Krónan minnir á duttlunga sína

Krónan minnir á duttlunga sína

Eftir nær samfellda styrkingu frá árinu 2014 hefur gengi krónunnar verið býsna sveiflukennt frá áramótum þó það hafi áfram styrkst, eða um 3,5% miðað við gengisvísitölu. Síðustu vikur hefur krónan veikst talsvert, t.d. um 6% í þessum mánuði gangvart evru, þvert á væntingar margra sem bjuggust við gengisstyrkingu samfara háannatíma í ferðaþjónustu. Gengisveikingin síðustu vikur er ágæt áminning um að fjölmargir aðrir þættir en ferðamenn hafa áhrif á krónuna og að mjög erfitt að spá fyrir um gengi hennar, sérstaklega til skemmri tíma. Smár gjaldeyrismarkaður hefur líka talsverð áhrif og ýkir sveiflurnar. Þó að vænta megi mikils viðskiptaafgangs næstu mánuði vegna ferðamannastraums er þróunin tvísýn. T.d. á eftir að skýrast betur hvaða áhrif sterkt raungengi mun hafa á utanríkisverslun og hvernig lífeyrissjóðir og aðrir innlendir fjárfestar bregðast við auknu frelsi til erlendra fjárfestinga.

Heimild: Seðlabanki Íslands

Sumarstyrkingin sem breyttist í veikingu

Í vor virtist sem myndast hafi nokkuð sterkar væntingar um að krónan myndi styrkjast í sumar. Flestir greiningaraðilar, þar með talið við, voru á því máli. Helsta ástæðan fyrir þeim væntingum er gríðarleg fjölgun ferðamanna og háannatími í ferðaþjónustu. T.a.m. gerir ISAVIA ráð fyrir 744 þúsund erlendum ferðamönnum til landsins í júní-ágúst, eða fleiri en komu til landsins allt árið 2012.

Það er engum blöðum um það að fletta að miklum fjölda ferðamanna fylgir gríðarlegt gjaldeyrisinnstreymi. Það er þó ekki að sjá að gengi krónunnar hafi fylgt árstíðarsveiflu í fjölda ferðamanna, hvorki í ár né síðustu ár. Hér spilar að miklu leyti þrennt inn í. Í fyrsta lagi hefur árstíðasveiflan í ferðaþjónustu minnkað mikið síðustu ár, einkum og sér í lagi síðastliðið ár þegar ferðamönnum fjölgaði um meira en helming yfir vetrartímann. Í öðru lagi falla tekjur og gjöld ferðaþjónustu í erlendri mynt oft til á öðrum tímum en þegar ferðamannatíminn er í hámarki. Sem dæmi má nefna að flugfargjöld og pakkaferðir eru oft bókuð og greidd langt fram í tímann. Í þriðja lagi þá teljum við að innflytjendur, útflytjendur og aðrir aðilar á gjaldeyrismarkaði bregðist einfaldlega við þessu innflæði vegna ferðaþjónustunnar. Það getur t.d. birst í því að einhver sem ætlar að selja krónur og kaupa gjaldeyri bíður með það vegna væntinga um gengisstyrkingu – skiljanlega þar sem hann væntir þess að gjaldeyririnn verði ódýrari í framtíðinni. Eftir því sem fleiri hugsa á þennan hátt hverfa árstíðasveiflur þó sveiflur verði áfram til staðar.

Hvort þetta sé það sem hefur gerst frá því í apríl skal ósagt látið en við teljum þó nokkuð líklegt að einhverjar slíkar væntingar hafi haft áhrif á gengisþróunina. Við þetta er að bæta að stýrivextir voru lækkaðir um 25 punkta og í fjórða sinn á innan við ári 14. júní sl. sem gæti hafa hreyft við fjárfestum – dregið úr innflæði eða aukið erlendar fjárfestingar t.d. lífeyrissjóða. Þó er ekkert hægt að fullyrða um vaxtalækkunin sé ráðandi þáttur þar sem tilheyrandi gögn munu ekki liggja fyrir fyrr en seinni part sumars.

Heimild: Thomson Reuters, Greiningardeild Arion banka. *Sum ár lendir 28. júní á helgi svo 26. eða 27. eru notaðir í þeim tilvikum

Ekki er útséð með hvort krónan muni styrkjast eða veikjast í sumar. Síðustu vikur eru þó góð áminning um að það er alls ekki á vísan að róa og margt getur haft áhrif á gengi krónunnar til skemmri og lengri tíma. Að því sögðu erum við ennþá þeirrar skoðunar að undirliggjandi séu kraftar, fyrst og fremst myndarlegur viðskiptaafgangur, til styrkingar krónunnar í bráð, en þó líklega ekki til lengri tíma litið.

Lítill gjaldeyrismarkaður + lítil gjaldeyrisinngrip = miklar sveiflur

Þó að erfitt sé að fullyrða á þessari stundu um hvað veldur þessum miklu gengissveiflum síðustu vikur virðist það blasa við að lítill gjaldeyrismarkaður hafi áhrif. Krónan er pínulítill gjaldmiðill og því geta lítil viðskipti haft áhrif á verðmyndun hennar frá degi til dags. Til að setja það í samhengi var velta millibankamarkaði með gjaldeyri í maí um 30 ma.kr. samanborið við 72 ma. kr. veltu á hlutabréfamarkaði á sama tíma. Þessi litla velta hefur ennfremur þær afleiðingar að sveiflan innan dags er oft mikil. Í gærmorgun veiktist gengi krónu gagnvart evru t.d. um 2,4% en sú veiking gekk að mestu til baka og nam veikingin yfir daginn um 0,4%.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Thomson Reuters, Greiningardeild Arion banka. *Velta áætluð m.v. dagsveltu til 23. júní, dagslokagengi EURISK 27. júní.

Það sem hefur ýkt þessar sveiflur undanfarnar vikur og mánuði er að Seðlabankinn hefur að mestu leyti haldið sig til hlés og er hættur að vera virkur í gjaldeyrisforðasöfnun. Einnig virðist sem hann hafi að jafnaði ekki brugðist jafn mikið við mikilli gengisveikingu og hann hefur brugðist við gengisstyrkingu, þó að opinbert markmið gjaldeyrisinngripa sé að jafna sveiflur, óháð því í hvora áttina þær eru. Það hefur þó sýnt sig síðustu ár að geta eða kannski vilji Seðlabankans til að leggjast gegn gengissveiflum er takmörkuð. Miðvikudagur í síðustu viku er gott dæmi. Þá veiktist krónan um hátt í 2% gagnvart helstu myntum, þrátt fyrir að Seðlabankinn legðist á móti og seldi gjaldeyri fyrir um 2,5 ma.kr. og stóð undir nærri helmingi veltu á gjaldeyrismarkaði þann dag.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Thomson Reuters, Greiningardeild Arion banka

Hvað gera lífeyrissjóðirnir og aðrir innlendir fjárfestar?

Einn stærsti óvissuþátturinn varðandi gengi krónunnar næstu mánuðina er hversu mikið lífeyrissjóðir og aðrir innlendir fjárfesta munu nýta sér losun fjármagnshafta. Á örskömmum tíma hefur sú breyting orðið að einstaklingar geta stofnað gjaldeyrisreikninga með nokkrum smellum í heimabanka en fyrir ári síðan þurfti að sýna farseðil til kaupa gjaldeyri. Þó er ekki að sjá að innlendir fjárfestar, fyrirtæki og einstaklingar hafi farið út með fjármuni sína í hrönnum á síðustu mánuðum, nema þá að gengisveiking síðustu daga og vikna skýrist af auknu útflæði innlendra fjárfesta, t.d. í framhaldi af vaxtalækkun nú í júní.

Líklegt er að lífeyrissjóðirnir muni halda áfram að auka erlendar fjárfestingar sínar á næstu misserum, sem væri þá mótvægi við styrkingu krónunnar vegna viðskiptaafgangs. Í dag er hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóða einungis 22% og æskilegt að það verði talsvert hærra. Ljóst er að það hækkar ekki á einni nóttu en svigrúm lífeyrissjóða til að bæta í erlendar fjárfestingar er talsvert t.d. með hliðsjón af endurfjárfestingarþörf (100+ ma.kr.), innflæði (70 ma.kr.) og að þeir eiga bankainnstæður upp á 132 ma.kr. Aðrir innlendir aðilar hafa einnig svigrúm til að auka við fjárfestingar erlendis. Dæmi um það má sjá í peningamarkaðssjóðum, eða lausafjársjóðum, þar sem orðið hefur talsvert innflæði sl. tólf mánuði þrátt fyrir nokkuð útflæði síðan í febrúar.

 

Heimild: Seðlabanki Íslands