7,2% hagvöxtur í fyrra - hagstæð utanríkisverslun blæs byr í seglin

7,2% hagvöxtur í fyrra - hagstæð utanríkisverslun blæs byr í seglin

Óhætt er að segja að gríðarlega kröftugur hagvöxtur hafi verið á Íslandi í fyrra. Samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Íslands jókst landsframleiðslan í fyrra um 7,2% milli ára samanborið við 4,1% árið áður. Þar vegur þungt kröftugur vöxtur á síðasta fjórðungi 2016 en þá jókst landsframleiðslan um 11,3% frá því á sama tíma árið áður. Þessi mikli vöxtur kom nokkuð á óvart en við gerðum ráð fyrir 4,7% vexti þegar fyrir lágu tölur fyrir fyrri helming ársins. Vöxtur þjóðarútgjalda var nokkurn veginn í takt við spár en útflutningurinn fór umtalsvert fram úr væntingum flestra. Einnig tók íbúðafjárfesting vel við sér og eru það gleðitíðindi því mikill skortur er á íbúðahúsnæði um þessar mundir.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hlutdeild einkaneyslu í hagvexti fer minnkandi

Einkaneysla jókst um 6,9% í fyrra en vöxturinn árið 2015 nam 4,3%. Einkaneyslan hefur því tekið hressilega við sér undanfarin þrjú ár eða svo en hafa þarf í huga að hlutdeild einkaneyslu í landsframleiðslu hefur verið að lækka á sama tíma. Hlutdeild einkaneyslu í hagvexti nam 49% í fyrra en til samanburðar var hlutfallið að meðaltali 55% á árunum 1997 til 2015. Þrátt fyrir sterkan vöxt einkaneyslu er þjóðahagslegur sparnaður enn nokkuð mikill og endurspeglast það í myndarlegum viðskiptaafgangi í fyrra en hann nam um 8% af landsframleiðslu í fyrra. Það þýðir að auknar ráðstöfunartekjur landsmanna er ekki að öllu leyti að renna í neyslu heldur fer góður skerfur í sparnað.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Íbúðafjárfesting komin af stað

Á heildina litið má segja að fjárfesting hafi haldið áfram að vaxa en vöxturinn 2016 var 22,7% samanborið við 17,8% árið áður. Þar af jókst atvinnuvegafjárfesting um 24,7%, íbúðafjárfesting um 33,7% og opinber fjárfesting um 2,5%. Sérstaklega var ör vöxtur á íbúðafjárfestingu á síðasta fjórðungi ársins en þá jókst liðurinn um tæplega 71% milli ára. Þessi mikli vöxtur íbúðafjárfestingar er ánægjuleg tíðindi en hann er langt umfram okkar spá sem hljóðaði upp á 23%. Ef íbúðafjárfesting heldur áfram að aukast hratt næstu mánuði og umfram okkar spár eru líkur á að aukið framboð geti slegið á verðhækkanir á húsnæðismarkaði fyrr en mætti annars búast við.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Jákvætt framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar á seinni hluta ársins

Þó að 7,2% hagvöxtur í þróuðu ríki ætti að öllu jöfnu að vekja upp spurningar um ofþenslu verður að skoða hvernig þessi hagvöxtur er samsettur. Ein bestu tíðindin við nýjustu hagvaxtartölurnar eru þau hve jákvætt framlag utanríkisverslunar er til hagvaxtar á tveimur síðustu fjórðungum ársins í fyrra og er það að stórum hluta til skýringin á 7,2% hagvexti í fyrra. Vissulega eru einkaneysla og fjárfesting að draga áfram vagninn líkt og áður en á sama tíma og innlend eftirspurn eykst er viðskiptajöfnuður jákvæður um 8% sem er með því hæsta sem hefur sést í langan tíma. Þar skiptir mestu að magn útfluttrar vöru og þjónustu hefur aukist um 25% frá árinu 2013. Einnig heldur hlutdeild einkaneyslu í hagvexti áfram að minnka og má sjá merki um aukinn þjóðhagslegan sparnað. Samsetning hagvaxtarins er því betri nú en oft áður, neysla landsmanna er ekki skuldadrifin og er því hættan á harðri lendingu minni en ella.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka