Hækkun húsnæðisverðs drífur áfram verðbólguna

Hækkun húsnæðisverðs drífur áfram verðbólguna

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,5% milli mánaða í apríl og hækkar þar með ársverðbólgan úr 1,6% í 1,9%. Hins vegar mælist verðhjöðnun upp á -1,8% þegar litið er framhjá húsnæðisliðnum. Fyrirferð húsnæðisliðarins eykst því í hverjum mánuði og virðist innlendur verðbólguþrýstingur vera lítill. Húsnæðisliðurinn hafði mun meiri áhrif en flestir greiningaraðilar gerðu ráð fyrir (+0,51% áhrif á VNV) en á móti kemur að aðrir undirliðir breytast lítið. Ferðaliðurinn hækkar (+0,12% áhrif á VNV) og stafar það að hækkun flugfargjalda til útlanda og flugfargjalda innanlands. Á móti kemur að matarkarfan lækkar (-0,08% áhrif á VNV) en aðrir liðir breytast minna.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka. 

Við spáum því að verðlag hækki um 0,4% í maí, 0,3% í júní og lækki um -0,3% í júlí. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í í 2,1%.

Húsnæðisverð heldur áfram að hækka

Húsnæðisverð um land allt hækkaði um 2,6% milli mánaða og hefur húsnæðisverð utan höfuðborgarsvæðisins einnig verið að gefa í, en það hækkaði um 3,6% milli mánaða. Árstakturinn á fjölbýli og sérbýli innan höfuðborgarsvæðisins er því kominn yfir 20% og sama á við um húsnæðisverð utan höfuðborgarsvæðisins. Húsnæðisliðurinn í heild hafði +0,51% áhrif á VNV og má segja að hann sé undirstaðan í breytingu vísitölunnar þessi mánaðarmót. Reiknuð húsaleiga vegur þyngst (+0,49% áhrif á VNV) og greidd húsaleiga hækkaði einnig (+0,03% áhrif á VNV).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Ferðaliðurinn hækkar en matarkarfan lækkar

Ferðaliðurinn hækkar umfram okkar spár (+0,12% áhrif á VNV) og þar af vegur þyngst hækkun flugfargjalda, en flugfargjöld til útlanda hækkuðu um rúm 13% (+0,16% áhrif á VNV). Engu að síður hafa flugfargjöld undanfarin ár og misseri verið að lækka jafnt og þétt og er líklegt að sú þróun haldi áfram í ár. Bílar halda áfram að lækka í verði (-0,08% áhrif á VNV) og virðast áhrif gengisstyrkingar áfram hafa áhrif á innflutningsverð bíla. Á móti hækkun ferðaliðarins kemur lækkun á matarkörfunni (-0,08% áhrif á VNV) og er það annan mánuðinn í röð sem myndarleg lækkun er á matvöru og drykkjum.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Innlendur verðbólguþrýstingur áfram lítill en húsnæðisverð hækkar

Innlendar vörur og þjónusta hafa einungis hækkað um 0,6% undanfarna 12 mánuði. Hvað þjónustu varðar er það helst opinber þjónusta sem hefur hækkað í verði frekar en önnur þjónusta. Það er því erfitt að færa rök fyrir því að innlendur verðbólguþrýstingur sé verulegur um þessar mundir. Eini liðurinn sem hækkar af ráði er húsnæðisliðurinn. Kaupmáttur hefur hækkað vel undanfarin misseri en framundan eru töluvert hógværari launahækkanir ef SALEK gengur eftir. Þrýstingur á fyrirtæki til að ýta launahækkunum út í verðlag ætti því að fara minnkandi og mun innlend verðbólga að öllum líkindum litast af aukinni samkeppni í smávöruverslun. Það sem getur keyrt verðbólguna áfram er því einna helst hækkun húsnæðisverðs. Það er því áhugavert að lífeyrissjóðir eru nú að endurskoða reglur sínar um veðtryggingar í ljósi mikilla hækkana á fasteignamarkaði að undanförnu. Nú þegar hefur Lífeyrissjóður verslunarmanna gert breytingar á útlánareglum til sjóðfélaga sinna sem leiða til þess að sú lánsupphæð sem sjóðsfélögum stendur til boða getur lækkað.

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verðbólguþróun næstu mánuði:

Maí +0,4%: Helsti liðurinn sem hækkar í maí er húsnæðisverð og hótel og veitingastaðir.
Júní +0,3%: Húsnæðisverð, flugfargjöld til útlanda og hótel og veitingastaðir hækka í júní en aðrir liðir lækka.
Júlí -0,3%: Föt og skór lækka í útsölum í júlí en flugfargjöld, húsnæðisverð og aðrir liðir hækka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka