Ísland, tólf… eða kannski bara tíu stig

Ísland, tólf… eða kannski bara tíu stig

Setjið sætindin í skálarnar, dustið rykið af ABBA plötunum, landafræðiþekkingunni og raddböndunum því Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, betur þekkt sem Eurovision, hefst í kvöld! Þetta er í 62. skipti sem keppnin er haldin, í þetta sinn í Kíev Úkraínu, og að venju er spenningurinn mikill.

Þetta er í 30. skipti sem Ísland tekur þátt í Eurovision, en Icy reið á vaðið árið 1986 með poppperlunni Gleðibankinn. Íslendingar eru þekktir fyrir að taka Eurovision alvarlega og hefst undirbúningurinn mörgum mánuðum fyrir keppnina sjálfa, fyrst með íburðarmikilli forkeppni þar sem öllu er til tjaldað og seinna, þegar nær dregur keppni, heldur Felix Bergsson ásamt öðrum Eurovision spekúlöntum í hönd landsmanna og leiðir þá í gegnum þátttökulögin. Í ljósi áhugans og metnaðarins sem landinn leggur í keppnina skal engan undra að margir séu súrir yfir þeirri staðreynd að Ísland er eina Norðurlandið sem hefur aldrei hirt titilinn. Við höfum vissulega komist nálægt því, og þá sérstaklega árið 1999 þegar Selma Björnsdóttir og frakkaklæddu herramennirnir urðu uppiskroppa með gæfu á ögurstundu og hin sænska Charlotte Perrelli (Charlotte Nilsson eins og hún hét þá) „stal“ sigrinum. Árið 2009 höfnuðum við aftur í öðru sæti, þegar Jóhanna Guðrún söng sig inn í hug og hjörtu Evrópubúa, en það ár átti hinn súkkulaðisæti Alexander Rybak sigurinn vísan.

Í kvöld verður það Svala Björgvinsdóttir sem stígur á svið fyrir hönd þjóðarinnar með lagið Paper, og ríkir nokkur bjartsýni meðal landsmanna um gott gengi. Á meðan þjóðin gírar sig upp fyrir kvöldið hafa rúðustrikaðir hagfræðingar Greiningardeildar aftur á móti velt einni spurningu fyrir sér: Viljum við raunverulega vinna Eurovision? Í huga margra er eflaust fásinna að velta þessu upp, auðvitað viljum við vinna, en hugsum dæmið í augnablik út frá annarri hlið. Flest lönd sem hafa unnið, og þar af leiðandi haldið keppnina árið eftir, hafa tapað á því…peningalega. Svíþjóð er undantekningin, en í fyrra kom keppnin út í hagnaði, sem er sér í lagi óvanalegt. Þrátt fyrir að ekki sé ráðist í stórkostlegar framkvæmdir, eins í tilfelli Baku og Kaupmannahafnar þar sem tónleikahallir voru reistar sérstaklega fyrir keppnina, kostar skildinginn að vera gestgjafi. Oftar en ekki duga þær tekjur sem falla til, s.s. frá ferðamönnum er koma fyrir keppnina og eyða í gistingu, afþreyingu, mat o.s.frv., ekki fyrir kostnaðinum og þarf þá einhvern veginn að brúa bilið.

Heimildir: : RBS, European Broadcasting Union, Wall Street Journal, Citi of Stockholm, AGS, Greiningardeild Arion banka

Eniga, meniga, allir röfla um peninga

Það er ekki gefins að taka þátt í Eurovision og hafa fjölmörg lönd dregið sig úr keppni vegna fjárhagserfiðleika. Nýjasta dæmið er Bosnía og Hersegóvína sem mun ekki taka þátt í ár, en einnig má nefna að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, að því er fullyrt er, taldi Ungverjaland á að draga sig úr keppninni árið 2010 sökum kostnaðar. Áætlað er að heildarkostnaður Ríkissjónvarpsins við Eurovsion ferlið sé um 90 milljónir króna, en þar af kostar 30 milljónir að taka þátt í sjálfri keppninni. Hinsvegar er gert ráð fyrir að þegar öllu sé á botninn hvolft standi þátttakan undir sér, enda skapi miðasala, símakosning og auglýsingar umtalsverðar tekjur.

