Ekkert lát á verðlækkun innfluttra vara

Ekkert lát á verðlækkun innfluttra vara

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,07% milli mánaða í mars og stendur ársverðbólgan nú í 1,6%. Helstu tíðindi eru miklar lækkanir á verði innfluttra vara hvort sem um er að ræða mat og drykki (-0,11% áhrif á VNV), bíla (-0,09% áhrif á VNV), bensín (-0,08% áhrif á VNV) eða húsgögn og heimilisbúnað (-0,11% áhrif á VNV). Á móti vegur að föt og skór hækka í verði (+0,30% áhrif á VNV) og ganga útsölur þar með til baka að hluta til. Einnig hækkar húsnæðisliðurinn (+0,27% áhrif á VNV) og er það nánast einungis drifið áfram af hækkun húsnæðisverðs.

Þá er athyglisvert að án húsnæðisliðarins mælist verðhjöðnun upp á -1,7% en ef horft er á húsnæðisliðinn einan og sér hefur hann haft 3,2% áhrif til hækkunar á verðlag síðustu 12 mánuði. Það togast því á ólíkir en sterkir kraftar í sitt hvora áttina þar sem eignaverð Íslendinga hækkar og á sama tíma eykst kaupmáttur í erlendri mynt. Innlendar vörur og þjónusta, þ.e. ef húsnæðisverð og innfluttar vörur eru frátaldar, hafa einungis hækkað lítillega síðastliðið ár.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Við spáum því að verðlag hækki um 0,2% í apríl og 0,3% í maí. Þá spáum við 0,3% hækkun verðlags í júní og gangi spáin eftir mun ársverðbólgan þá standa í í 1,6%.

Útsöluáhrifin ganga ekki að fullu til baka

Föt og skór hækkuðu milli mánaða (+0,30% áhrif á VNV) líkt og oft áður á þessum árstíma. Þó verður að hafa í huga að verð á fötum og skóm stóð nánast í stað í febrúar eftir miklar útsölur í janúar. Útsöluáhrifin hafa því ekki gengið að fullu til baka þrátt fyrir hækkanir nú í mars. Styrking krónunnar fram að árslokum í fyrra virðist því enn drífa áfram verðlækkanir á innfluttum vörum. Sama á við um húsgögn og heimilisbúnað en liðurinn lækkaði í mars (-0,11% áhrif á VNV) og ganga útsöluáhrifin ekki að fullu til baka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Húsnæðisliðurinn hækkar á methraða

Húsnæðisliðurinn hækkaði milli mánaða eins og áður (+0,27% áhrif á VNV) en árstakturinn er að nálgast methæðir. Samkvæmt tölum Hagstofunnar hækkaði sérbýli um 3,6% í mars og er árstakturinn þá kominn í 18,2% en til að finna álíka tölur þarf að fara aftur til sumarsins 2006. Það má því segja að húsnæðisverð hækki á methraða þessa stundina (reiknuð húsaleiga hafði +0,28% áhrif til hækkunar á VNV).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Ferðaliðurinn, matarkarfan og póstur og sími lækka

Myndarleg lækkun var á ferðaliðnum (-0,25% áhrif á VNV). Bílar lækkuðu í verði (-0,09% áhrif á VNV), bensín lækkaði sömuleiðis (-0,08% áhrif á VNV) og að lokum lækkuðu flugfargjöld til útlanda (-0,07% áhrif á VNV). Hér má því einnig sjá áhrif styrkingar krónunnar fram að árslokum í fyrra og jafnframt hefur olíuverð verið að lækka. Matarkarfan lækkar einnig (-0,13% áhrif á VNV) og munaði mestu um lækkun á verði ávaxta og grænmetis. Að lokum lækkaði póstur og sími (-0,06% áhrif á VNV) líkt og liðurinn hefur gert undanfarna mánuði og misseri. Aðrir liðir breyttust minna.

Verðbólguhorfur góðar til skamms tíma en húsnæðisliðurinn veldur áhyggjum

Það er ekki hægt annað en að túlka verðbólgutölurnar sem svo að verðbólguhorfur til skamms tíma séu frekar góðar. Ársverðbólgan nemur 1,6% og verður á nálægt því fram að hausti ef spár okkar ganga eftir. Innflutt verðhjöðnun eykst ef eitthvað er og ársverðbólga án húsnæðisliðarins nemur -1,7%. Styrking krónunnar hefur því enn töluverð áhrif á verðlagsþróun hér innanlands. Á sama tíma er lítil hækkun á verði innlendrar vöru og þjónustu. Eini liðurinn sem veldur áhyggjum er húsnæðisliðurinn. Árstakturinn er að ná svipuðum hæðum og sumarið 2006 og ekkert lát er á hækkun bæði fjölbýlis og sérbýlis. Það eru því líkur á að ef það hægist á styrkingu krónunnar og innflutt verðhjöðnun gefi eftir þá standi húsnæðisliðurinn eftir og yfirgnæfi alla aðra liði og dragi árstakt verðbólgunnar upp í átt að 3%.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verðbólguþróun næstu mánuði:

• Apríl +0,2%: Gert er ráð fyrir hækkun húsnæðisverðs og flugfargjalda en lækkun annarra liða.
• Maí +0,3%: Helsti liðurinn sem hækkar í maí er húsnæðisverð og hótel og veitingastaðir.
• Júní +0,3%: Flugfargjöld til útlanda og hótel og veitingastaðir hækka í júní en aðrir liðir lækka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka