Utanríkisverslun á tímum uppsveiflunnar

Utanríkisverslun á tímum uppsveiflunnar

Samhliða efnahagsuppgangi síðustu ára hafa utanríkisviðskipti aukist mikið einkum fyrir tilstilli vaxandi innflutnings og margföldunar erlendra ferðamanna. Einnig má ekki gleyma að vöruútflutningur hefur sótt í sig veðrið og t.d. hafa gjaldeyristekjur af sjávarafurðum og ýmsum öðrum vörum aukist frá 2010 á föstu gengi. Á fyrstu tveimur mánuðum ársins hélt þessi þróun áfram með vaxandi innflutningi í öllum flokkum og einnig vaxandi vöruútflutningi, ef horft er framhjá verulegum samdrætti í útflutningi sjávarafurða sem skýrist af sjómannaverkfallinu. Í nýútkominni hagspá Greiningardeildar er því spáð að bæði inn- og útflutningur fari áfram vaxandi til 2019. Í spánni er einnig gert ráð fyrir áframhaldandi afgangi af vöru- og þjónustujöfnuði og styrkingu krónunnar en ekki þarf svo ýkja mikið að breytast til að sá afgangur snúist í halla sem yki líkur á veikingu krónunnar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Vöruútflutningur hefur dafnað ágætlega síðustu ár

Þrátt fyrir gengi krónunnar hafi styrkst undanfarið er ekki hægt að segja annað en að síðustu ár hafi um margt verið hagstæð fyrir útflutningsgreinar þjóðarinnar. Hagstætt verð hefur hjálpað útflutningi sjávarafurða sem hefur aukist talsvert á föstu gengi frá 2010 en áliðnaðurinn hefur heilt yfir staðið nokkuð í stað. Það gleymist þó oft að Ísland flytur út ýmsar aðrar vörur og árið 2016 nam útflutningsverðmæti þeirra um 122 ma.kr. Ein helsta ástæða þess að við vanmátum hagvöxt árið 2016 var einmitt þessi „annar vöruútflutningur“ sem jókst um 12% á föstu gengi. Á myndinni hér að neðan sést að þar voru að verki ýmsir þættir, t.d. aukinn útflutningur matvöru, eldisfisks en einnig annarra vara, t.d. iðnaðarvara og lyfja. Þessi árangur gæti verið í hættu ef gengi krónunnar helst áfram hátt, þó vöxturinn í fyrra geti að einhverju leyti endurspeglað getu útflutningsgreina til að takast á við lakari samkeppnisstöðu við útlönd.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Innflutningur hefur aukist talsvert minna en kaupmáttur í erlendri mynt

Ef vöruútflutningur hefur dafnað ágætlega síðustu ár þá bliknar hann í samanburði við vöruinnflutning. Frá árinu 2010 til 2016 jókst vöruinnflutningur um 76% á föstu gengi og útlit er fyrir að hann aukist áfram á yfirstandandi ári. Þessi aukning innflutnings er þó ekki svo ýkja mikil miðað við að hagkerfið hefur tekið hressilega við sér og að raungengi krónunnar hækkaði um 32% milli áranna tveggja.

Ef horft er eingöngu til vítt skilgreindra neysluvara líkt og hér að neðan má sjá að vöxtur innflutnings í fyrra var nokkuð minni en hækkun launa í erlendri mynt, en að jafnaði fylgist þetta tvennt vel að. Íslensk laun, mæld í erlendri mynt, voru um 25% hærri árið 2016 heldur en 2015, en engu að síður jókst innflutningur neysluvara í erlendri mynt einungis um 12% á sama tíma. Þá er ekki tekið tillit til þess að verulegur hluti þessa innflutnings er vegna ferðaþjónustu en ekki innlendrar neyslu, t.d. innflutningur matvöru, bíla og eldsneytis. Þessi þróun er vitnisburður gjörbreyttrar fjármálahegðunar Íslendinga sem spara nú meira en áður og greiða niður lán. En einmitt þar sem Íslendingar hafa upp til hópa farið skynsamlega með fjármuni sína undanfarin ár er ekki útilokað að innflutningur aukist enn meira en áður þar sem svigrúm til þess hefur myndast með lítilli skuldsetningu. Ef neysla eykst t.d. meira en kaupmáttur og krónan helst sterk má gera ráð fyrir hressilegri aukningu innflutnings.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Spá um laun í krónum og gengi krónu, sviðsmynd miðað við að innflutningur aukist í sama hlutfalli og laun.

