Spáum 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs í maí

Spáum 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs í maí

Við spáum að vísitala neysluverðs hækki um 0,3% í maí, sem er nokkuð minni hækkun en við höfðum áður gert ráð fyrir í skammtímaspám síðustu mánaða. Ástæðan er fyrst og fremst töluverð lækkun eldsneytisverðs (-0,07% áhrif á VNV) sem vegur á móti miklum húsnæðisverðshækkunum (+0,37% áhrif á VNV). Með hækkandi sólu og aukinni umferð um Keflavíkurflugvöll hækkar verð á hótelgistingu og veitingastöðum (+0,05% áhrif á VNV) en flugfargjöld til útlanda lækka (-0,07% áhrif á VNV). Gangi spá okkar eftir lækkar ársverðbólgan úr 1,9% í 1,8%. Sem fyrr eru gengi krónunnar og þróun húsnæðisverðs þeir liðir sem ráða förinni næstu mánuði hvað verðbólguhorfur varðar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Við spáum því að verðlag hækki um 0,3% í júní, lækki um -0,3% í júlí og hækki um 0,4% í ágúst. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í í 2% í ágúst.

Húsnæðisverð heldur áfram að hækka

Við spáum að húsnæðisverð hækki um 2% í maí (+0,37% áhrif á VNV) og að árstaktur húsnæðisverðs um land allt fari úr 20,2% í 21,7%. Ásett meðalfermetraverð 3-4 herbergja fjölbýlis á landinu öllu hefur hækkað um 3,3% sl. mánuð sem gefur vísbendingu um áframhaldandi hækkanir húsnæðisverðs. Það vekur þó athygli að auglýstum fasteignum hefur fjölgað á sama tíma sem er nýmæli síðustu mánuði og gefur vonandi fyrirheit um að framboðið sé að byrja að taka betur við sér.

Hækkun húsnæðisverðs vegur þyngst í húsnæðisliðnum, og hefur reiknuð húsaleiga fengið aukið vægi í VNV og vegur nú 18,7% samanborið við 14,9% í fyrra. Við spáum því að aðrir undirliðir húsnæðisliðarins muni einnig hækka (+0,04% áhrif á VNV) svo heildaráhrif húsnæðisliðarins eru því til +0,41% hækkunar VNV.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Svarta gullið lækkar og ferðaliðurinn með

Verðmælingar á flugfargjöldum til útlanda benda til lækkunar (-0,07% áhrif á VNV), en flugfargjöld hafa almennt lækkað í maí. Flugfargjöld hafa lækkað jafnt og þétt undanfarin ár og teljum við að sú þróun haldi áfram samhliða aukinni samkeppni. Verðsveiflur gætu einnig verið minni, þ.e. óvíst er að verðhækkunin sem jafnan skellur á yfir sumarmánuðina verði jafn mikil og síðustu ár. Þar að auki lækkar eldsneyti í verði (-0,07% á VNV), en fat af Brent hráolíu hefur lækkað um tæp 10% frá miðjum apríl. Samhliða því hefur krónan styrkst gagnvart bandaríkjadal sem ýtir enn undir verðlækkunina. Talsverð óvissa er um olíuverð á komandi mánuðum en á sama tíma og OPEC ríkin semja um áframhaldandi samráð skrúfa bandarískir olíuframleiðendur frá krönunum. Því er mögulegt að við gætum því séð áframhaldandi lækkun á innlendu eldsneytisverði. 

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Bloomberg, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Húsnæðisverð á bensíngjöfinni, krónan á bremsunni

Líkt og að undanförnu eru það húsnæðisliðurinn og gengi krónunnar sem ráða mestu um verðbólgu á komandi mánuðum og misserum. Í síðasta mánuði mældist verðhjöðnun upp á -1,8% þegar litið er framhjá húsnæðisliðnum svo erfitt er að færa rök fyrir því að innlendur verðbólguþrýstingur sé verulegur. Þrátt fyrir að launakostnaður innlendra fyrirtækja hækki talsvert núna í maí sökum kjarasamningsbundinna hækkana teljum við að áhrifin á verðlag til skamms tíma verði minniháttar, bæði vegna styrkingar krónunnar og aukinnar samkeppni. Hversu lengi krónan mun og getur létt undir með innlendum aðilum er erfitt að segja til um, en miðað við ferðamannafjöldann er streymir til landsins, viðskiptakjarabata og gengisstyrkingu þrátt fyrir losun hafta teljum við að þróunin næstu mánuði geti verið til lítilsháttar styrkingar.

Mótaðili gengisins í verðbólgureiptoginu er húsnæðisliðurinn, sem hefur haldið uppi verðbólgunni að undanförnu. Húsnæðisverð á landinu hefur hækkað um rúm 20% sl. 12 mánuði og er raunverð húsnæðis aðeins einu prósentustigi frá 2007 toppnum. Þetta ástand hefur valdið áhyggjum og hefur seðlabankastjóri ýjað að því að tiltæk þjóðhagsvarúðartæki verði virkjuð til að slá á hækkanir á húsnæðismarkaði, eins og við röktum í nýútkominni stýrivaxtaspá. Hvort og hvenær þessi tæki verða virkjuð hefur talsverð áhrif á framhaldið en einnig að hversu miklu leyti þau geta temprað verðhækkanir. Við teljum að næstu mánuði muni árstaktur verðbólgunnar fara í 2% en að verðbólguþrýstingur verði meiri þegar líður að áramótum.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

Júní +0,3%: Húsnæðisverð, flugfargjöld til útlanda og hótel og veitingastaðir hækka í júní.
Júlí -0,3%: Útsöluáhrif koma fram af fullum þunga en húsnæðisverð og flugfargjöld hækka.
Ágúst +0,4%: Föt og skór hækka þegar útsölum lýkur, húsnæðisverð hækkar en flugfargjöld lækka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka