Hvert fór kaupmátturinn?

Hvert fór kaupmátturinn?

Mikið hefur verið fjallað um að kaupmáttur launa á Íslandi hafi vaxið gríðarlega á sl. misserum enda hefur vísitala kaupmáttar launa hækkað um 34% á sjö árum, 42% frá aldamótum og ca. tvöfaldast í erlendri mynt á örfáum árum. Kaupmáttur launa, eins og margir hagvísar, segir þó einungis til um hvernig staða meðaleinstaklingsins hefur þróast, sem er ágætt til síns brúks en er eðli málsins samkvæmt takmörkunum háð. Eins og oft er sagt þá líður manni „að meðaltali“ ágætlega með annan fótinn í sjóðandi heitu vatni en hinn í ísbaði. Okkur virðist sem stór hluti efnahagslegrar og pólitískrar umræðu hér á landi um þessar mundir snúist um hvernig kaupmáttaraukningin hefur skipst eftir mismunandi þjóðfélagshópum. Í þessum Markaðspunkti er reynt að skyggnast á bak við meðaltalið og taka tillit til mismunandi neyslumynsturs og tekjuþróunar. Því til viðbótar vörpum við upp mynd af því hvernig eignir nokkurra þjóðfélagshópa hafa þróast sl. 20 ár.

Neyslukarfa meðalmannsins breytist með tímanum

Vísitala neysluverðs (VNV), sem er oftast miðað við þegar verið er að meta kaupmátt, endurspeglar neyslukörfu meðalfjölskyldu á Íslandi. Ef vísitalan hækkar, þá minnkar kaupmáttur ef laun eða tekjur haldast óbreytt. Eins og sést hér að neðan breytist sú neyslukarfa talsvert með tímanum, bæði vegna þess að smekkur og þarfir breytast, en einnig vegna þess að hlutfallslegt verð milli vara breytist. Húsnæðiskostnaður vegur í dag þyngst í vísitölu neysluverðs og hefur vægi hans aukist mikið síðustu ár vegna hærri húsnæðis- og leiguverðs. Vægi flestra annarra liða hefur minnkað, nema að vægi hótel og veitinga hefur staðið í stað og póstur og sími hefur aukið vægi sitt.

Heimild: Hagstofa Íslands

Hversu mikið undirliðir vísitölu neysluverðs hafa hækkað er líka afar misjafnt og endurspeglast það að hluta í fyrrgreindri breytingu á vægi mismunandi undirliða. Hér að neðan má sjá hvernig undirliðir vísitölu neysluverðs hafa hækkað frá aldamótum í samanburði við vísitöluna sjálfa, sem hefur hækkað um 120%. Húsnæðisverð og -leiga hafa t.a.m. hækkað mun meira en flestir undirliðir en þar á eftir koma áfengi og tóbak. Á hinum endanum eru föt og skór, auk pósts og síma, sem hafa hækkað mun minna en vísitala neysluverðs.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Neyslukarfan er mismunandi milli einstaklinga og hópa

Eðli málsins samkvæmt er mjög misjafnt hvernig neyslumynstur fólks er. Það fer m.a. eftir því hvort fólk leigi eða ekki, staðsetningu, tekjum, aldri og smekk. Í raun væri hægt að reikna vísitölu neysluverðs fyrir hvern einasta Íslending. Vefur Hagstofunnar hefur að geyma tölur um mismunandi neyslukörfur eftir hópum frá 2000-2012. Til dæmis er hægt að bera saman neyslukörfu þeirra sem búa á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu líkt og sjá má hér að neðan. Það kemur t.d. ekki á óvart að fólk á landsbyggðinni verji hærra hlutfalli útgjalda sinna í ferðir og flutninga eða að höfuðborgarbúar verji hærra hlutfalli í húsnæði. Þá vegur matarkarfan þyngra á landsbyggðinni, líklega vegna flutningskostnaðar og minni stærðarhagkvæmni verslana, sem þýðir hærra verð.

Heimildir: Hagstofa Íslands. Greiningardeild Arion banka.

Til að skýra þetta nánar má hugsa sér tvö tilfelli, annars vegar námsmann í leiguhúsnæði og hins vegar miðaldra hjón í skuldlitlu húsnæði. Námsmaðurinn eyðir líklega stórum hluta ráðstöfunartekna sinna í leigu og við miðum hér við 30%, á meðan hjónin borga litla leigu en verja 5% af tekjum sínum í afborgarnir af húsnæðisláni. Þá ver námsmaðurinn hlutfallslega meiri pening í mat, en hjónin meiru í ferðalög, fatnað, veitingar o.fl. Þetta dæmi byggir ekki á neinum gögnum, sem er afar mikilvægt að hafa í huga. Neðangreindar samsetningar neyslukörfu gætu þó endurspeglað raunveruleikann í einhverjum tilfellum, t.d. er algengt að námsmenn eyði stórum hluta tekna sinna í leigu á meðan miðaldra hjón sem hafa minnkað við sig vinnu ferðist mikið og skuldi lítið í húsnæði. Með því að nota þessar tvær mismunandi neyslukörfur til grundvallar má reikna verðbólgu sem þetta fólk hefur staðið frammi fyrir á hverjum tíma. Miðað við ofangreindar forsendur hefði neyslukarfa námsmannsins hækkað um næstum 11% meira en neyslukarfa hjónanna frá aldamótum.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Tekjuþróun hópa er einnig misjöfn...

Hinn liðurinn sem ræður kaupmætti er tekjur og hér verður miðað við ráðstöfunartekjur, þ.e. heildartekjur eftir lífeyrissjóðsgreiðslur, bætur og skatta skv. skattframtölum. Þannig erum við nánar tiltekið að horfa á þróun kaupmáttar ráðstöfunartekna eftir nokkrum hópum eftir að tekið hefur verið tillit til mismunandi neyslumynsturs, líkt og áður hefur verið rakið. Í hópunum sem hér er miðað við eru tekjur hæstar hjá hjónum án barna og eru þær hærri en hjá skattframteljendum sem eru með hærri tekjur en 80% landsmanna.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka. Þau ár sem neyslukörfur hópa ná ekki til er gert ráð fyrir því að vægi þeirra þróist í takt við VNV. *Miðað við launavísitölu, ekki tekið tillit til skattabreytinga. **Miðað við forsendur um neyslukörfur námsmannsins og hjónanna hér að ofan.

...þannig að kaupmáttaraukning síðustu ára dreifist misjafnlega

Til að svara spurningunni: „Hvert fór kaupmátturinn?“ er gagnlegt að sjá hvernig kaupmáttur ráðstöfunartekna mismunandi hópa hefur þróast og hér skoðum við þróunina frá árinu 2000 til dagsins í dag. Nauðsynlegt er að taka fram að neysluvogirnar fyrir hópana hér að neðan ríma ekki fyllilega við vogirnar í vísitölu neysluverðs sem getur skekkt myndina. Einnig skal hafa í huga að tölur um ráðstöfunartekjur ná eingöngu til ársins 2015, en árin 2016 og 2017 eru framreiknuð með launavísitölu.

Þrátt fyrir þessar takmarkanir segir þessi samanburður okkur ýmislegt. Í fyrsta lagi hefur kaupmáttur ungs fólks lítið breyst en kaupmáttur fólks á sextugsaldri hefur vaxið um ca. þriðjung. Í öðru lagi hefur kaupmáttur á landsbyggðinni aukist meira en á höfuðborgarsvæðinu, þó hann sé meiri á höfuðborgarsvæðinu. Þó verður að hafa í huga að hér er ekki tekið að fullu tillit til mismunandi leigu- og húsnæðisverðs eftir svæðum, þannig að kaupmáttur á landsbyggðinni hefur e.t.v. vaxið meira. Í þriðja lagi virðast einstæðir foreldrar hafa setið eilítið eftir í kaupmáttarþróuninni. Í fjórða lagi virðist sem jöfnuður hafi frekar aukist heldur en minnkað á tímabilinu, sem birtist í því að miðgildi kaupmáttar ráðstöfunartekna hefur aukist meira en meðaltalið, og einnig í því að fólk sem hefur hærri tekjur en 20% landsmanna hefur fengið meiri kaupmáttaraukningu en þeir sem eru með hærri tekjur en 80% landsmanna.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Miðað við launavísitölu **Miðað við forsendur um neyslukörfur námsmannsins og hjónanna hér að ofan.

