Spáum lækkun vaxta

Spáum lækkun vaxta

Miðvikudaginn 14. júní nk. tilkynnir peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands um vaxtaákvörðun sína og spáum við því að vextir verði lækkaðir um 0,25 prósentustig þannig að meginvextir verði 4,5%. Líkt og svo oft áður teljum við að vaxtaákvörðunin verði tvísýn, en nú ber svo við að valið stendur ekki á milli 25 punkta lækkunar og óbreyttra vaxta, heldur á milli 25 og 50 punkta lækkunar. Að okkar mati eru litlar líkur á óbreyttum vöxtum, þá einkum og sér í lagi vegna verulegrar gengisstyrkingar á milli funda. Gengi krónunnar hefur styrkst um 2,3% frá síðasta fundi nefndarinnar og voru verðbólguhorfur þá samt sem áður góðar. Einnig sjáum við fram á að hægja taki á hækkunum húsnæðisverðs á næstunni. Þá má nefna að landsframleiðslutölurnar sem voru birtar í morgun eru í mýkri kantinum en við munum fjalla nánar um þær síðar í dag. Síðast en ekki síst voru að okkar mati skýrar vísbendingar um vaxtalækkun í síðustu fundargerð peningastefnunefndar.

 

Fundargerðirnar eru eins og konfektkassar – þessi var stútfullur

Síðasta fundargerð peningastefnunnar var um margt áhugaverð, og mátti greina nokkuð skýrari framsýna leiðsögn en þekkst hefur undanfarin misseri. Út frá fundargerðinni má lesa að a.m.k. hluti nefndarinnar sé á þeirri skoðun að lækka megi vexti nokkuð meira án þess að það ógni verðstöðugleika. Þá kusu allir nefndarmenn að lækka vexti um 25 punkta, sem er mun meiri samhljóður en við áttum von á. Sem fyrr, og fögnum við því aukna gegnsæi sem með því skapast, voru talin upp rök með vaxtalækkun og rök með óbreyttum vöxtum. Vissulega er styrking krónunnar rauði þráðurinn bæði í gegnum fundargerðina og yfirlýsingu nefndarinnar en einnig var rætt um aukið aðhald peningastefnunnar sem rök fyrir vaxtalækkun. Miðað við þróunina frá síðustu vaxtaákvörðun hefur taumhaldið aukist og er 10 punktum meira en það var fyrir síðustu vaxtalækkun miðað við 5 ára verðbólguvæntingar sökum þess að verðbólguvæntingar hafa lækkað talsvert síðustu vikur. Þá voru verðbólgutölur í maí nokkuð undir væntingum markaðsaðila og fór árstakturinn úr 1,9% í 1,7%.

Það sem vakti þó einna helst athygli okkar í fundargerðinni voru vangaveltur nokkurra fundarmanna um framhaldið, og þá sérstaklega um samspil gengisþróunar og húsnæðisverðs. Töldu þeir að líkur á hagstæðu samspili fyrir þjóðarbúskapinn, þ.e. að húsnæðisverðshækkanir stöðvist fyrr en áður var talið án þess að gengishækkunin gangi til baka, séu ekki minni en líkur á óhagstæðari þróun. Fram kemur að „...því væri tilefni til að halda áfram varfærinni lækkun vaxta að því tilskildu að vöxtur útlána færist ekki í aukana.“ Líkt og fram kom í síðustu Peningamálum hefur útlánavöxtur til heimila tekið við sér að undanförnu samhliða hækkandi húsnæðisverði, en er þó enn um sinn hóflegur þrátt fyrir mikinn eftirspurnarvöxt í hagkerfinu.


Heimildir: Kodiak, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Leiðrétt fyrir endurflokkun og skuldalækkunaraðgerðum stjórnvalda. Eingöngu sjóðfélagalán meðtalin hjá lífeyrissjóðum. ** Án útlána til innlánsstofnana og fallinna fjármálafyrirtækja.

