Einkaneysla og utanríkisverslun dráttarklárarnir í 5% hagvexti

Einkaneysla og utanríkisverslun dráttarklárarnir í 5% hagvexti

Nú í morgun birti Hagstofa Íslands þjóðhagsreikninga fyrsta ársfjórðungs 2017 og má segja að þrátt fyrir nokkuð minni hagvöxt en síðustu tvo fjórðunga er hagkerfið hvergi nærri af baki dottið. Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar jókst landsframleiðslan á fyrsta ársfjórðungi um 5%, sem er mesti vöxtur á fyrsta fjórðungi frá 2008. Þrátt fyrir talsverðan hagvöxt var hann nokkuð undir væntingum okkar en hafa ber í huga að stórir þættir, s.s. fjárfesting í skipum og flugvélum og birgðabreytingar geta haft umtalsverð áhrif á landsframleiðsluna milli fjórðunga, og því gefa tölur fyrir einn fjórðung ekki endilega alltaf glögga mynd af undirliggjandi gangi í hagkerfinu.

Að þessu sinni voru það fjárfesting og utanríkisverslun sem voru nokkuð undir væntingum okkar, en við höfðum til að mynda reiknað með talsvert sterkari fjárfestingarvexti. Frávikið frá rauntölunum og okkar spá liggur í atvinnuvegafjárfestingu, sem dróst saman á um 2%, en íbúðafjárfesting (jókst um 29%) og fjárfesting hins opinbera (jókst um 3,8%) þróuðust í takti við væntingar okkar. Að frádreginni fjárfestingu í skipum og flugvélum jókst atvinnuvegafjárfesting um 6,9%. Þá gerðum við ráð fyrir nokkuð kröftugri innflutningsvexti, sem hangir saman við fjárfestingaspánna okkar, enda hefur innlend eftirspurn vaxið hratt að undanförnu. Hvað útflutning varðar stafar munurinn fyrst og fremst af minni vöruútflutningi en við reiknuðum með.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Jákvætt framlag utanríkisverslunar þriðja fjórðunginn í röð

Hagvöxturinn var drifinn áfram af einkaneyslu og utanríkisverslun, en þetta er þriðji fjórðungurinn í röð þar sem framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar er jákvætt. Samsetning hagvaxtar er því ennþá mjög hagstæð, þó að framlag fjárfestingar hafa minnkað samanborið við síðustu fjórðunga. Þrátt fyrir talsverða birgðaaukningu, þar sem auknar birgðir í sjávarútvegi og stóriðju vógu á móti minni birgðum kísiljárns og rekstrarvöru, var framlag birgðabreytinga til hagvaxtar neikvætt þar sem birgðaaukning á þessum ársfjórðungi var umtalsvert minni en á sama tíma í fyrra.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Árstíðaleiðréttur hagvöxtur mældist 7,6% á fyrsta ársfjórðungi. Líkt og sjá má hér að neðan berum við höfuð og herðar yfir okkar helstu viðskiptalönd þegar kemur að hagvexti á 1F, en næst okkur komast Holland og Finnland með 2,6% vöxt. Svona mikill vöxtur er þó ekki sjálfbær til lengri tíma enda er hann langt umfram framleiðslugetu hagkerfisins. Greiningaraðilar hafa haft í nægu að snúast síðustu vikurnar við að uppfæra hagspár sínar en Seðlabankinn, Hagstofan og Landsbankinn birtu öll nýjar spár í maí. Talsverður samhljómur er meðal spánna en almennt er gert ráð fyrir kröftugum hagvexti í ár, eða í kringum 6%, en að hægja taki á vextinum á næstu árum og verði hann þá nær framleiðslugetu hagkerfisins og því sem gengur og gerist hjá öðrum þróuðum ríkjum. 

Heimildir: Hagstofa Íslands, hagvaxtarspár greiningaraðila

Hvert fór fjárfestingin?

Líkt og áður sagði dróst atvinnuvegafjárfesting saman um 2% á fyrsta ársfjórðungi, sem er kúvending frá síðustu fjórðungum þar sem atvinnuvegafjárfesting hefur verið driffjöðrin í miklum fjárfestingavexti. Ef hinsvegar er farið ofan í saumana á atvinnuvegafjárfestingunni kemur í ljós að samdrátturinn má alfarið rekja til fjárfestingar í skipum og flugvélum, sem dróst saman um 36% á milli ára, en þetta er ætíð mjög sveiflukenndur liður. Útlit er fyrir að talsverð skipafjárfesting hafi, og muni, falla til á þessu ári en minna er um fjárfestingar í flugvélum. Það kann að skjóta skökku við í ljósi metnaðarfullra stækkunaráforma WOW Air á komandi misserum, en í þessu samhengi skiptir máli að flugfélögin kaupa ekki alltaf vélarnar sínar heldur taka þær á rekstrarleigu, sem skráist þá sem innflutt þjónusta í þjóðhagsreikningum en ekki sem fjárfesting. Hvort nýi fjólublái flotinn verði keyptur eða tekinn á leigu er óvíst, en í spá okkar frá því í mars gerðum við ráð fyrir að bróðurparturinn yrði keyptur.

Stóriðjufjárfesting jókst um 5,6%, sem er nokkuð undir okkar væntingum, og önnur atvinnuvegafjárfesting jókst um 7,7%. Þessar tölur ríma ágætlega við fjárfestingarkönnun Seðlabankans er var birt í nýjustu Peningamálum, en þau fyrirtæki sem tóku þátt í könnunni gera ráð fyrir lítilsháttar aukningu fjárfestingar í ár, eða 1,8%, sem aðallega má rekja til fjárfestingar í flutningum, ferðaþjónustu og fjármálastarfsemi.

Á móti vegur að íbúðafjárfesting hélt áfram að aukast á ársfjórðungnum, eða um 29%, og hefur hún nú aukist um rúm 40 prósent á tveimur árum. Vísbendingar eru um að íbúðafjárfestingin muni halda áfram að vaxa hratt líkt og innflutningur, sementsala og áætlanir benda til.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Ferðaþjónustan vindur í segl þjóðarskútunnar

Sem fyrr er það ferðaþjónustan sem stendur undir útflutningsvextinum, en þjónustuútflutningur jókst um 19,2% sem er mesti vöxtur á fyrsta ársfjórðungi frá árinu 2007. Þessi mikli vöxtur er í góðum takti við væntingar okkar og kemur í sjálfu sér ekki á óvart í ljósi gríðarlegrar fjölgunar erlendra ferðamanna á fyrsta ársfjórðungi, en alls sóttu 452 þúsund ferðamenn landið heim sem er 54% aukning frá sama tíma í fyrra. Vöruútflutningur dróst aftur á móti saman, og spilar verkfall sjómanna hér stórt hlutverk. Samdráttur í vöruinnflutningi skýrist af minni innflutningi á skipum og flugvélum en á fyrsta ársfjórðungi 2016, en við höfðum reiknað með talsverðum vexti í ljósi sterkrar krónu, vaxandi umsvifa netverslunar og kröftugs einkaneysluvaxtar. Þjónustuinnflutningur jókst hinsvegar um 14,6% enda voru Íslendingar duglegir að leggja land undir fót.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka