Spáum 0,2% hækkun vísitölu neysluverðs í mars

Spáum 0,2% hækkun vísitölu neysluverðs í mars

Við áætlum að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,2% milli mánaða í mars og að ársverðbólgan lækki úr 1,9% í 1,8%. Útsöluáhrifin ganga að litlu leyti til baka og má rekja það til styrkingar krónunnar undanfarnar vikur og mánuði. Við áætlum að föt og skór hækki (+0,12% áhrif á VNV) en þó minna en oft áður á þessum tíma árs. Húsnæðisliðurinn mun hækka líkt og fyrri mánuði (+0,20% áhrif á VNV) en á móti vegur að póstur og sími lækkar (-0,05% áhrif á VNV) og eldsneytisverð (-0,05% áhrif á VNV). Verðbólguhorfur hafa þó almennt batnað sé horft til næstu mánaða og mun ársverðbólgan færast nær 1,5% á næstu mánuðum gangi spá okkar eftir. 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Við spáum því að verðlag hækki um 0,1% í apríl og 0,3% í maí. Þá spáum við 0,2% hækkun verðlags í júní og gangi spáin eftir mun ársverðbólgan þá standa í í 1,6%.

Fatnaður hækkar minna en áður og húsgögn lækka

Útsöluáhrifin virðast ekki vera að ganga til baka líkt og gerst hefur undanfarin ár. Þvert á móti spáum við að húsgögn og heimilisbúnaður lækki milli mánaða (-0,08% áhrif á VNV). IKEA hefur tilkynnt að verð á helstu vörum hafi lækkað um 10% og einnig eru enn útsölur í gangi í ýmsum húsgagnaverslunum. Gert er ráð fyrir að föt og skór hækki (+0,12% áhrif á VNV) en þó töluvert minna en oft áður á þessum tíma ársins. Skýrist þessi þróun aðallega af mikilli styrkingu krónunnar undanfarið og einnig yfirvofandi innkomu H&M inn á markaðinn í sumar. 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Húsnæðisliðurinn heldur áfram að hækka

Við spáum því að húsnæðisverð hækki um 1,3% í mars (+0,18% áhrif á VNV) og að árstakturinn fari úr 16% í 17,4% um land allt. Hækkun húsnæðisverðs vegur þyngst í húsnæðisliðnum en einnig spáum við hækkun greiddrar húsaleigu og annarra undirliða (+0,02% áhrif á VNV). Gera má ráð fyrir að hækkanir verði áfram að mestu leyti utan höfuðborgarsvæðisins og á jaðarsvæðum nálægt höfuðborgarsvæðinu en merki eru um að eftirspurnin sé að færast úr miðborginni út í jaðarsvæði höfuðborgarsvæðisins og út fyrir höfuðborgarsvæðið. Heildaráhrif húsnæðisliðarins eru því +0,20% til hækkunar á VNV.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Flugfargjöld hækka en eldsneyti lækkar

Verðmælingar á flugfargjöldum til útlanda benda til hækkunar en við gerum þó ráð fyrir að hækkunin verði minni háttar (+0,07% áhrif á VNV). Flugfargjöld hækkuðu lítillega í febrúar og áætlum við að svipuð þróun verði í mars. Hins vegar lækkar eldsneyti í verði (-0,05% áhrif á VNV). Þá er líklegt að frekari lækkun á eldsneytisverði sé í kortunum en heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað um 10% frá byrjun mars mánaðar. Reyndar hefur gengi krónunnar veikst um rúm 4% gagnvart bandaríkjadal á sama tíma og getur það vegið á móti.

Aðrir liðir lækka

Við gerum ráð fyrir að flestir aðrir liðir lækki í mars og vegur þar þyngst lækkun á pósti og síma (-0,05% áhrif á VNV). Einnig gerum við ráð fyrir að tómstundir og menning lækki (-0,03% áhrif á VNV) og matur og drykkir (-0,03% áhrif á VNV). Útlit er fyrir að frekari lækkanir gætu komið á næstu mánuðum hvort sem litið er á innfluttar vörur eða innlendar vörur og þjónustu. Það veltur þó að miklu leyti á því hver gengisþróun krónunnar verður.

Verðbólguhorfur batna til skemmri tíma litið

Almennt teljum við að verðbólguhorfur hafi batnað til skemmri tíma litið. Styrking krónunnar undanfarna mánuði hefur verið veruleg gagnvert myntum helstu viðskiptalanda. Þótt gengi krónunnar hafi veikst í dag teljum við að þróunin næstu mánuði gæti allt eins verið til styrkingar í ljósi til vaxandi ferðamannastraums og meiri afgangs af þjónustuviðskiptum. Einnig er áfram útlit fyrir frekari viðskiptakjarabata og því hafa horfur hvað gengisþróun krónunnar lítið breyst þrátt fyrir að fjármagnshöft hafi verið afnumin. Líklegt er að innkoma H&M í sumar muni einnig halda aftur af hækkun verðlags á fötum og skóm. Við teljum því að næstu mánuði muni árstaktur verðbólgunnar nálgast 1,5% á næstu mánuðum en hækka svo lítillega í júní.

Verðbólguþróun næstu mánuði:
Apríl +0,1%: Gert er ráð fyrir hækkun húsnæðisverðs og flugfargjalda en lækkun annarra liða.
Maí +0,3%: Helsti liðurinn sem hækkar í maí er húsnæðisverð og hótel og veitingastaðir.
Júní +0,2%: Flugfargjöld til útlanda og hótel og veitingastaðir hækka í júní en aðrir liðir lækka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka