Vaxtalækkun á vængjum gengisstyrkingar

Vaxtalækkun á vængjum gengisstyrkingar

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnti í morgun um 0,25 prósentustiga lækkun meginvaxta Seðlabankans og eru þeir nú 4,75%. Við höfðum spáð 25 punkta lækkun vaxta en spár greiningaraðila voru ýmist um óbreytta vexti eða 25 punkta lækkun. Peningastefnunefndin rökstyður ákvörðun sína a miklu leyti með styrkingu gengis krónunnar sem hefur vegið á móti verðbólguþrýstingi af innlendum toga og spennu í þjóðarbúskapnum. Spá Seðlabankans gerir þó áfram ráð fyrir lítilli verðbólgu og gengi krónunnar hefur nú þegar styrkst frá því að hún var gerð. Frekari styrking krónunnar hefur því líklega skapað svigrúm til vaxtalækkunar í júní. Hvað verður svo í haust er erfiðara að segja til um en ekki eru horfur á stórvægilegum breytingum þá. Svigrúm sjálfbærrar gengisstyrkingar, ef það er enn til staðar, fer sífellt minnkandi enda raungengi krónunnar í hæstu hæðum. Þannig gætu vextir hækkað lítillega í haust eða á næsta ári ef áhrif gengisstyrkingar taka að fjara út.

Betri verðbólguhorfur til skemmri tíma – verri til lengri tíma

Samkvæmt nýrri verðbólguspá Seðlabankans hafa verðbólguhorfur til skemmri tíma batnað talsvert og útlit fyrir að verðbólgan haldist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram til ársloka 2018, og innan vikmarka út spátímann. Eins og sjá má hér að neðan er verðbólguspá okkar frá því í mars og ný verðbólguspá Seðlabankans nokkuð ólíkar, en ástæðan felst fyrst og fremst í ólíkri sýn á gengisþróun krónunnar. Og hér liggur hundurinn grafinn: Seðlabankinn miðar við áframahaldandi gengisstyrkingu út spátímann á meðan verðbólguspá okkar byggir á lítilsháttar styrkingu í ár en að krónan taki að gefa örlítið eftir þegar líða tekur á 2018.

Eins og flestum er eflaust kunnugt hefur gengisstyrking krónunnar og verðlækkun innfluttra vara vegið á móti innlendum verðbólguþrýstingi undanfarna mánuði og misseri. Eftir að hafa lækkað samfleytt í ellefu ársfjórðunga hefur verðvísitala útflutnings helstu viðskiptalanda í erlendum gjaldmiðli tekið að hækka á ný, samhliða vaxandi verðbólgu í viðskiptalöndum okkar. Lækkun innflutningsverðlags má því nær eingöngu rekja til gengisstyrkingar krónunnar. Standi krónan í stað, eða taki jafnvel að veikjast, verður innflutt verðbólga að öllum líkindum fljót að birtast í verðmælingum Hagstofunnar og leggja hönd á plóg með húsnæðisverði, sem keyrt hefur verðbólguna áfram. Við erum sammála Seðlabankanum að mestu leyti varðandi verðbólguþróun á þessu ári, en teljum að styrkingarfasa krónunnar ljúki á næsta ári samhliða minnkandi viðskiptaafgangi, raungengi í sögulegu hámarki og versnandi afkomu í stærstu útflutningsgreinum (bendum í þessu samhengi á áhugaverða mynd í Peningamálum er sýnir vísitölu EBITDA í útflutningsgreinum).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Áframhaldandi kröftugur hagvöxtur

Undir lok mars birtum við hagspá þar sem við spáðum 5,9% hagvexti í ár, og tylltum við okkur þar með á toppinn meðal greinenda varðandi hagvaxtarspá fyrir árið. Með nýrri þjóðhagsspá sinni hefur Seðlabankinn siglt fram úr okkur, en gert er ráð fyrir að hagvöxtur í ár verði 6,3%, sem er prósentustigi hærri spá en bankinn birti í febrúar. Það sem helst vekur athygli okkar í nýrri þjóðhagspá er jákvætt framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar, þ.e. að útflutningur vex hraðar en innflutningur. Aukinn straumur ferðamanna til landsins hefur hér mikið að segja en frávikið frá febrúarspánni skýrist fyrst og fremst af hraðari vexti ferðaþjónustunnar í ár en áður var gert ráð fyrir. Þá eru horfur í sjávarútvegi einnig betri. Við gerum ráð fyrir nokkuð meiri vexti þjóðarútgjalda en Seðlabankinn, sem fyrst og fremst má rekja til atvinnuvegafjárfestingar, og endurspeglast það í örari innflutningsvexti. Í mars spáðum við 12,7% innflutningsvexti og höfðum áhyggjur að það væri jafnvel full varlega stigið til jarðar. Miðað við spá um launahækkanir, gengisstyrkingu og kannski fyrst og fremst hvert spá Seðlabankans sendir raungengið, er útlit fyrir kröftugum innflutningsvexti, líklega umfram spár.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

 Önnur vaxtalækkun í júní?

Miðað við Taylor-reglu og spá Seðlabankans virðist sem litlar breytingar verði á vöxtum til loka næsta árs. Aftur á móti hefur krónan styrkst talsvert undanfarna daga og frá því að spá Seðlabankans var gerð, og er krónan 4% sterkari en meðalgengi ársins 2017 skv. Seðlabankanum. Haldist krónan svo sterk eða styrkist meira má ætla að verðbólga verði minni, sem myndi þá birtast í lægri verðbólguspá og að Taylor ferillinn hér að neðan myndi færast niður á við, a.m.k. næsta árið eða svo. Verði það raunin, að krónan styrkist eða haldist stöðug næstu vikur, teljum við meiri líkur en minni að vextir verði aftur lækkaðir um 0,25 prósentustig þann 14.júní þegar nefndin hittist næst.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Fyrr eða síðar mun hægja á þessari gengisstyrkingu, enda er raungengi krónunnar nú þegar að komast í hæstu hæðir. Við höfum nokkrar efasemdir um að hagkerfið getið staðið undir raungengi krónunnar þar sem það er í dag og hvað þá hvernig Seðlabankinn spáir að það muni þróast til ársins 2019. Í spánni er t.d. gert ráð fyrir því að raungengi miðað við launakostnað hækki um 33% á þremur árum, sem rýrir verulega samkeppnishæfni útflutningsgreina. Þessu tengt höfum við einnig efasemdir um að hátt gengi krónunnar muni ekki rýra viðskiptajöfnuðinn meira en Seðlabankinn spáir. Verði það raunin að gengið sé að yfirskjóta mun það á einhverjum tíma ganga til baka sem eykur verðbólgu sem aftur leiðir til hækkunar nafnvaxta. Hvenær það myndi gerast er ómögulegt að segja til um.

Heimild: Seðlabanki Íslands