Það er ekki eingöngu neysla og ferðaþjónusta sem hafa áhrif á vöruinnflutning heldur einnig ýmis framleiðsla og fjárfesting. Gott dæmi um það er íbúðafjárfesting en stór hluti byggingarefnis er innfluttur. T.d. hefur innflutningur á steypustyrktarjárnum og sementsala fylgt íbúðafjárfestingu nokkuð vel. Í nýútkominni hagspá Greiningardeildar er gert ráð fyrir að íbúðafjárfesting 2019 verði um 70% meiri en hún var árið 2016. Slík fjárfesting mun kalla á vöruinnflutning en einnig innflutning vinnuafls sem er kapítuli út af fyrir sig.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Útlit fyrir afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum til 2019 – eða hvað?

Samkvæmt hagspánni mun innflutningur aukast um 13% í ár sem er tveimur prósentum hægari vöxtur en árið 2016. Í ljósi vaxandi kaupmáttar og fjárfestingar samhliða verulegri styrkingu krónunnar kæmi þó ekki á óvart ef vöxtur innflutnings verði meiri í ár. T.d. gerir spá okkar ráð fyrir að laun í erlendri mynt verði að meðaltali um 23% hærri í ár en í fyrra og er þá gert ráð fyrir lítilsháttar styrkingu gengisins frá því sem nú er. Á móti þessum innflutningsvexti kemur áframhaldandi fjölgun ferðamanna sem birtist í mikilli aukningu þjónustuútflutnings. Í spá okkar ber fjölgun ferðamanna uppi vöxt útflutnings, jafnvel þó að við höfum fært spá okkar um fjölgun ferðamanna nokkuð niður fyrir árin 2018 og 2019. Ástæður þess eru m.a. ýmis teikn um að þolmörkum hafi að talsverðu leyti verið náð auk þess sem við teljum líklegt að sterkari króna hafi áhrif á komur ferðamanna.


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Hvað sem líður hægari ferðamannafjölgun og hraðri innflutningsvexti er ennþá útlit fyrir að afgangur verði af utanríkisverslun, eða vöru- og þjónustujöfnuði, a.m.k. til ársins 2019. Jafnvel verður hann meiri út spátímann ef sparnaðarvilji Íslendinga er varanlega orðinn meiri sem leiðir til minni innflutnings en ella. Þá kann að vera að fjölgun ferðamanna haldi áfram næstu ár með meiri krafti en við gerum ráð fyrir enda hefur WOW air tilkynnt um kaup og leigu á nýjum flugvélum á næsta ári, stutt er í að Icelandair fái afhentar glænýjar flugvélar og afkastageta á Keflavíkurflugvelli er enn að aukast.

Aftur á móti er jafnvel auðveldara að teikna upp sviðsmynd þar sem þróunin verður í hina áttinna. Sem áður segir gætum við verið að vanmeta aukningu innflutnings vegna vaxandi neyslu og fjárfestingar á sama tíma og krónan hefur styrkst. Einnig er mögulegt að annar vöruútflutningur gefi eftir ef gengið verður áfram sterkt næstu mánuði. Áhrif gengis krónunnar á ferðaþjónustu eru enn óviss og ekki er útilokað að hátt gengi muni bíta verulega í gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum. Þá er nýbúið að tilkynna um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu sem gæti enn frekar haldið aftur af fjölgun ferðamanna. Gerist það að ferðamönnum fjölgi enn hægar eða fækki á sama tíma og innflutningur eykst meira en við spáum verður vöru- og þjónustuafgangur fljótur að snúast í halla. Verði það raunin aukast líkur á því að krónan veikist frá því sem nú er.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.