafrumvarpi og byggjast þau á tekjum vegna góðra efnahagshorfa. Við teljum að peningastefnunefnd gæti áfram gagnrýnt of lítið aðhald í ríkisfjármálum og að fjárlög 2017 gefi tilefni til að halda vöxtum óbreyttum.
  • Gengi krónunnar hefur sveiflast nokkuð síðustu vikur og er nú um 2% veikara en þegar peningastefnunefnd hittist síðast í desember. Af þeim sökum er langsótt að peningastefnunefnd noti gengi krónunnar sem rök fyrir vaxtalækkun að þessu sinni. Um þessar mundir er fremur rólegur tími í ferðaþjónustunni og, það sem mikilvægara er, þá hefur sjómannaverkfall staðið yfir í hátt í tvo mánuði. Gera má ráð fyrir að nefndin taki því tillit til þess að gengi krónunnar gæti styrkst þegar verkfalli lýkur og ferðamönnum fjölgar með hækkandi sól. Líklegt er að þær breytingar þurfi að raungerast áður en peningastefnunefnd bregst við. Tilefni til að halda vöxtum óbreyttum í bili.
  • Vaxtamunur við útlönd er enn mikill en útlit er fyrir að það gæti breyst. Eins og sést hér að neðan er verðbólga vaxandi í viðskiptalöndum okkar, en það gæti leitt til hærri vaxta erlendis og meiri verðbólgu hérlendis. Sem dæmi má nefna að verðbólga á Evrusvæðinu hefur ekki mælst meiri í fjögur ár. Hvort og hversu mikið peningastefnunefndin horfir á vaxtamun er á reiki og má merkja afar misvísandi skilaboð. Í fundargerð peningastefnunefndar er vaxtamunur við útlönd nefndur sem ástæða til að lækka vexti og minnka styrkingarþrýsting á krónuna. Á kynningarfundi í kjölfar þess fundar sagðist seðlabankastjóri aftur á móti ekki telja að vaxtabreytingar hefðu mikil áhrif á gengi krónunnar, nema á jaðrinum. , „Við erum ekki að lækka vexti út af því.“ Óljóst er hvort tilefni sé til að breyta vöxtum nú vegna erlendrar verðbólguþróunar og vaxtamunar, en nýleg þróun gæti hert tón nefndarinnar.

Heimildir: Eurostat, Bloomberg, Greiningardeild Arion banka. *Spá miðast við VNV án húsnæðis, gengi krónu er fast
  • Stóra myndin í efnahagsumhverfinu hefur lítið breyst frá síðasta fundi peningastefnunefndar og flestar hátíðnivísbendingar benda til kröftugs hagvaxtar næstu misseri. Enn er útlit fyrir að sá vöxtur verði keyrður áfram af fjölgun ferðamanna, a.m.k. næsta árið eða svo, þannig að samsetning hagvaxtar verður líklega áfram fremur hagstæð. Engu að síður er hætta á að aukinn kaupmáttur og bætt fjárhagstaða leiði til verulegrar aukningar neyslu og vaxandi skuldsetningar sem getur skapað verðbólguþrýsting og leitt til vaxtahækkana. Tilefni til að halda vöxtum óbreyttum með áframhaldandi varkárni og með fremur háu aðhaldsstigi.
  • Óvissa um launaþróun hefur að okkar mati aukist frá síðasta fundi og hafa horfurnar frekar versnað. Óljóst er hvort að aðgerðir forsætisnefndar Alþingis, með lækkun á ferða- og starfskostnaði þingmanna, muni lægja þunga undiröldu óánægju á vinnumarkaði í kjölfar ákvörðunar kjararáðs um launahækkanir ráðamanna. Ef tekið er tillit til aðgerða forsætisnefndar Alþingis hafa laun þingmanna engu að síður hækkað um rúm 24% á einu bretti skv. okkar útreikningum. Endurskoðun kjarasamninga á almennum markaði er hafin og fram hefur komið að ASÍ telji að ekki hafi verið staðið við loforð um uppbyggingu almennra íbúða, sem var forsenda fyrir kjarasamningum 2015. Það eru því að okkar mati vaxandi líkur á því að kjarasamningar verði teknir upp á næstunni og því sé ástæða til að bíða með allar mögulegar vaxtalækkanir þar til greitt hefur verið úr þeirri óvissu. Tilefni til að halda vöxtum óbreyttum en herða tón.

Miklar hækkanir húsnæðisverðs í kortunum

Húsnæðisverð hefur hækkað sífellt hraðar síðustu mánuði og verið sá undirliður er keyrt hefur verðbólguna áfram. Síðastliðin þriðjudag gáfum við út nýja skýrslu um íbúðamarkaðinn sem ber yfirskriftina „Enn í leit að jafnvægi“. Líkt og hefð hefur skapast fyrir birtum við verðspá fyrir næstu ár, og spáum við áframhaldandi hækkunum á húsnæðisverði. Þannig spáum við 14% hækkun húsnæðisverðs í ár og tæplega 10% hækkun á næsta ári. Húsnæðisliðurinn mun því halda áfram að ýta undir verðbólguþrýsting, og líklega með meiri þunga en áður.

Þegar kemur að húsnæðisliðnum er peningastefnunefnd stödd í hálfgerðu “Catch 22” ástandi: Ef hún hækkar vexti til að draga úr verðbólguþrýstingi, sem er að mestu leyti tilkominn vegna hækkandi húsnæðisverðs, getur það haft letjandi áhrif á íbúðafjárfestingu, sem væri afar óheppilegt í ljósi þess að verðhækkanir að undanförnu eru að miklu leyti drifnar áfram af framboðsskorti. Ef nefndin aftur á móti lækkar vexti getur það ýtt við íbúðafjárfestingu, en það tekur tíma að byggja íbúðir svo einhver tími er í að framboðsaukningin slái á verðhækkanir. Á sama tíma myndi húsnæðisverð líklega hækka enn hraðar með tilheyrandi verðbólguþrýstingi.

Samhliða nýrri spá um húsnæðisverð uppfærðum við langtímaverðbólguspá okkar frá því í nóvember. Líkt og sjá má teljum við að verðbólguhorfur hafi versnað nokkuð og spáum við nú 2,4% verðbólgu í ár en ekki 1,8% líkt og fyrri spá hljóðaði upp á. Munar þar mestu að gert er ráð fyrir brattari launahækkunum en áður, stígandi verðbólgu í helstu viðskiptalöndum og síðast en ekki síst, meiri hækkun húsnæðisverðs. Sé húsnæðisliðurinn undanskilinn spáum við 0,3% verðbólgu í ár. Hér kristallast því áður umrædd staða peningastefnunefndar. Vert er að benda á að verðbólguspár okkar miða við þá tæknilegu forsendu að gengi krónunnar sé fast, sem útskýrir mikla hækkun um áramótin þegar gengisáhrifin fjara út, á meðan spá Seðlabankans miðað við áframhaldandi gengisstyrkingu. Við teljum þó líklegt að gengi krónunnar geti styrkst á þessu ári, sem myndi þá halda aftur af verðbólguþrýstingi.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hvað kom út úr skötuveislu peningastefnunefndar?

Síðustu misseri, sérstaklega frá miðju ári 2015, hefur Seðlabankinn lagst af miklum þunga gegn gengisstyrkingu krónunnar með gjaldeyriskaupum, sem námu t.d. tæpum 50 ma.kr. í október sl. Yfirlýstur tilgangur gjaldeyriskaupanna hefur verið að draga úr sveiflum í gengi krónunnar, og nú koma í veg fyrir ofris hennar. Frá því í nóvember hefur gengi krónunnar veikst lítillega og sveiflast talsvert. Þessar sveiflur koma okkur að vissu leyti á óvart og stríða nokkuð gegn stefnu bankans um að draga úr þeim. Sérstaklega þykir okkur einkennilegt að Seðlabankinn hafi tekið þátt í 2% gengisveikingu 24. janúar sl. með því að kaupa 3 milljónir evra á gjaldeyrismarkaði. Í 97% tilvika frá árinu 2000 hefur krónan sveiflast minna en 2% gagnvart evru svo ef það er ekki óhófleg sveifla er erfitt að átta sig á því hvar mörkin liggja í hjá Seðlabankanum.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Í síðustu fundargerð boðaði peningastefnunefnd að gjaldeyrisinngripastefnan yrðu endurskoðuð á nýju ári. Í skýrslu nefndarinnar til Alþingis frá 24. janúar kemur fram að nefndin hafi haldið aukafund um gjaldeyrismál á Þorláksmessu. Af skýrslunni að dæma virðist sem ekki hafi verið annað ákveðið á fundinum en að styðja áform um aukin gjaldeyriskaup ef þurfa þótti í kringum rýmkun hafta um áramótin. Hvort sem fleira var ákveðið eða ekki þá teljum líklegt að ekki verði gerðar miklar breytingar á gjaldeyrisinngripastefnunni og að Seðlabankinn haldi áfram að leggjast gegn styrkingu krónunnar ef þarf. Þó teljum við að fullt tilefni sé til þess að gert sé betur grein fyrir gjaldeyrisinngripstefnu Seðlabankans og hvernig henni verður háttað nú þegar höft hafa verið losuð að miklu leyti. Einnig verður forvitnilegt að heyra hvað peningastefnunefnd hefur að segja um næstu skref við losun hafta, en flest rök hníga að því að haldið verði áfram á þeirri vegferð.