Spáum treglegri 0,25 prósentustiga vaxtalækkun

Spáum treglegri 0,25 prósentustiga vaxtalækkun

Þann 17. maí verður vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands birt og spáum við því að vextir lækki um 0,25 prósentustig og því verði meginvextir 4,75%. Vaxtaákvörðunin er að þessu sinni, líkt og svo oft áður sl. mánuði, afar tvísýn og eru ágætar líkur á því að vextir verði óbreyttir og jafnvel mögulegt að vextir verði lækkaðir um 0,5 prósentustig. Við reiknum með að rök peningastefnunnar fyrir vaxtalækkun verði að verðbólga sé minni og verði minni á næstu mánuðum en áður var spáð, en þar vegur þyngst styrking krónunnar sem nú þegar er orðin meiri en Seðlabankinn spáði í febrúar. Þá hefur afnám hafta hingað til heppnast afar vel svo að tímabundin óvissa sem hélt aftur af nefndinni síðast á ekki lengur við. Á móti þessu vegur að nýja vinnumarkaðstölur benda til áframhaldandi aukningu spennu í hagkerfinu og útlit er fyrir að hagvaxtarspá Seðlabankans fyrir 2017 verði færð upp á við. Sú staðreynd er til þess fallin að nefndin stigi varlega til jarðar. Ástandið á húsnæðismarkaði mun án efa vera nefndarmönnum hugleikið að þessu sinni og teljum við líklegt að í farvatninu sé virkjun þjóðhagsvarúðartækja til að hægja á hækkun húsnæðisverðs. Mögulegt er að peningastefnunefnd bíði eftir slíkum aðgerðum áður en vextir eru lækkaðir.

Húsnæðisverð heldur uppi verðbólgu og vekur áhyggjur – hámark á lánshlutfall á næstunni?

Hér að neðan má sjá að verðbólgan um þessar mundir er að nær öllu leyti drifin áfram af húsnæðisverði. Án húsnæðis væri verðhjöðnun upp á 1,8% en með húsnæði mælist verðbólga 1,9% enda hefur húsnæðisverð á landinu hækkað um rúm 20% sl. 12 mánuði. Í skýrslu okkar um húsnæðismarkaðinn í janúar sögðum við að húsnæðismarkaðurinn væri við ríflegan stofuhita. Frá áramótum hefur verð hækkað um 7,5% og er einungis einu prósentustigi frá því að verða jafn hátt og 2007. Það vantar því ekki ýkja mikið upp á til að hægt sé með nokkurri vissu að tala um bóluástand á markaðnum.

Húsnæðismarkaðurinn mun af þessum sökum líklega vera nefndinni nokkuð ofarlega í huga. Vísbendingar um það má sjá í ræðu seðlabankastjóra á ársfundi Seðlabankans þar sem hann sagði „...vaxandi áhyggjur eru af aðstæðum á fasteignamarkaði og til þess kann að koma á næstunni að tiltæk þjóðhagsvarúðartæki verði virkjuð til að draga úr áhættu sem tengist þeim“. Þá vakti það athygli okkar að í könnun markaðsaðila að þessu sinni, sem niðurstöður verðar birtar úr í Peningamálum samhliða vaxtaákvörðun, var spurt sérstaklega um væntingar til fasteignaverðs.

Vandi peningastefnunefndarinnar er að ef vextir lækka geta þeir ýtt undir fasteignaverð og aukið hættuna á bólumyndun. Þetta mun peningastefnunefndin vafalítið ræða og áhyggjur af húsnæðismarkaðnum gætu haldið aftur á vaxtalækkunum þar til þjóðhagsvarúðartæki á við takmörkun lánshlutfalls eða aukna eiginfjárbindingu banka vegna íbúðalána verða virkjuð. Virkjun slíkra tækja gæti einnig skapað grundvöll fyrir vaxtalækkunum síðar ef hún hægir á verðhækkunum á húsnæðismarkaði. Útfærsla slíkra tækja skiptir verulegu máli og þyrfti að taka tillit alls íbúðalánamarkaðins.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Atvinnuleysi minnkaði þrátt fyrir sjómannaverkfall

Á vinnumarkaði má sjá greinileg þenslumerki um þessar mundir þó að ástandið þar hafi ekki enn valdið launaskriði, einkum þar sem þörf á vinnuafli hefur verið mætt með innflutningi vinnuafls. Atvinnuleysi á fyrsta ársfjórðungi lækkaði frá því í fyrra þrátt fyrir langvinnt sjómannaverkfall og mældist 3%. Eftir að sjómannaverkfalli lauk mældist atvinnuleysi einungis 1,7% í mars, sem er það minnsta sem mælst hefur í mars. Allt þetta ber merki um gríðarlegan kraft í þjóðarbúskapnum og gæti haldið aftur af vaxtalækkunum nú eða síðar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Hvernig mun ný spá líta út?

Við ákvörðun peningastefnunefndar nú mun liggja til grundvallar ný efnahags- og verðbólguspá Seðlabankans, sem birt verður í Peningamálum samhliða ákvörðun peningastefnunefndar. Síðustu misseri hefur Seðlabankinn nær undantekningalaust ofmetið verðbólgu og spár því endurtekið verið færðar niður til skamms tíma. Gengi krónunnar hefur styrkst talsvert meira en Seðlabankinn hafði spáð og er það nú um 5,6% sterkara en spáð hafði verið á árinu. Ef krónan styrkist áfram eða helst óbreytt eru allar líkur á að verðbólga verði undir markmiði langt fram á næsta ár svo að til skemmri tíma verður verðbólguspá Seðlabankans færð niður sem eykur líkurnar á vaxtalækkun. Það skal þó hafa í huga að gengi krónunnar er orðið mjög sterkt í sögulegu samhengi og svigrúm til frekari gengisstyrkingar því takmarkað.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Á móti þessu vegur að hagvaxtarspá Seðlabankans mun að líkindum verða færð upp á við, a.m.k til skemmri tíma. Hagvöxtur í fyrra var rúmlega prósentustigi meiri en Seðlabankinn hafði spáð í febrúar, þegar einungis vantaði tölur frá fjórða ársfjórðungi 2016. Hagvöxtur 2017 skv. síðustu spá Seðlabankans verður 5,3% en við spáum því að hagvöxtur verði 5,9%. Verði spá um hagvöxt hækkuð má gera ráð fyrir meiri framleiðsluspennu sem myndi hækka verðbólguspá.

Afnám hafta hefur gengið fumlaust fyrir sig

Þó að við spáðum vaxtalækkun síðast kom það okkur ekki óvart að peningastefnunefnd kaus að halda vöxtum óbreyttum. Ástæðan er sú að í millitíðinni voru fjármagnshöft losuð nær algjörlega á fyrirtæki, lífeyrissjóði og einstaklinga, sem jók óvissu til skamms tíma eins og kom fram í fundargerð og hafði áhrif á að nefndin kaus að halda vöxtum óbreyttum. Gengi krónunnar sveiflaðist nokkuð eftir haftalosunina og veiktist í fyrstu en er nú komið aftur á svipaðar slóðir og það var rétt fyrir haftalosun og hefur haldist nokkuð stöðugt síðustu daga. Þá hefur skuldabréfamarkaður brugðist hóflega við losun fjármagnshafta og hefur verðbólguálag aukist lítillega og er nú 2,2 prósentustig til 5 ára. Að okkar mati gefur þetta tilefni til þess að vaxtalækkunin sem við spáðum í mars komi til nú, enda verðbólguhorfur um margt svipaðar og þá.

Er Seðlabankinn að reyna að veikja krónuna?

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar þann 8. febrúar sl. kom fram að nefndin teldi ekki lengur þörf á frekari stækkun gjaldeyrisforðans og markmið gjaldeyrisinngripa þaðan í frá myndu miða að því að minnka skammtímasveiflur á gengi krónunnar. Þá kom einnig fram í fundargerð vegna vaxtaákvörðunar í mars sl. að peningastefnunefnd legði áherslu á að bankinn myndi ekki aðeins kaupa gjaldeyri heldur einnig selja þegar aðstæður kölluðu á slíkt. Ennfremur kom skýrt fram í síðustu fundargerð að peningastefnan hvorki ætti né gæti stöðvað aðlögun að nýju jafnvægisgengi.

Við nánari skoðun virðist þessi nýja stefna Seðlabankans vera í orði en ekki á borði. Frá 8. febrúar hefur gengi krónunnar styrkst 32 daga og veikst 25 daga, en á þessu sama tímabili hefur Seðlabankinn hins vegar keypt gjaldeyri 37 sinnum en aðeins selt tvisvar sinnum. Sé horft fram hjá reglulegum inngripum (ca. 3 m. evra tvisvar í viku) þá hefur bankinn keypt gjaldeyri í 21 skipti og í 81% tilvika hefur gengi krónunnar gagnvart evru veikst þann viðskiptadag. Það verður því ekki betur séð en að bankinn sé a.m.k. að koma í veg fyrir frekari styrkingu. Forvitnilegt verður að sjá hvernig peningastefnunefndin mun útskýra þetta ósamræmi og hvaða skilaboð verða gefin um gjaldeyrisinngrip á næstu mánuðum.

Heimildir: Bloomberg, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.