Spáum að vísitala neysluverðs hækki um 0,2% í júní

Spáum að vísitala neysluverðs hækki um 0,2% í júní

Við spáum að vísitala neysluverðs hækki um 0,2% milli mánaða í júní og að ársverðbólgan standi í stað í 1,7%. Líkt og undanfarna mánuði er það hækkandi húsnæðisverð (+0,30% áhrif á VNV) sem drífur verðbólguna áfram en á móti vega gengisstyrking krónunnar og aukin samkeppni. Aðrir liðir sem hækka í júní eru flugfargjöld til útlanda (+0,06% áhrif á VNV) og hótel og veitingastaðir (+0,03% áhrif á VNV), en um er að ræða árstíðabundnar hækkanir. Áframhaldandi lækkun eldsneytisverðs (-0,04% áhrif á VNV) vegur þyngst á móti húsnæðisverðshækkunum en einnig lækka aðrar neysluvörur, eins og matur og drykkjavörur, samhliða aukinni samkeppni.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Við spáum því að verðlag lækki um -0,4% í júlí, hækki um 0,3% í ágúst og hækki um 0,4% í september. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í 1,5% í september.

Húsnæðisverð heldur áfram að hækka

Við spáum að húsnæðisverð hækki um 1,6% í júní (0,30% áhrif á VNV) og að árstakturinn fari úr 22,5% í 23,6% um land allt. Húsnæðisverð hefur hækkað jafnt og þétt undanfarna mánuði og teljum við að sú þróun haldi áfram. Það vekur þó athygli að auglýstum fasteignum hefur fjölgað, sem er nýmæli síðustu mánuði, og gefur vonandi fyrirheit um að framboðið sé byrjað að taka betur við sér. Í ljósi þess teljum við líklegt að hækkun húsnæðisverðs fari að hægja á sér á komandi mánuðum og misserum. Við spáum því að aðrir undirliðir húsnæðisliðarins muni einnig hækka (+0,03% áhrif á VNV) svo heildaráhrif húsnæðisliðarins eru því til +0,33% hækkunar VNV.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Ferðaliðurinn hækkar

Við spáum því að flugfargjöld til útlanda hækki í júní (0,06% áhrif á VNV), sem er nokkuð minni hækkun samanborið við júnímánuð í fyrra. Gríðarleg framboðsaukning á flugi til landsins hefur sett pressu á flugfargjöld og ekki er útlit fyrir að lát verði þar á. Til að mynda hefur þýska flugfélagið Lufthansa tilkynnt um að Ísland verð heilsársáfangastaður, svo nú eru flugfélögin er fljúga til landsins allan ársins hring orðin 13 talsins. Við teljum að aukin samkeppni muni draga úr hefðbundnum ártíðarsveiflum yfir sumarmánuðina og hækka flugfargjöld til útlanda því minna en þau gerðu í fyrra. Þá styður eldsneytis- og hráolíuverð við þessa þróun en fat af Brent hráolíu í bandaríkjadal hefur lækkað um tæp 5% milli mánaða, eða um 10% í krónum talið. Talsverð óvissa er þó um þróun olíuverðs til lengri tíma litið, hvort framleiðslutakmarkanir OPEC- og samstarfsríkja nái tilskyldu markmiði um að koma markaðnum í jafnvægi eða hvort verðhækkanirnar sem það knýr fram verða étnar upp af aukinni framleiðslu í Bandaríkjunum.

Við spáum því að verðhækkunaraldan sem jafnan gengur yfir hótel og veitingastaði yfir sumarmánuðina verði minni en í fyrra (+0,03% af VNV í júní). Ástæðan er fyrst og fremst styrking krónunnar sem gerir það að verkum þar sem verðlagið sem ferðamenn standa frammi fyrir er orðið verulega hátt. Sem dæmi eru gistingar og veitingar hérlendis 29% dýrari en í Noregi. 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Bloomberg, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Aukin samkeppni skilar sér til neytandans

Við spáum verðlækkun á fatnaði og skóm (-0,01% áhrif á VNV) sem er ólíkt því sem gerst hefur á sama tíma undanfarin ár. Einnig gerum við ráð fyrir að matur og drykkjarvörur lækki í verði (-0,03% áhrif á VNV). Ástæðurnar eru fyrst og fremst gengisstyrking krónunnar og aukin samkeppni í formi erlendra risaaðila og netverslunar.

Lítil verðbólga framundan

Líkt og að undanförnu eru það húsnæðisliðurinn og gengi krónunnar sem ráða mestu um verðbólguþróunina á komandi mánuðum og misserum. Síðustu mánuði hefur mælst verðhjöðnun þegar litið er framhjá húsnæðisliðnum svo erfitt er að færa rök fyrir því að innlendur verðbólguþrýstingur sé verulegur. Þrátt fyrir að launakostnaður innlendra fyrirtækja hafi hækkað talsvert í maí sökum kjarasamningsbundinna hækkana hefur sú kostnaðaraukning ekki skilað sér út í verðlagið. Líklegt verður að teljast að áhrifin verði minniháttar, bæði vegna styrkingar krónunnar og aukinnar samkeppni sem veitir aðhald. Hversu lengi krónan mun og getur létt undir með innlendum aðilum er erfitt að segja til um, en miðað við ferðamannafjöldann er streymir til landsins, viðskiptakjarabata og gengisstyrkingu þrátt fyrir losun hafta teljum við að þróunin næstu mánuði geti verið til styrkingar. 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verðbólguþróun næstu mánuði:

Júlí -0,4%: Útsöluáhrif koma fram af fullum þunga en húsnæði, flugfargjöld og hótel og veitingastaðir hækka.
Ágúst +0,3%: Föt og skór hækka þegar útsölurnar ganga til baka, húsnæðisverð hækkar en flugfargjöld lækka.
September +0,4%: Föt og skór hækka þegar útsölum lýkur, húsnæðisverð hækkar en flugfargjöld lækka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka