Útsöluáhrif ganga til baka í febrúar og húsnæðisverð hækkar áfram

Útsöluáhrif ganga til baka í febrúar og húsnæðisverð hækkar áfram

Við áætlum að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,7% milli mánaða í febrúar og að ársverðbólga standi í stað í 1,9%. Útsöluáhrifin ganga til baka en við spáum þó minni hækkun á fatnaði og skóm (+0,20% áhrif á VNV) og húsgögnum (+0,18% áhrif á VNV) en oft áður á þessum árstíma. Ástæðan er bæði styrking krónunnar og aukin samkeppni sem blasir við í vor og í haust. Ferðaliðurinn hækkar samkvæmt okkar verðmælingum (+0,18% áhrif á VNV), bæði flugfargjöld til útlanda og eldsneyti. Aðrir liðir hækka minna en á móti hækkunum vegur lækkun á matarkörfunni (-0,05% áhrif á VNV) og pósti og síma (-0,06% áhrif á VNV).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Við spáum því að verðlag hækki um 0,4% þegar útsölur ganga til baka í mars. Þá spáum við 0,2% hækkun verðlags í apríl og maí. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í í 1,7% í maí.

Fatnaður og húsgögn hækka minna en oft áður

Við spáum að útsöluáhrifin gangi til baka en að föt og skór hækki minna en áður (+0,20% áhrif á VNV). Gangi spáin eftir væri það minnsta hækkun á fötum og skóm í febrúar síðastliðinn áratug. Bæði hefur gengisstyrking krónunnar þau áhrif að frekara svigrúm er til að halda aftur af verðlagshækkunum og einnig er líklegt að fyrirtæki stigi varlega til jarðar með hækkanir vegna aukinnar samkeppni sem blasir við með opnun H&M í haust og Costco í vor. Þá áætlum við að húsgögn og heimilisbúnaður hækki einnig en þó minna en á sama tíma í fyrra (+0,18% áhrif á VNV).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Húsnæðisliðurinn hækkar

Við spáum því að húsnæðisverð hækki um rúmlega 1% í febrúar (+0,15% áhrif á VNV) og að árstakturinn fari úr 15,2% í 15,3% um land allt. Hækkun húsnæðisverðs vegur þyngst í húsnæðisliðnum en einnig spáum við hækkun greiddrar húsaleigu og annarra undirliða (+0,02% áhrif á VNV). Undanfarna mánuði hafa hverfi á jaðri höfuðborgarsvæðisins verið að hækka hraðar en áður og eru viss merki um að eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði sé að einhverju leyti að beinast í meiri mæli að úthverfum höfuðborgarsvæðisins en áður.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Flugfargjöld og eldsneyti hækka

Ólíkt þróun síðustu ára gerum við ráð fyrir að flugfargjöld til útlanda hækki um 12% milli mánaða í febrúar (+0,15% áhrif á VNV). Flugfargjöldin lækkuðu um 12% í janúar og erum við því að spá því að sú hækkun gangi til baka. Ef horft er á þróun flugfargjalda undanfarin ár þá hafa þau verið að lækka þó nokkuð milli ára. Ekki er ólíklegt að sú þróun haldi áfram í ljósi aukinnar samkeppni í ferðageiranum. Þá áætlum við einnig að eldsneytisverð hækki í verði (+0,03% áhrif á VNV).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Matarkarfan og póstur og sími lækka

Við spáum því að matur og drykkir lækki milli mánaða (-0,05% áhrif á VNV) eftir nokkra hækkun í janúar. Einnig heldur póstur og sími áfram að lækka í verði og er það aðallega lækkandi gjald fyrir internet og farsíma sem lækkar en þar er verðið mælt á hverja gagnaeiningu. Skýrslur Póst- og fjarskiptastofnunar sýna að ekkert lát er á aukningu gagnamagns og mun því liðurinn halda áfram að lækka næstu mánuði að okkar mati. Aðrir liðir hækka og hafa en hafa frekar lítið áhrif á VNV.

Lítil verðbólga framundan eða verða kjarasamningar opnaðir að nýju?

Útlit er fyrir lítinn verðbólguþrýsting ef nafngengi krónunnar styrkist þegar líður á árið. Enn sem komið er hefur þó krónan frekar veikst og er það að líkindum aðallega sökum sjómannaverkfallsins og árstíðarbundinnar lægðar í ferðaþjónustunni. Það vakti athygli okkar að spá Seðlabankans um viðskiptaafgang næstu árin var hækkuð umtalsvert og er nú gert ráð fyrir nokkuð myndarlegum viðskiptaafgangi yfir 4% af landsframleiðslu á næstu árum og áfram batnandi erlendri stöðu þjóðarbúsins. Einnig hefur gjaldeyrisforði Seðlabankans náð heppilegri stærð og því líklegt að gjaldeyrisinngrip verði bæði á kaup- og söluhliðinni. Markmið Seðlabankans verður því fremur að draga úr sveiflum í nafngengi krónunnar en að vinna beint gegn gengisstyrkingu. Um þessar mundir er því ekki ólíklegt að gengi krónunnar styrkist þegar líður á árið og að verðbólga haldist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Það sem getur þó t.d. komið í veg fyrir litla verðbólgu næstu misseri er ef launahækkanir verða langt umfram þær sem liggja fyrir nú þegar eða ef útflutningur verður fyrir skakkaföllum og krónan snýr við.

Verðbólguþróun næstu mánuði:
• Mars +0,4%: Útsöluáhrif ganga til baka, húsnæðisverð og flugfargjöld hækka.
• Apríl +0,2%: Í apríl er helst gert ráð fyrir hækkun húsnæðisverðs og flugfargjalda.
• Maí +0,2%: Helsti liðurinn sem hækkar í maí er húsnæðisverð og hótel og veitingastaðir.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka