Viðskiptaafgangurinn 194 milljarðar króna í fyrra

Viðskiptaafgangurinn 194 milljarðar króna í fyrra

Viðskiptajöfnuður við útlönd skilaði afgangi á árinu 2016 sem nam um 8% af landsframleiðslu eða 193,5 milljörðum króna, þar af 44,7 ma.kr. á 4. ársfjórðungi. Erlend staða þjóðarbúsins hefur jafnframt líklega aldrei verið hagstæðari og eru Íslendingar hreinir lánveitendur við útlönd um þessar mundir. Seðlabanki Íslands birti í gær bráðabirgðatölur um greiðslujöfnuð við útlönd og erlenda stöðu þjóðarbúsins á fjórða ársfjórðungi 2016 þar sem þetta kemur fram.

Viðskiptajöfnuðurinn árið 2016 var mun hagstæðari en við og flestir greiningaraðilar, þar á meðal Seðlabankinn, höfðum gert ráð fyrir. Þó ætti 145 ma.kr. viðskiptaafgangur á seinni helmingi 2016 e.t.v. ekki að koma á óvart eftir á að hyggja þar sem krónan styrktist og gjaldeyrisforði Seðlabankans stækkaði um 116 ma.kr. Stærsta ástæðan fyrir því að tölurnar koma á óvart er að fjármagnsgjöld íslenskra aðila til erlendra aðila hafa dregist saman um 62 ma.kr. milli ára. Slíkt er að miklu leyti bein afleiðing af bættri skuldastöðu þjóðarbúsins. Jafnvel má færa rök fyrir því að þessi breyting hafi ekki síður átt stóran þátt í styrkingu krónunnar síðustu mánuði heldur en fjölgun ferðamanna.

Viðskiptaafgangur – „hagnaður“ Íslands í hæstu hæðum

Ef Ísland væri fyrirtæki, þá mætti líta á viðskiptajöfnuðinn sem hagnað fyrirtækisins sem sýnir annað hvort afgang eða halla. M.ö.o. mælir hann hversu mikið við fáum greitt fyrir vinnu, fjármagn, vöru- og þjónustu frá útlöndum, eftir að við höfum greitt fyrir það sama til erlendra aðila. Að vísu er þessi samlíking takmörkuð því það er til lítils að hámarka viðskiptaafgang til eilífðarnóns. Slíkt myndi þýða að við værum alltaf að niðurgreiða neyslu og fjárfestingu annarra ríkja.

Um þessar mundir er þessi „hagnaður“ þjóðarbúsins í hæstu hæðum og eins og sést hér að neðan hefur hann sjaldan eða aldrei verið jafn mikill. Á myndinni sést einnig skýrt hversu mikil breyting hefur orðið á hagkerfinu á innan við áratug. Fram til 2008 var viðskiptajöfnuður oft neikvæður um tugi prósenta af landsframleiðslu vegna mikils vöruskiptahalla og neikvæðra frumþáttatekna, sem helgaðist af miklum erlendum skuldum þjóðarbúsins. Síðan þá hefur þetta snúist við með þjónustuafgangi samfara fjölgun ferðamanna, en einnig hagstæðari vöruskiptum og frumþáttatekjum (nettó launa- og fjármagnsgreiðslum).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Hvers vegna hefur viðskiptajöfnuðurinn aukist jafn mikið og raun ber vitni? Svarið við því má sjá á myndinni hér að neðan. Vöruskiptaafgangur rýrnaði um 66 ma.kr. milli ára en á móti jókst þjónustuafgangur um 58 ma.kr. fyrir tilstilli ferðaþjónustunnar. Stærsta breytingin er þó viðsnúningur frumþáttatekna um 61 ma.kr. og voru þær jákvæðar um 51 ma.kr., þvert á spár Seðlabankans og flestra annarra. Þar vega þyngst að vaxtagjöld af langtíma skuldabréfum til erlendra aðila lækkuðu um 37 ma.kr. auk þess sem ýmis önnur fjármagnsgjöld þjóðarbúsins drógust saman milli ára.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Hér vegur þungt að erlend skuldastaða þjóðarbúsins hefur gjörbreyst á skömmum tíma, sem þýðir lægri vaxtagjöld en ella. Erlend staða þjóðarbúsins hefur aldrei mælst betri og var hrein eign íslenskra aðila gagnvart erlendum aðilum jákvæð um 26 ma.kr., eða 1,1% af vergri landsframleiðslu, um síðustu áramót. Að okkar mati er þó líklega eitthvað meira sem veldur jafn hagstæðum nettó fjármagnstekjum (hluti af frumþáttatekjum) gagnvart útlöndum og þar gæti bætt lánshæfi, lækkun stýrivaxta á seinni hluta ársins 2016 og styrking krónunnar hjálpað. Þá er ástæða til að velta því upp hvort hagstæðar frumþáttatekjur í fyrra hafi verið tilfallandi og að þær muni minnka aftur í ár sem væri nær flestum spám.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Óskýr merki um verulegt innstreymi vegna fjárfestingar erlendra aðila

Fjármagnsjöfnuðurinn er hin hliðin á peningi viðskiptajafnaðar og mælir flæði fjármagns milli landa. Í takt við viðskiptajöfnuðinn var hann jákvæður um 246,6 ma.kr. í fyrra og þar af 166 ma.kr. á seinni hluta ársins. Það þýðir að Íslendingar færðu innlendar eignir yfir í erlendar eignir sem því nemur umfram það sem og útlendingar gerðu hið gagnstæða. Þannig var eignastaða Íslendinga gagnvart útlöndum að batna sem aftur endurspeglast í bættri erlendri stöðu.

Síðustu mánuði hefur gjaldeyrisinnflæðið til landsins verið mikið þannig að krónan styrkist og gjaldeyrisforðinn stækkað. Svo hefur virst sem bættur viðskiptajöfnuður dugi ekki til að útskýra þróunina og því hefur verið spurt hvort að erlendir aðilar séu að fjárfesta hér á landi eða að lána íslenskum fyrirtækjum í verulegu mæli. Miðað við fjármagnsjöfnuðinn er í fljótu bragði ekki að sjá að svo sé nema að tiltölulega litlu leyti. Nettó voru útlendingar að draga úr eign sinni hér á landi sem nemur um 54 ma.kr. á seinni hluta ársins 2016. Aftur á móti má sjá að erlendir aðilar bættu við innlenda verðbréfaeign sem nemur 48 ma.kr., aðallega í langtíma skuldabréfum, sem gæti hafa orsakað talsvert innflæði.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Hvernig viðskiptin í fjármagnsjöfnuðinum voru og í hvaða mynt þau eru gerð er oft erfitt að átta sig á. Þó er það okkar besta mat að fjárfesting erlendra aðila hér á landi sé í það minnsta ekki stærsti orsakavaldur gjaldeyrisinnflæðis og styrkingar krónu. Athuga skal þó að tölur um greiðslujöfnuð í heild og sérstaklega fjármagnsjöfnuð innihalda talverðar skekkjur.

Útlit fyrir áframhaldandi gjaldeyrisinnstreymi en raungengið er orðið ískyggilega hátt

Í þeim uppgangi sem nú á sér stað í efnahagslífinu, á sama tíma og erlend skuldastaða þjóðarbúsins hefur aldrei verið betri og viðskiptaafgangur er enn myndarlegur, virðist sem gengi krónunnar gæti styrkst enn frekar. Það vantar einungis örfáar prósentur upp á að raungengismetið frá árinu 2005 verði slegið, sem ætti um leið að hringja viðvörunarbjöllum. Allt bendir til þess að jafnvægisraungengi krónunnar sé hærra nú en nokkru sinni áður en engu að síður eru vísbendingar um að raungengið sé nú þegar komið yfir jafnvægisraungengið. Þrátt fyrir það heldur gengið áfram að styrkjast og því meira sem það styrkist því meira aukast líkurnar á að krónan veikist þegar fram líða stundir. Gengi gjaldmiðla geta sveiflast hressilega og hafa tilhneigingu til að yfirskjóta þannig að það er langt í frá á vísan að róa.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.