Áframhaldandi reiptog gengis og húsnæðisverðs

Áframhaldandi reiptog gengis og húsnæðisverðs

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,72% í febrúar skv. nýbirtum mælingum Hagstofunnar og stendur ársverðbólgan því enn í 1,9%. Hækkunin er í takt við spár greiningaraðila en við spáðum 0,7% hækkun vísitölunnar. Milli mánaða hækkar húsnæðisliðurinn (+0,3% áhrif á VNV), þar af vega áhrif reiknaðrar húsaleigu +0,29% til hækkunar. Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. hækkar einnig eða um 9% milli mánaða (+0,29% áhrif á VNV) þar sem útsöluáhrif ganga til baka. Útsöluáhrif á fötum og skóm hafa á hinn bóginn gengið til baka að mjög litlu leyti þar sem föt og skór hækkuðu lítið (+0,03% áhrif á VNV). Það vekur einnig athygli okkar að flugfargjöld til útlanda skuli ekki hækka meira (+0,03% áhrif á VNV) eftir lækkanir undanfarið. Sú staðreynd endurspeglar þó líklega mikla samkeppni í flugi til og frá landinu og yfir Atlantshafið um þessar mundir.

Með fordæmalausri styrkingu krónunnar og hraðari hækkunum húsnæðisverðs en áður undanfarna mánuði eru þessir tveir kraftar sem toga í sitthvora áttina sífellt sterkari. Á næstunni mun því verðbólga að miklu leyti ráðast af hvort styrking krónunnar eða hækkandi húsnæðisverð hafi vinninginn.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Við spáum því að verðlag hækki um 0,4% í mars, verði óbreytt í apríl en lækki um 0,1% í maí. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í 1,2% í maí. Á seinni hluta ársins er svo útlit fyrir að verðbólga taki að aukast á ný.

Útsöluáhrif ganga mismikið til baka

Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. hækkaði í mánuðinum eftir janúarútsölur (+0,29% áhrif á VNV), t.a.m. hækkaði verð á raftækum um 19% frá því í janúar þegar það lækkaði um 15%. Föt og skór hafa aftur á móti lítið hækkað (+0,03% áhrif á VNV) og raunar lækkaði verð á skóm um 3,9% en verð á fötum hækkaði einungis um 1,7% frá því í janúar. Eins og sést hér að neðan er þessi þróun nokkuð úr takti við það sem jafnan gengur og gerist í febrúar. Styrking krónunnar og það svigrúm sem hún hefur skapað kann að hafa hér áhrif en gengi krónunnar hefur styrkst um tæp 8% frá því í byrjun febrúar. Aukin samkeppni við netverslun og koma alþjóðlegra verslunarkeðja á borð við Costco og H&M til landsins gæti einnig haft sitt að segja.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Snapchat notkun heldur aftur af verðtryggðum lánum landsmanna

Liðurinn póstur og sími lækkaði enn og aftur í mánuðinum (-0,08%), þrátt fyrir að verð á póstþjónustu hafi hækkað um 9%, þar sem að símaþjónusta hélt áfram að lækka. Ástæðan er lækkandi verð þess sem skilgreint er í VNV sem símnotkun og þar fellur t.d. gagnamagn undir. Gagnamagnsnotkun fimmfaldaðist milli fyrri hluta áranna 2014 og 2016 og líklegt að hún sé enn að aukast. Þar sem þessi liður mælir einingaverð gagnamagns hefur hann lækkað talsvert. Skv. okkar áætlun væri verðbólga nú yfir verðbólgumarkmiði ef þessi liður hefði þróast í takt við annað verðlag. Þannig má segja að æði Íslendinga fyrir Snapchat, Instagram, Youtube og öðrum miðlum hafi haldið aftur af verðbólgu.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Húsnæðisverð gefur ekkert eftir

Húnæðisliðurinn hækkaði í mánuðinum (+0,3% áhrif á VNV) og er það nær eingöngu fyrir tilstilli reiknaðrar húsaleigu (+0,29%) en greidd húsaleiga hækkaði aðeins um 0,1% milli mánaða. Hækkandi húsnæðisverð er hér að verki en húsnæðisverð á landinu öllu hækkaði um 1,8% milli mánaða í febrúar, en þar af voru hækkanir utan höfuðborgarsvæðisins hraðari líkt og síðustu mánuði, eða um 2,4% milli mánaða. Líkt og fram kom í nýrri skýrslu Greiningardeildar um íbúðamarkaðinn er fátt sem bendir til þess að það hægi verulega á hækkunum húsnæðisverðs í bráð, þó að vísbendingar um ójafnvægi séu sífellt að verða skýrari.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Krónan hefur styrkst um 19% sl. 12 mánuði

Á sama tíma og staðan á húsnæðismarkaði heldur verðbólgu á floti vegur styrking krónunnar á móti sem endurspeglast í lægra verði á innfluttri vöru og þjónustu. Fordæmalaus nafnstyrking krónunnar hélt áfram í febrúar eftir nokkrar sveiflur og lítilsháttar veikingu frá því um miðjan desember. Styrkingin hefur verið mjög hröð, eða um 8% miðað við gengisvísitölu frá því í byrjun mánaðarins. Haldi þessi þróun áfram, eða þá að gengið haldist stöðugt, er líklegt að verðbólga verði áfram innan verðbólgumarkmiðs a.m.k fram á sumar.


Heimild: Hagstofa Íslands

Þó að styrking krónunnar hafi hingað til hjálpað við að halda aftur af verðbólgu virðist svigrúmið til frekari gengisstyrkingar ekki vera mikið. Að okkar mati er gengi krónunnar nú að líkindum komið yfir jafnvægisraungengi en talsverð óvissa er þó um hversu mikið gengið hefur yfirskotið. Miðað við okkar áætlun er raungengið þegar þetta er skrifað einungis um 4% frá toppnum árið 2005. Slíkt ætti að gefa sterka vísbendingu um að ekki sé á að treysta að núverandi gengi krónunnar sé komið til að vera. Á hinn bóginn er fátt sem bendir til veikingar krónunnar í bráð þar sem sjómannaverkfalli er lokið, loðnuvertíð er í hámarki, uppgangur er mikill og ferðamönnum er enn að fjölga. Fljótt skipast þó veður í lofti þannig að ef horfur versna gæti það haft mikil og hröð áhrif á gjaldeyrismarkað líkt og reynslan sýnir.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Bloomberg, Greiningardeild Arion banka.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Mars +0,4%: Útsöluáhrif ganga til baka, húsnæðisverð og flugfargjöld hækka.
  • Apríl óbreytt: Helsta hækkunin í apríl verður hækkun húsnæðisverðs en innflutt vara lækkar
  • Maí -0,1%: Húsnæði hækkar en áhrif gengisstyrkingar vara enn

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka