Óbreyttir vextir – lóa, kría og vaxtalækkun með vorinu?

Óbreyttir vextir – lóa, kría og vaxtalækkun með vorinu?

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að halda meginvöxtum sínum óbreyttum í 5% en við höfðum spáð 0,25 prósentustiga lækkun. Ákvörðunin kemur þó lítið á óvart enda voru greiningaraðilar almennt á því að ákvörðunin væri tvísýn milli lítillar lækkunar eða óbreyttra vaxta. Þá kemur ákvörðunin enn síður á óvart þar sem tilkynnt var um losun fjármagnshafta um helgina og er það í ágætum takti við fyrri vaxtaákvarðanir að nefndin vilji fyrst bíða og sjá hver áhrif þess verða. Að okkar mati er svigrúm að myndast til vaxtalækkunar um 25-50 punkta á næstu mánuðum, svo fremi sem gengi krónunnar hest stöðugt fram á vor og/eða styrkist. Að óbreyttu gætu því vorið fært landsmönnum, lóuna, kríuna, ferðamannastraum og vaxtalækkun.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar er fjallað um vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum sem innflutningur erlends vinnuafls vinnur á móti. Hagvöxtur var rúmlega einu prósentustigi meiri í fyrra en Seðlabankinn hafði gert ráð fyrir. Þá er áfram tekið fram að í verðbólgunni togist áfram á kraftar innlends verðbólguþrýstings og styrkingar krónunnar, en seðlabankstjóri sagði í kjölfar vaxtaákvörðunarinnar að sá munur hefði raunar aukist, sem gerir nefndinni erfiðara um vik að ákveða hæfilegt aðhaldsstig. Framsýn leiðsögn nefndarinnar er hlutlaus og óbreytt: „Aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn.“ Þó gaf seðlabankastjóri vaxtalækkun vel undir fótinn á kynningarfundi um ákvörðun nefndarinnar, svo fremi sem aðstæður verði áfram hagfelldar.

Frekar útlit fyrir gengisstyrkingu en gengisveikingu – hvað gera stjórnvöld?

Helstu rökin fyrir því að við spáðum lækkun vaxta var gengisstyrking krónunnar og horfur á að sú þróun haldi að einhverju leyti áfram. Losun fjármagnshafta um helgina breytti þeirri sýn a.m.k. tímabundið enda tók krónan veikingarkipp á mánudaginn og líkur eru á að sveiflur muni eitthvað aukast á næstunni á meðan gjaldeyrismarkaður aðlagast breyttum aðstæðum. Það gefur þó góð fyrirheit að krónan hefur styrkst frá því að haftalosunin tók gildi í gær og almennt virðast litlar líkur á miklu og skyndilegu gjaldeyrisútflæði. Ennfremur verður viðskiptajöfnuður að líkindum áfram ríflegur í ár og afnám hafta kann að auka áhuga fjárfesta á Íslandi. Þetta kann að þýða að krónan muni styrkjast á næstu mánuðum, þó að ólíklegt sé að sú styrking verði jafn mikil og t.d. sl. 12 mánuði. Þá gefa orð Seðlabankans til kynna að hann sé hættur að grípa inn á gjaldeyrismarkaðinn með það að markmiði að stækka gjaldeyrisforðann, en þau inngrip hafa líklega haft töluverð áhrif á gengissveiflur síðustu misserin.

Heimildir: Bloomberg, Greiningardeild Arion banka.

Á móti þessu vegur að raungengi krónunnar er nú orðið mjög hátt og það virðist vera beinlínis stefna stjórnvalda að halda aftur af frekari styrkingu krónunnar og mögulega stuðla að veikingu hennar. Seðlabankastjóri var í morgun spurður út í boðaðar aðgerðir stjórnvalda til að stemma stigu við gengisstyrkingu og í hverju þær felist. Hann gat lítið tjáð sig um þær en greinilegt er að slíkar aðgerðir eru í skoðun af stjórnvöldum og gætu þær því þýtt veikingu krónunnar. Það eina sem seðlabankastjóri nefndi í þessu samhengi var að aðhaldsamari ríkisfjármálastefna gæti stuðlað að þessu markmiði og gjaldtaka eða annarskonar inngrip tengd ferðaþjónustu.

