Fastir liðir eins og venjulega: Húsnæðisverð drífur áfram verðbólguna

Fastir liðir eins og venjulega: Húsnæðisverð drífur áfram verðbólguna

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,2% milli mánaða í apríl og lækkar þar með ársverðbólgan úr 1,9% í 1,7%. Þróun vísitölunnar er nokkuð undir spám greiningaraðila sem lágu á bilinu 0,3%-0,4%, en við spáðum 0,3% hækkun verðlags. Líkt og undanfarna mánuði er húsnæðisliðurinn fyrirferðamestur en ef litið er framhjá honum mælist verðhjöðnun upp á -2,6%. Dráttarklárinn í hækkun húsnæðisliðarins er reiknuð húsaleiga (+0,48% áhrif á VNV) en aðrir liðir sátu hjá að þessu sinni. Líkt og við var að búast hækka hótel og veitingastaðir (+0,03% áhrif á VNV) með auknu flæði ferðamanna til landsins en aðrir liðir breyttust minna. Ferðaliðurinn lækkar (-0,23% áhrif á VNV) og stafar það af lækkun flugfargjalda (-0,14% áhrif á VNV) og lækkun á kostnaði við rekstur ökutækja (-0,08% áhrif á VNV) en aðrir liðir lækka minna.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Við spáum því að verðlag hækki um 0,3% í júní, og lækki um -0,4% í júlí og hækki um 0,3% í ágúst. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í 1,7% í ágúst.

Húsnæðisverð kitlar pinnann

Húsnæðisverð um land allt hækkaði um 2,54% milli mánaða, sem er örlítið minni hækkun en í síðasta mánuði. Ástæðan er fyrst og fremst sú að verulega hægði á hækkunum utan höfuðborgarsvæðisins en það er ætíð sveiflukenndur liður líkt og sést á myndinni hér að neðan, enda færri samningar sem standa þar að baki og fjölbreyttar eignir. Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hélt aftur á móti áfram að gefa í og hækkaði fjölbýli um 2,9% milli mánaða en sérbýli um 2,34%. Árstakturinn á landinu öllu er kominn í 22,5% og fátt sem bendir til annars en áframahaldandi hækkana á komandi mánuðum. Húsnæðisliðurinn verður því að öllum líkindum áfram í bílstjórasætinu, með reiknaða húsaleigu á bensíngjöfinni, en reiknuð húsaleiga var eini undirliður húsnæðisliðarins sem hækkaði í þessum mánuði (+0,48 áhrif á VNV).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hressileg lækkun á ferðaliðnum

Ferðaliðurinn lækkar talsvert umfram væntingar okkar (-0,23% áhrif VNV) og vegur þar þyngst lækkun flugfargjalda (-0,14% áhrif á VNV), en flugfargjöld til útlanda lækka um 8,5% (-0,09% áhrif á VNV) á meðan flugfargjöld innanlands lækka um 11,5% (-0,03% áhrif á VNV). Það sem vekur sérstaka athygli er lækkun á rekstrarkostnaði bifreiða (-0,08% áhrif á VNV). Þar skiptir vissulega máli að bensínverð lækkaði (-0,03%) en það sem vegur þyngra er umtalsverð lækkun á varahlutum, þá sérstaklega hjólbörðum sem lækkuðu um 11,5% í verði (-0,06% áhrif á VNV). Það liggur beinast við að rekja þessa lækkun til aukinnar samkeppni, þó gengisstyrkingin hafi einnig hafa lagt lóð á vogaskálirnar. 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Króna og Costco gegn húsnæðisverði

Innlendar vörur og þjónusta hafa hækkað sáralítið undanfarna 12 mánuði, en helst hefur það verið opinber þjónusta sem hefur dregið vagninn. Líkt og sést á myndinni hér að neðan er húsnæðisliðurinn eini liðurinn sem er að hækka af einhverju ráði, en sé litið framhjá honum mælist verðhjöðnun upp á -2,6%. Það er því varla hægt að tala um innlendan verðbólguþrýsting. Þrátt fyrir að launakostnaður innlendra fyrirtækja hafi hækkað nokkuð í maí sökum kjarasamningsbundinna hækkana teljum við að innlendur verðbólguþrýstingur verði áfram óverulegur næstu mánuði sökum aukinnar samkeppni og áframhaldandi gengisstyrkingar, að minnsta kosti til skamms tíma. Áhugavert verður að sjá næstu verðbólgutölur en það verða fyrstu tölurnar eftir að Costco opnaði. Líklegt er að nú þegar séu talsverð óbein áhrif komin fram, sem sjást í lægra verði á innlendum vörum, en hver beinu áhrifin verða er erfitt að leggja nákvæmt mat á, enda óljóst hversu mikið vægi Costco hlýtur fyrst um sinn í verðmælingum Hagstofunnar. Eftir stendur því húsnæðisverð, sem hefur keyrt verðbólguna áfram að undanförnu, og mun að öllum líkindum halda áfram að gera það næstu mánuði. 

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Júní +0,3%: Húsnæðisverð, flugfargjöld til útlanda og hótel og veitingastaðir hækka í júní en aðrir liðir lækka.
  • Júlí -0,4%: Föt og skór lækka í útsölum í júlí en flugfargjöld, húsnæðisverð og aðrir liðir hækka.
  • Ágúst +0,3%: Útsöluáhrif ganga til baka og húsnæðisverð hækkar en á móti vegur lækkun flugfargjalda.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka