Óbreyttir vextir og verðbólga áfram við markmið

Óbreyttir vextir og verðbólga áfram við markmið

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í morgun að halda vöxtum óbreyttum í samræmi við okkar spá. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 5%. Segja má að yfirlýsingin sé í góðum takti við væntingar okkar en í henni má greina talsverða varfærni peningastefnunefndar og áherslu á að peningastefnan verði aðhaldssöm á næstunni sökum mikils uppgangs í hagkerfinu. Engu að síður segir í yfirlýsingunni að „Traustari kjölfesta verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmiðið og hækkun gengis krónunnar hafa hins vegar gert peningastefnunefnd mögulegt að ná lögboðnu markmiði um verðstöðugleika við lægra vaxtastig en ella.“ Þannig er ekki loku skotið fyrir frekari vaxtalækkanir á árinu.

Meiri hagvöxtur en minni verðbólga í ár

Athygli vekur að Peningastefnunefnd telur að verðbólguhorfur hafi batnað, en sú skoðun byggir að miklu leyti á því að Seðlabankinn gerir ráð fyrir enn meiri gengisstyrkingu í spá sinni. Þær verðbólguhorfur byggja einnig á þeirri forsendu að kjarasamningar á vinnumarkaði losni ekki á næstunni, en eins og við fjölluðum um í stýrivaxtaspá okkar hafa líkur á því aukist. Utan landsteinanna hefur verðbólga aftur á móti þokast upp á við, og benda flestar vísbendingar til vaxandi efnahagsumsvifa, áframhaldandi stígandi verðbólgu og mögulegra vaxtahækkana. Okkur finnst því undarlegt að þegar rætt er um batnandi verðbólguhorfur sé lítil alþjóðleg verðbólga tiltekin sem mótvægi við innlendan verðbólguþrýsting, einkum í ljósi nýlegrar verðbólguþróunar í helstu viðskiptalöndum okkar.

Líkt og sjá má hefur Seðlabankinn fært verðbólguspá sína fyrir árið í ár niður á við og spáir nú að meðaltali 2,1% verðbólgu í ár, samanborið við 2,3% í nóvember. Okkar verðbólguspá er nokkuð brattari en við spáum að meðaltali 2,4% verðbólgu í ár. Hafa verður í huga að spá Seðlabankans miðar við áframhaldandi gengisstyrkingu á meðan spá Greiningardeildar gerir ráð fyrir föstu gengi. Sé gengisspá Seðlabankans tekin inn í okkar líkan verða spárnar áþekkar, en muninn þar fyrir utan má líklega rekja til húsnæðisliðarins. Í nýjum Peningamálum kemur fram að hækkun húsnæðisliðarins gæti verið vanmetin ef ójafnvægi á húsnæðismarkaði ágerist enn frekar, en við teljum talsverðar líkur á að svo verði.

Þá birti Seðlabankinn nýja þjóðhagsspá þar sem spáð er áframahaldandi örum hagvexti. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur hafi verið 6% í fyrra, sem er talsvert meiri vöxtur en áður var spáð, og að hann verði 5,3% í ár. Mestu munar um mikinn vöxt atvinnuvegafjárfestingar og útfluttrar þjónustu, en báðir liðir fóru fram úr væntingum í fyrra.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Það stefnir í minnkandi aðhald, en munu vextir samt lækka?

Athyglisvert er að Seðlabankinn spái verðbólgu innan við hálfu prósentustigi frá markmiði nánast allt spátímabilið til ársins 2020, en slíkt hefur sjaldan verið raunin. Þar sem ekki er gefin skýr framsýn leiðsögn getur verið gagnlegt að skoða verðbólguspá Seðlabankans í samhengi við núverandi stýrivexti. Eins og sést hér að neðan fer peningalegt aðhald minnkandi á spátímanum við óbreytt vaxtastig sökum vaxandi verðbólgu og á sama tíma eykst framleiðsluspenna í ár. Þannig myndi Seðlabankinn, miðað við sína spá, þurfa að hækka vexti í ár til að halda óbreyttu aðhaldi. Á móti vegur annars vegar sú staðreynd að jafnvægisvextir hafa að líkindum lækkað eins og við höfum fjallað um, þó engin viti nákvæmlega hversu mikið. Hins vegar hefur peningastefnunefnd og seðlabankastjóri oft gefið í skyn vilja til að lækka vaxtastig síðustu mánuði, bæði í orði og á borði. Við metum því áfram líkur á lítils háttar vaxtalækkun(um) á næstu misserum ef forsendur um hógværar launahækkanir og annað halda. En það eru stór ef.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Dregur til tíðinda í gjaldeyrisinngripum

Gerð hefur verið talsverð breyting að okkar mati er varðar gjaldeyrisinngripastefnu Seðlabankans. Peningastefnunefnd metur að ekki sé þörf á stærri gjaldeyrisforða og ekki er lengur þörf á gjaldeyrisinngripum í samhengi við losun fjármagnshafta. Í staðinn verður einblínt á það að leggjast á móti skammtímasveiflum í gengi krónunnar, sem hafa verið talsverðar frá því í desember. Á kynningarfundi í morgun kom fram að Seðlabankinn telur sig nú allt eins geta keypt og selt gjaldeyri á markaði en síðustu ár hefur hann eingöngu verið á kauphliðinni. Það kemur okkur örlítið á óvart að Seðlabankinn vilji ekki leggjast á móti frekari gengisstyrkingu. Kannski má skilja það sem svo að hann meti nú litla hættu á ofrisi krónunnar eða að það sé ekki í hans verkahring að berjast á móti henni. Það verður afar áhugavert að sjá Seðlabankann í hlutlausa gírnum á gjaldeyrismarkaði. Að okkar mati hefur stefnubreyting bankans aukið líkur styrkingu krónunnar á árinu. Sú styrking gæti komið nokkuð hratt í gegn þegar verkfalli sjómanna lýkur og ef ferðamönnum heldur áfram að fjölga mikið á næstu mánuðum.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Seðlabankinn trúir því að Ísland verði dýrasta landi í heimi á næstu misserum

Gengisspá Seðlabankans hefur verið færð upp á við frá því í nóvember og nú er því spáð að krónan verði rúmu 1% sterkari í ár en áður var gert ráð fyrir. Fram til ársins 2019 er svo gert ráð fyrir 3% meiri styrkingu en áður var spáð. Þetta þýðir að raungengi krónunnar verður 7% hærra árið 2019 heldur en árið 2005 þegar það náði síðasta toppi. Það merkilega er er að á sama tíma er viðvarandi viðskiptaafgangur sem byggist á meiri útflutningi og betri viðskiptakjörum. Í sannleika sagt óttumst við að þessi sviðsmynd sé of góð til að vera sönn til lengri tíma. Að óbreyttu þýðir frekari gengisstyrking og því hækkun raungengis að Ísland verður líklega dýrasta land í heimi. Ef íslensk fyrirtæki geta þá á sama tíma flutt meira út heldur en inn myndi teljast mikið efnahagsleg afrek, svo ekki sé fastara að orði kveðið. Það sama gildir þó hér og varðandi lækkun jafnvægisvaxta að enginn veit nákvæmlega hversu mikið jafnvægisraungengi krónunnar hefur hækkað, eins og kom skýrt fram á kynningarfundi um vaxtaákvörðunina.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. Jafnvægisraungengið hér er einungis einn af fjórum mælikvörðum þess sem fjallað var um í hagspá Greiningardeildar.