Ef ráðist verður í slíkar aðgerðir af stjórnvöldum er mjög mikilvægt að vandað verði vel til verka og mjög umdeilanlegt er hvort að stjórnvöld eigi yfir höfuð að skipta sér að þróun gengisins í sjálfu sér. Það er líka athyglisvert að á sama tíma og boðaðar eru aðgerðir til að veikja krónuna eru væntingar hjá stjórnvöldum um að vextir lækki. Það gæti gengið illa upp saman þar sem verðbólga eykst við verulega veikingu krónunnar sem þýðir að Seðlabankinn þarf að bregðast við með hærra nafnvaxtastigi.

Hvenær er góð samsetning, góð samsetning?

Hagvöxtur á fjórða ársfjórðungi síðasta árs var 11,3% skv. bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Þetta er svipaður vöxtur og svipuð samsetning hagvaxtar og var fjórðunginn á undan. Þegar tölur um þriðja ársfjórðung voru birtar í desember ákvað peningastefnunefnd að lækka vexti þó hagvöxtur væri um 10% og visaði þá til þess að samsetning hagvaxtarins væri hagstæð. Eins og sést glögglega hér að neðan var samsetning hagvaxtar á 3. og 4. ársfjórðungi mjög lík og krónan hefur styrkst talsvert meira milli funda heldur en í desember sl. Því ættu þessar nýju hagvaxtartölur ekki að hafa veruleg áhrif á ákvörðun nefndarinnar þar sem svipaður grundvöllur er til vaxtalækkunar nú. Að öllum líkindum hefur það því verið óvissa um áhrif losunar hafta sem hefur haldið aftur af peningastefnunefnd að þessu sinni. Þá spilar líklega einnig inn í að svona mikil vöxtur tvo ársfjórðunga í röð auki líkur á að of mikil spenna sé að myndast í þjóðarbúskapnum.

Heimild: Hagstofa Íslands

Góð viðbrögð við haftalosun auka líkur á vaxtalækkun í vor

Eins og við höfum fjallað um er útlit fyrir að verðbólga fari minnkandi með vorinu, jafnvel þó krónan myndi ekki styrkjast. Gangi verðbólguspá okkar eftir miðað við óbreytt gengi er útlit fyrir að raunstýrivextir fari hækkandi og verði hærri en eftir síðustu tvær vaxtalækkanir. Þar að auki er líklegt að verðbólga fari niður fyrir neðri vikmörk verðbólgumarkmiðs þegar líður á seinni hluta ársins ef gengi krónunnar styrkist. Þannig má enn telja líklegt að stýrivaxtalækkanir séu framundan og teljum við líklegast að þeir lækki um 0,25-0,5 prósentustig í maí og/eða júní þegar nefndin hittist.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Það sem styður þessa skoðun okkar er m.a. tvennt sem seðlabankastjóri vék að í morgun. Í fyrsta lagi að raunvaxtastig hafi líklega lækkað á Íslandi til lengri tíma og að nefndin sé að fikra sig hægt og bítandi að nýjum jafnvægisraunvöxtum, sem óvissa er um hvar liggja, en miðað við síðustu ákvarðanir peningastefnunefndar má ætla að hún áætli sem stendur að þeir séu 2%-2,5%, en kunni að vera enn lægri. Í öðru lagi sagði seðlabankastjóri að eftir því sem lágar verðbólguvæntingar festast betur í sessi, verðbólga er við markmið, sveiflur minnka, skuldastaða þjóðarbúsins er hagstæð o.s.frv. eru forsendur fyrir því að bæði nafn- og raunvextir lækki.