Verðlag stendur í stað – matarkarfan lækkar hressilega

Verðlag stendur í stað – matarkarfan lækkar hressilega

Vísitala neysluverðs (VNV) stóð í stað í júní og lækkar því ársverðbólgan úr 1,7% í 1,5%. Breyting vísitölunnar milli mánaða er undir spám flesta greiningaraðila en þær lágu á bilinu 0% til 0,2%, en við spáðum 0,2% hækkun verðlags. Líkt og undanfarna mánuði er húsnæðisliðurinn fyrirferðamestur en ef litið er framhjá honum mælst verðhjöðnun upp á -3,1%. Dráttarklárinn í hækkun húsnæðisliðarins er reiknuð húsaleiga (+0,23% áhrif á VNV) og hækkuðu líka aðrir undirliðir húsnæðisliðarins (+0,06% áhrif á VNV). Ferðaliðurinn hækkar með fjölgun ferðamanna sem fylgir komu sumars. Hótel og veitingastaðir hækkuðu (+0,02% áhrif á VNV) og flugfaragjöld til útlanda hækkuðu (+0,12% áhrif á VNV). Líkt og undanfarin ár hækkuðu föt og skór fyrir útsölur (+0,10% áhrif á VNV) en spáðum lækkun vegna gengis krónunnar og vaxandi samkeppni. Matarkarfan lækkar hressilega eða vel umfram okkar spá (-0,16% áhrif á VNV). Milli mánaða hefur vísitala matar og drykkjarvara lækkað um 1,2% og um 3,5% á liðnum 12 mánuðum. Einnig lækka húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. (-0,09% áhrif á VNV) og heldur eldsneytið áfram að lækka (-0,08% áhrif á VNV). Þetta eru fyrstu verðbólgutölur eftir að Costco opnaði og virðumst við sjá áhrifin á smásölumarkaðinn í tölunum fyrir júnímánuð.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Við spáum því að verðlag lækki -0,4% í júlí, og hækki um 0,3% í ágúst og hækki um 0,4% í september. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í 1,3% í september.

Húsnæðismarkaðurinn að ná meira jafnvægi

Húsnæðisverð um land allt hækkaði um 1,24% milli mánaða samanborið við 2,54% hækkun í maí og er árstakturinn kominn í 23,2%. Þótt þetta séu mikil hækkun eru hún hægari en undanfarna mánuði. Nokkuð hægði á hækkun húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu og mældist verðhjöðnun utan höfuðborgarsvæðisins. Á höfuðborgarsvæðinu hækkaði fjölbýli um 1,7% milli mánaða en var sú hækkun 2,9% í síðasta mánuði. Sérbýli hækkaði um 1,9% en nam sú hækkun 2,34% í maí. Auglýstum fasteignum hefur fjölgað talsvert síðustu vikur, sem er nýmæli síðustu ár og gefur vonandi, ásamt verðbólgutölunum fyrir júní, fyrirheit um að framboðið sé byrjað að taka betur við sér og að betra jafnvægi sé að koma á markaðinn, líkt og við fjölluðum um í síðustu viku. Næstu mánuðir munu leiða í ljós hvort að þessi þróun heldur áfram og að húsnæðisverð sé verulega farið á hægja á sér.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Ferðaliðurinn hækkar en matarkarfan lækkar

Innlendar vörur, sérstaklega matarkarfan (-0,16% áhrif á VNV), lækkuðu milli mánaða og var lækkunin umfram okkar væntingar. Líklega eru m.a. óbein áhrif af komu Costco á ferðinni en verðlækkanirnar gætu í raun verið meiri ef tekið væri tillit til beinna áhrifa Costco í verðmælingum. Verð á mat og drykk hefur farið stöðugt lækkandi frá ársbyrjun og hefur styrking krónunnar klárlega þar sitt að segja. Ferðaliðurinn hækkaði aftur á móti talsvert umfram væntingar okkar og vegur þar þungt hækkun flugfargjalda til útlanda (+0,12 áhrif á VNV). Við spáðum að aukin samkeppni og lækkun eldsneytisverðs myndu draga úr hefðbundnum árstíðasveiflum yfir sumarmánuðina og að hækkun flugfaragjalda til útlanda yrði minni en í fyrra. Framboðsaukning á flugi til landsins og aukin samkeppni virðist hinsvegar ekki hafa dregið úr hækkun milli mánaða sem er í samræmi við hækkun í júnímánuði í fyrra.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Litill verðbólga framundan

Innlendar vörur og þjónusta hafa hækkað sáralítið undanfarna 12 mánuði, en helst hefur það verið opinber þjónusta sem hefur dregið vagninn (+3,9% 12 mánaða breyting). Líkt og sést á myndinni hér að neðan er húsnæðisliðurinn eini liðurinn sem er að hækka af einhverju ráði, en sé litið framhjá honum mælist verðhjöðnun upp á -3,1%. Það er því varla hægt að tala um innlendan verðbólguþrýsting eins og staðan er núna. Krónan hefur hingað til hjálpað við að halda aftur af verðbólgu en hversu lengi hún getur létt undir með innlendum fyrirtækjum er erfitt að segja til um og hefur hún verið að gefa eftir undanfarnar vikur. Húsnæðisverðið hefur keyrt verðbólguna áfram að undanförnu en við erum hinsvegar að sjá hægari verðhækkun í júní og vísbendingar um að það sé það sem koma skal næstu mánuði.. Fjölmargir kjarasamningar verða endurnýjaðir í ár og gæti aukinn launakostnaður innlendra fyrirtækja skilað sér út í verðlagið þótt áhrifin af launahækkunum í maí hafi verið minniháttar, a.m.k. í bili. Áhugavert verður að sjá hvernig þessir liðir muni þróast á næstu mánuðum en teljum við líklegt að verðbólgan taki ekki við sér í nánustu framtíð.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Júlí -0,4%: Útsöluáhrif koma fram af fullum þunga en húsnæði, flugfargjöld og hótel og veitingastaðir hækka.
  • Ágúst +0,3%: Föt og skór hækka þegar útsölurnar ganga til baka, húsnæðisverð hækkar en flugfargjöld lækka.
  • September +0,4%: Föt og skór hækka þegar útsölum lýkur, húsnæðisverð hækkar en flugfargjöld lækka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka