Spáum að vísitala neysluverðs hækki um 0,3% í apríl

Spáum að vísitala neysluverðs hækki um 0,3% í apríl

Við spáum að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,3% í apríl og er það ívið meiri hækkun en við höfum gert ráð fyrir í skammtímaspám að undanförnu. Verðbólguspáin hækkar annars vegar vegna gengisveikingar krónunnar í mars og hins vegar vegna hækkunar á húsnæðisverði umfram það sem við áætluðum áður. Gengi krónunnar og þróun húsnæðisverðs eru því þeir liðir sem ráða förinni næstu mánuði hvað verðbólguhorfur varðar. Aðrir liðir sem hækka í mars eru húsgögn og heimilisbúnaður og flugfargjöld en á móti lækka föt og skór og tómstundir og menning.

Heimild: Greiningardeild Arion banka

Við spáum því að verðlag hækki um 0,4% í maí, 0,3% í júní og lækki um -0,3% í júlí. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í í 1,9% í júlí.

Húsnæðisverð heldur áfram að hækka

Við spáum því að húsnæðisverð hækki um 1,6% milli mánaða í apríl (+0,24% áhrif á VNV). Til samanburðar hefur húsnæðisverð hækkað að meðaltali um 1,4% milli mánaða síðastliðið ár og er árstakturinn 17,8% skv. síðustu mælingum Hagstofunnar. Enn fækkar eignum á söluskrá og framboð af íbúðarhúsnæði er nokkuð afturhlaðið þegar horft er til næstu þriggja ára og því er ekki líklegt að framboðið verði nægilegt til að kæla markaðinn á næstu mánuðum. Við áætlum einnig að greidd húsaleiga hækki milli mánaða (+0,01% áhrif á VNV).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Ferðaliðurinn og húsgögn hækka

Nýjustu mælingar benda til þess að flugfargjöld til útlanda hækki lítillega í apríl (+0,04% áhrif á VNV) og einnig hækkar eldsneytisverð (+0,01% áhrif á VNV). Ferðaliðurinn hefur því samtals 0,05% áhrif til hækkunar á VNV. Eftir töluverðar útsölur að undanförnu gerum við ráð fyrir að húsgögn og heimilisbúnaður hækki (+0,04% áhrif á VNV). Nokkur óvissa er þó með þennan lið og má vera að hækkunin verði minni en hér er spáð. Aðrir liðir hækka almennt minna en einna helst er það þó liðurinn hótel og veitingastaðir (+0,02% áhrif á VNV).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Föt og skór lækka ásamt tómstundum og menningu

Enn spáum við lækkun á fatnaði og skóm (-0,04% áhrif á VNV) en verðlagsþróun á fatnaði og skóm hefur verið nokkuð ólík því sem gerst hefur undanfarin ár. Útsöluáhrifin hafa gengið minna til baka en áður og gerum við ráð fyrir að áfram muni fatnaður almennt hækka lítið í verði á næstu mánuðum. Þróunin skýrist að hluta til af væntanlegri opnun H&M í haust, aukningu í netverslun og vaxandi samkeppni almennt en einnig hefur gengisstyrkingin haft sitt að segja. Við áætlum að tómstundir og menning lækki í verði (-0,02% áhrif á VNV) og sömuleiðis lækkar póstur og sími (-0,04% áhrif á VNV) eins og gerist nánast í hverjum mánuði. Við spáum að aðrir liðir lækki minna.

Líklegt að það dragi úr verðlækkun innfluttra vara þegar líður á árið

Þeir þættir sem munu ráða verðbólguþróun næstu mánuði eru að okkar mati gengi krónunnar og þróun húsnæðisverðs. Aðrir undirliðir verðbólgunnar hreyfast lítið samanborið við verðlækkanir innfluttra vara annars vegar og hækkun húsnæðisverðs hins vegar. Vísbendingar eru um að gengi krónunnar gæti sveiflast á ákveðnu bili á næstu mánuðum frekar en að vera í stöðugum styrkingarfasa líkt og á seinni hluta árs í fyrra. Verði það raunin að gengisstyrkingunni sé lokið í bili og að sveiflukenndara gengi sé framundan er líklegt að verð á innfluttum vörum standi í stað og myndi árstaktur verðbólgunnar hækka í kjölfarið. Við sjáum engu að síður merki um að töluverð töf sé á áhrifum gengisstyrkingarinnar og að styrkingin fyrir áramót sé enn að hafa áhrif á verðlag til lækkunar. Það má því vera að verðhjöðnun innfluttra vara reynist lífsseig og viðhaldist út árið. Einnig eru merki um að opnun Costco hafi áhrif á verðlag á ýmsa sérvöru og má sem dæmi nefna nýlega lækkun á hjólbörðum. Það getur gert það að verkum að verðbólgan verði lítil áfram út þetta ár. Við teljum þó að þegar nær dregur áramótum muni verðbólguþrýstingur aukast. Þá er líklegt að áhrif gengisstyrkingar og aukinnar samkeppni á smávöruverslun fari dvínandi og að verðbólgutakturinn hækki í kjölfarið.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verðbólguþróun næstu mánuði:
Maí +0,4%: Helsti liðurinn sem hækkar í maí er húsnæðisverð og hótel og veitingastaðir.
Júní +0,3%: Flugfargjöld til útlanda og hótel og veitingastaðir hækka í júní en aðrir liðir lækka.
Júlí -0,3%: Föt og skór lækka í útsölum í júlí en flugfargjöld og aðrir liðir hækka.