La La Land dansar heim með Óskarinn

La La Land dansar heim með Óskarinn

Það er þessi tími árs. Dustað er af svanakjólnum, rauði dregillinn er lagður og Leonardo DiCaprio þarf ekki að hafa áhyggjur lengur, hann er kominn með styttuna sína. Það er nefnilega þannig að næstkomandi sunnudagskvöld verða Óskarsverðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í 89. skipti, nú í umsjón spjallþáttarstjórnandans Jimmy Kimmel. Þó svo að einhverjir setjist einvörðungu við skjáinn til að fylgjast með kjólunum á rauða dreglinum, bröndurum Kimmel og tekílaskotum Guillermo þá eru yfirleitt flestir sem bíða eftir aðalverðlaunum hátíðarinnar; bestu kvikmyndinni. Greiningardeild lætur Óskarsverðlaunahátíðina svo sannarlega ekki fram hjá sér fara og spáir nú í fjórða sinn, með hjálp hagrannsókna, fyrir því hvaða mynd sé líklegust til að hreppa gullstyttuna eftirsóknarverðu.

Að þessu sinni eru níu kvikmyndir sem eru tilnefndar: Arrival, La La Land, Fences, Lion, Hacksaw Ridge, Manchester by the Sea, Hell or High Water, Moonlight og Hidden Figures.

Hagfræðin og Óskarinn

Þó svo að kvikmyndagerð eigi vissulega meira skylt með listum en hagfræði, þá stoppaði það ekki hagfræðinginn Andrew B. Bernard árið 2005 í að útbúa nokkuð skemmtilegt og einfalt probit-líkan til þess að spá fyrir um sigurvegara hátíðarinnar.1 Bernard rannsakaði fjöldann allan af breytum og forspárgildi þeirra á árunum 1984 til 2004, en breyturnar byggðu annars vegar á frammistöðustikum (t.d. velgengni á verðlaunahátíðum) og hins vegar á einkennisstikum (t.d. hvort myndin byggði á bók eða leikriti, hvort aðalhlutverkið deyi ótímabærum dauða eða setjist á hestbak). Eins og svo oft áður þá reyndist einfaldasta líkanið vera með mestu spágetuna:

Með þessu líkani gat Bernard því metið sigurlíkur hverrar myndar út frá fjölda Óskarstilnefninga og fjölda Gullhnatta (e. Golden Globes), eftir að hafa leiðrétt fyrir gamanmyndum því að fullkomin fylgni var á milli þess að vera gamanmynd og að tapa á Óskarnum. Reiknað afturvirkt reyndist spágeta líkansins á þeim tíma vera 90%, þ.e. það spáði rétt fyrir í 18 af 20 skiptum.

Þegar á reyndi klikkaði líkan Bernard hins vegar í fyrstu tilraun þegar að The Aviator (spá Bernard) laut í lægri haldi fyrir Million Dollar Baby árið 2005. Líkan Bernard hefur ekki riðið feitum hesti síðan og hefur aðeins fimm sinnum spáð rétt fyrir um sigurvegara hátíðarinnar. Það má því vera að Akademían sé orðin ófyrirsjáanlegri en áður, en einnig var gerð róttæk breyting á talningu atkvæða fyrir bestu mynd í kjölfar þess að fjöldi tilnefndra mynda jókst verulega árið 2009, sem kann að hafa dregið úr spágetu líkansins.2 Þá virðist einnig vera að gjáin milli Akademíunnar og erlendra blaðamanna hafi breikkað á undanförnum árum þar sem jaðaráhrif auka Gullhnattar hafa minnkað verulega, eins og sjá má á myndinni að neðan. Þetta undirstrikar vandkvæði tölfræðilíkana við spágerð; þau byggja á sögulegu samhengi sem þarf ekki endilega að eiga enn við rök að styðjast.

Óskarinn og Greiningardeild

Líkt og áður sagði er þetta í fjórða sinn sem Greiningardeild birtir Óskarsspá. Tvívegis höfum við notast við líkan Bernard, og brást okkur bogalistinn í bæði skiptin. Í kjölfarið fór deildin í eins árs Óskarsspádvala og kom svo tvíefld til baka í fyrra með endurbætt líkan þar sem The Revenant var spáð sigri. Til að gera langa sögu stutta þá gekk sú spá ekki eftir. Verðlaunin fóru til Spotlight sem stal sviðsljósinu það kvöldið, þvert á spár veðbanka. Þrátt fyrir slæmt gengi undanfarin ár þá erum við hins vegar hvergi nærri af baki dottin og spáum hér með í fjórða sinn fyrir því hvaða kvikmynd muni taka Óskarinn með sér heim!

Breytingin sem við gerðum á líkaninu í fyrra virtist skila ágætum árangri þar sem vinningsmyndin hlaut talsvert hærri líkur en í upprunalega líkani Bernard. Að þessu sinni gerum við aftur róttæka breytingu á líkaninu og bætum við sigurvegara DAG- (e. Directors Guild Award), PGA- (e. Producers Guild Award) og CCA-verðlaunanna (Critics’ Choice Award) sem stýribreytum, en sigurvegari þessara hátíða hefur oftar en ekki staðið uppi sem sigurvegari á Óskarnum.3 Í ljósi minnkandi jaðaráhrifa Gullhnatta á sigurlíkur á Óskarnum tökum við Gullhnettina úr líkaninu ásamt BAFTA verðlaununum.

Þetta nýja líkan virðist standast tímans tönn betur en eldri líkönin og spáir réttum sigurvegara á 17 af síðustu 21 Óskarsverðlaunahátíðum. Þar að auki spáir líkanið fyrir réttum sigurvegara á síðustu tíu Óskarsverðlaunahátíðum!

Og Óskarinn hlýtur...

Söngleikjamyndin La La Land á sigurinn vísan samkvæmt okkar nýja líkani, og raunar einnig í eldra líkani okkar sem og uppfærðu líkani Bernard þegar út í það er farið. Það er í samræmi við spár veðbanka sem flestir spá La La Land sigri með mikilli vissu. La La Land hefur farið mikinn á yfirstandandi verðlaunatímabili og unnið verðlaun fyrir bestu mynd á öllum helstu hátíðum. Þá hlaut myndin í heildina 14 Óskarstilnefningar og sjö Gullhnetti, flesta í sögu hátíðarinnar. Eina undantekningin er í raun og veru SAG hátíðin, en myndin Hidden Figures stóð þar uppi sem sigurvegari, öllum að óvörum.

Í fyrra birtum við einnig stigagjöf sem byggði á frammistöðu kvikmyndanna á verðlaunahátíðum það árið og sögulegu samhengi þeirra hátíða við sigurvegara Óskarsins. Út frá þeirri stigagjöf spáðum við að samkeppni The Revenant og Spotlight yrði að öllum líkindum harðari en líkan okkar hafði gefið til kynna, sem varð raunin. Í ljósi þess höfum við endurtekið leikinn.

Aftur stendur La La Land uppi sem sigurvegari, en samkvæmt þessum mælikvarða á Moonlight meiri möguleika en líkan okkar gefur til kynna. Moonlight vann bæði verðlaun fyrir besta handrit á verðlaunahátíð handritshöfunda (e. Writers Guild Award) á dögunum ásamt því að hljóta verðlaun erlendra blaðamanna (e. Golden Globes) fyrir bestu dramamynd ársins (La La Land hlaut verðlaun fyrir bestu söngleikjamynd).

Og besti leikur fer til...

Með því að heimfæra stigagjöfina hér að ofan yfir á leikara þá birtum við einnig spá fyrir besta leik í aðal- og aukahlutverki. Leikarastigagjöfin tekur þó einnig tillit til þess hvort einstaklingurinn hafi verið tilnefndur áður án þess að sigra og hvort karakterinn hafi verið raunverulegur.

Að því sögðu spáum við að Casey Affleck fari með sigur af hólmi fyrir besta leik í aðalhlutverki, en Denzel Washington kemur næstur á eftir með rúmlega 20% líkur á sigri. Þá spáum við því að Emma Stone hljóti verðlaun sem besta leikkona í aðalhlutverki fyrir leik sinn í La La Land, enda hún verið hlutskörpust á yfirstandandi verðlaunatímabili.

Myndir teknar af www.oscars.go.com

Með sömu aðferðarfræði spáum við nú einnig fyrir um besta leik í aukahlutverki. Hjá körlum spáum við naumum sigri Mahershala Ali gegn Dev Patel, en hinn síðarnefndi hlaut BAFTA verðlaunin á dögunum fyrir leik sinn í myndinni Lion. Hjá konum spáum við hins vegar Viola Davis sigri fyrir leik sinn í Hidden Figures, en hún hefur hreppt nánast hver einustu verðlaun sem veitt hafa verið á þessu hátíðartímabili.

Myndir teknar af www.oscars.go.com

1) Probit-líkön meta líkur á því að breytan taki gildið 1 en ekki 0. Í þessu tilfelli metur líkanið þannig líkurnar á því að mynd sigri.
2) Nánari útskýringu á breyttri aðferðarfræði má finna hér.
3) Í ljósi þess að SAG-verðlaunin voru veitt fyrst árið 1995 var ákveðið að stytta gagnasafnið. Það nær því yfir 20 ára tímabil þ.e. 1995-2014.