Krónan nú þegar orðin sterkari en spáð er 2018

Krónan hefur styrkst nokkuð hratt síðustu vikur og miðað við gengisvísitölu hefur hún styrkst um 2,3% frá því að peningastefnunefnd kom síðast saman. Einnig er krónan nú um 6% sterkari en maíspá Seðlabankans gerði ráð fyrir að hún myndi vera að jafnaði á árinu og í raun hefur spá bankans um gengi krónunnar næstu tvö ár ræst nú þegar. Í verðbólguspá Seðlabankans verður verðbólga undir markmiði fram á fjórða ársfjórðung 2018 en ef gengi krónunnar verður áfram álíka sterkt og nú, eða styrkist enn frekar, má ætla að verðbólgan verði nokkuð minni en Seðlabankinn spáir næstu misseri. Slíkt gefur meira tilefni til vaxtalækkunar en áður.

Þrátt fyrir að sterk króna opni á vaxtalækkun þá minnka líkurnar á varanlegri gengisstyrkingu með hverju prósenti sem krónan styrkist. Þannig aukast líkurnar á því að krónan gefi eftir fyrr eða síðar, eins og við fjölluðum um í nýrri greiningu þar sem færð voru rök fyrir því að gengi krónunnar sé of hátt til að það geti staðist til lengri tíma. Við sjáum þó ekki verulega gengisveikingu í kortunum á næstunni. Hinsvegar ef horft er til þess að vöruinnflutningur jókst um 21% á föstu gengi í apríl og maí, á sama tíma og vísbendingar eru um að það sé að hægja á ferðaþjónustu og öðrum útflutningi, eigum við erfitt með að sjá að neðangreind spá Seðlabankans um viðskiptajöfnuð og gengi krónunnar gangi upp. Taki krónan að veikjast mun það líklega leiða til meiri verðbólgu og hærri vaxta en ella, en það sem gæti vegið á móti er ef verðbólguvæntingar hafa varanlega lækkað til lengri tíma.


Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Fer að hægja á húsnæðisverðshækkunum?

Þar sem húsnæðisverð hefur nú náð fyrri hápunkti frá herrans árinu 2007 og húsnæðisliðurinn heldur uppi verðbólgu nær einn og óstuddur kom okkur á óvart að húsnæðisverð myndi ekki vekja meiri athygli peningastefnunefndar í maí. Mögulega er það vegna þess að vísbendingar eru um að hægja taki á hækkunum húsnæðisverðs á næstu mánuðum. Í fyrsta lagi hafa hækkanir sem við spáðum fyrr á árinu ræst mun hraðar en við gerðum ráð fyrir og merki eru um að verð sé víða komið talsvert úr takti við undirliggjandi stærðir. Til dæmis þá má nefna að húsnæðisverð á einungis eftir að hækka um 12% til ársloka 2019 ef miðað er við okkar nýjustu spá frá því í mars. Í öðru lagi er mögulegt er að þjóðhagsvarúðartæki sem takmarka veðsetningarhlutfall ákveðinna hópa verði virkjuð á næstu vikum. Ekki er víst að slíkar aðgerðir hafi mikil bein áhrif, en þær gætu slegið á væntingar um verðhækkanir. Í þriðja lagi hafa loks sést merki um að framboðshlið markaðarins sé að taka betur við sér eins og sést hér að neðan.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Vísir.is, Greinigardeild Arion banka. *Áætlun Greiningardeildar frá apríl til júní 2017.

Það á eftir að koma í ljós hvort þetta sé tímabundin framboðsaukning eða ekki, en þetta er kærkomin breyting eftir að dregið hefur nær samfleytt úr söluframboði í hátt í þrjú ár. Hvort sem söluframboð sé að aukast verulega þessa mánuðina eða ekki þá eru allar líkur á því að íbúðafjárfesting sé og muni taka hressilega við sér. Sem dæmi má nefna 18% aukningu innflutnings fjárfestingarvara milli ára auk viljayfirlýsingu ríkis og borgar um uppbyggingu á 2.000 íbúðum á næstu misserum.