Þátttökukostnaðurinn bliknar hinsvegar í samanburði við kostnaðinn við að halda keppnina, sem getur hlaupið á milljörðum króna. Svíum hefur gengið vel að standa við hófsamar fjárhagsáætlanir og haldið kostnaðinum í skefjum, en áætlunin fyrir keppnina er haldin var í Stokkhólmi í fyrra var sú lægsta í áraraðir. Þrátt fyrir að Svíar hafi vissulega verið glúrnir má ekki gleyma að þeir bjuggu svo vel að hafa alla innviði til staðar, annað en t.d. Baku í Aserbaídsjan. Áætlað er að keppnin í ár muni kosta Úkraínumenn um 29 milljónir evra, eða tæpa 3,4 milljarða íslenskra króna, sem er talsvert meira en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir og hefur valdið miklu fjaðrafoki og ágreiningi.

Heimildir: RBS, European Broadcasting Union, Wall Street Journal, AGS, Greiningardeild Arion banka

Fórnarkostnaður Eurovision

Erfitt er að áætla hver kostnaður Íslendinga yrði ef keppnin yrði haldin hér á landi. Segjum sem svo að kostnaður við keppnishald yrði jafn meðalkostnaði síðustu tíu ára, eða rúmir fjórir milljarðar. Þannig er óbeint gert ráð fyrir því að ekki þurfi að ráðast í stórkostlegar framkvæmdir, s.s. að byggja tónleikahöll, heldur verði þeir innviðir sem fyrir eru nýttir.

Peningar eru af skornum skammti og því þarf að velja í hvað við viljum eyða þeim. Þetta tengist beint hugtakinu fórnarkostnaður sem er hagfræðingum einkar hugleikið enda einn af hornsteinum fræðanna. Þetta er hugtak sem er eflaust mörgum kunnugt en í grunninn vísar það til virði þess valmöguleika sem er hafnað til að öðlast annað. Sem dæmi, segjum sem svo að við höfum rúma fjóra milljarða króna til að eyða, annað hvort í Eurovision eða að framleiða nýjar seríur af Ófærð. Ef við veljum að halda Eurovision þá eru fjórar seríur af Ófærð fórnarkostnaðurinn við keppnishaldið.

Til gamans höfum við listað upp nokkur dæmi sem sýna gróflega hvað við gætum gert við þessa fjóra milljarða í formi skemmtunar, m.ö.o. fórnarkostnað Eurovision í skemmtanagildi. Þar kennir ýmissa grasa, til að mynda væri hægt að halda 460 jólatónleika, reka 51 lið í Pepsí deild karla í eitt ár eða gefið öllum Íslendingum 7 ABBA Waterloo vínylplötur!

Ef við lítum út fyrir ramma lista, menningar og íþrótta þá er ýmislegt annað sem hægt væri að fjárfesta í. Til að mynda væri hægt að byggja 143 meðalstórar íbúðir, sem væri kærkomin viðbót inn á húsnæðismarkaðinn í dag, rekið Landspítalann í tæpan mánuð, borgað rekstrarkostnað í eitt ár fyrir 2.300 grunnskólanemendur eða gefið öllum landsmönnum 12 miða í Hvalfjarðargöngin.

 

Þrátt fyrir gestgjafaþjóðirnar tapi yfirleitt á því að halda keppnina má ekki líta framhjá óbeinu áhrifunum sem keppnin getur haft á hagkerfi þeirra. Allar borgir sem haldið hafa keppnina hafa upplifað nokkurn vöxt í ferðaþjónustu og efnahag, að minnsta kosti til skamms tíma. Áhrifin til lengri tíma eru ekki jafn augljós en hafa verður í huga að gríðarlegur fjöldi horfir á keppnina ár hvert, til að mynda horfðu 204 milljónir manns í fyrra, sem eykur sýnileika landsins á alþjóðavísu og gæti aukið ferðaþjónustutengdar tekjur. Þá má ekki líta framhjá upphefðinni sem fylgir því að vinna keppnina, sem í hugum flestra er mikilvægari en kostnaðurinn sem fellur til. Hvernig svo sem fer þá er keppnin sjálf hin besta skemmtun, uppfull af glys, glamúr og gleði og við í Greiningardeildinni munum setja öll bölsýn hagfræðisjónarmið á hilluna í kvöld og taka heilshugar undir með Svölu og þjóðinni: PAAAAAPER!