Hvað með eignaþróun?

Eignadreifing skiptir einnig máli þegar horft er til þess hvernig lífsgæði skiptast eftir hópum. Sé það gert blasir að mörgu leyti við ýktari mynd, sem þó kemur í sjálfu sér ekki óvart. Mestar eignir eiga hjón án barna og fólk 55-59 ára, af þeim hópum sem hér eru skoðaðir, en ætla má að þessir hópar skarist að miklu leyti. Einnig hafa eignir þessara hópa að jafnaði aukist langmest. Ef horft er á aðra hópa er staðan talsvert önnur. Bæði eru eignirnar minni og hafa aukist mun minna og jafnvel minnkað síðustu tvo áratugi. Einstæðir foreldrar skera sig talsvert úr en miðgildi eigna þeirra dróst mikið saman eftir hrun og hefur lítið tekið við sér síðan þá. Annað sem vekur athygli er að eignadreifingin virðist almennt hafa orðið nokkuð ójafnaðri frá 1997, sem birtist í að meðaltal eigna hefur aukist meira en miðgildi.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Þjóðskrá Íslands, Greiningardeild Arion banka. Eignir án lífeyrisréttinda. *Miðað við þróun íbúðaverðs og 6% árlegri ávöxtun annarra eigna.

Tölurnar gætu útskýrt ýmislegt í íslenskri þjóðfélagsumræðu

Stundum er svo að í umræðunni mætast tveir andstæðir pólar. Frá öðrum pólnum heyrist að kaupmáttur hafi aukist mikið og lífskjör því almennt batnað samhliða því. Frá hinum heyrist að gæðunum sé misskipt og ekki allir hafi notið góðs. Staðreyndin er sú, líkt og þessi umfjöllun leiðir í ljós, að hvort tveggja er rétt. Það er rétt að kaupmáttur hafi aukist og sá mælikvarði er eftir sem áður góður og gagnlegur til að fylgjast með þróun lífskjara. Það er einnig rétt að kaupmáttur launa er einn og sér mjög takmarkaður mælikvarði á hagsæld, fyrir þá einföldu ástæðu að þeir 340 þúsund einstaklingar sem búa hér á landi eru jafn ólíkir og þeir eru margir. Í því ljósi er jákvætt að hagsæld langflestra þjóðfélagshópa hefur batnað verulega að jafnaði síðustu ár.

Þá vaknar líklega sú spurning: Kalla þessar niðurstöður á einhverjar aðgerðir? Við viljum ekki taka skýra afstöðu til þess enda myndi svarið við því krefjast mun dýpri greiningar. Heilt yfir virðist þó sem langflestir hafi notið góðs af lífskjarabata síðustu ára. Þá virðist sem tekjujöfnuður hafi frekar aukist ef eitthvað er enda er hann meiri en í öllum ríkjum OECD skv. nýjustu tölum. Engu að síður er einkum tvennt sem ætti að vekja fólk til umhugsunar. Annars vegar hvernig ungt fólk hefur bersýnilega setið eftir eins og við höfum áður rakið og fjallað er um í nýlegri skýrslu Alþingis. Ástæður þess eru ekki fullþekktar en sú þróun gæti engu að síður kallað á viðbrögð af hálfu atvinnulífsins og hins opinbera. Hins vegar er það eignadreifingin sem hefur verið mjög hliðholl sumum hópum, sérstaklega eldri kynslóðum, en síður hliðholl öðrum. Þar spilar líklega stærstu rulluna ríflega fimmföldun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu síðustu tvo áratugi en fasteignir eru um 3/4 af eignum heimilanna. Hvort það kalli á sérstakar aðgerðir er jafnvel enn erfiðara að segja til um og ekki er víst að sú þróun haldi áfram.