Rússnesk ástarsaga, landsframleiðsla og félagslegar framfarir

Rússnesk ástarsaga, landsframleiðsla og félagslegar framfarir

Árið 1801 átti sér stað fáheyrður atburður í Rússlandi. Einn ríkasti maður landsins, Nikolai Sheremetev greifi, sem þá stóð á fimmtugu gekk að eiga almúgakonuna Praskoviu Kovalyovu. Sheremetev var barnabarn sögufrægs hershöfðingja í her Péturs mikla sem hafði auðgast á því að Pétur gaf honum lönd og lýð að launum fyrir þjónustuna. Sheremetev var í hópi þess u.þ.b. hundraðshlutar Rússa sem taldist til aðalsins á meðan Kovalyova var hjú og í raun í eigu lénsherrans eins og var hlutskipti mikils meirihluta Rússa á þeim tíma. Sheremetev og aðrir aðalsmenn gátu í raun farið með hjú sín eins og þeim lysti, nema að giftast þeim þótti auðvitað hneisa og því fór brúðkaup þeirra fram á laun. Sagan segir að Kovalyova hafi haft dásamlega söngrödd sem fangaði hjarta Sheremetevs greifa. Samband þeirra hefur í gegnum tíðina haft yfirbragð hugljúfrar ástarsögu þar sem tvö hjörtu létu ekki stétt og stöðu aftra sér frá því að unnast.

En þegar Öskubuskuævintýrinu sleppir og blákaldar hagstærðir taka við þá býr þarna að baki saga sorglegrar sóunar, efnahagslegrar og félagslegrar stöðnunar sem stóð í margar kynslóðir. Kovalyova lagði sjálfsagt eitthvað að mörkum til „landsframleiðslu“ á landareign Sheremetevs þar sem hún söng í hans einkaleikhúsi. En hvert hefði framlag hennar orðið ef hún hefði haft persónulegt frelsi og aðstöðu til að bæta sitt eigið líf, á eigin forsendum, til að syngja um allt Rússland, eða um heim allan? Hvað um þá tugi milljóna sem haldið var ólæsum og ófrjálsum í lénsskipulagi Rússlands? Hvaða verðmæti hefðu þessar milljónir getað skapað hefðu þær fengið að skapa sér eigin framtíð? Hefði Kovalyova kannski valið sér annan lífsförunaut en Sheremetev greifa?

Rússland um aldamótin 1800 hefði skorað mjög lágt á Vísitölu félagslegra framfara (VFF) ársins 2017. Hefði Kovalyova fæðst tveimur öldum síðar í landi þar sem Vísitala félagslegra framfara mælist hve hæst hefði ævisaga hennar orðið önnur og framlag til landsframleiðslu miklu meira. Ef sögur um tónlistarhæfileika hennar eru ekki orðum auknar hefði hún kannski raðað sér ofarlega á vinsældarlista með Beyonce, Adele og Björk. Hver veit? Við vitum hins vegar að enn í dag fæðast börn í sömu stöðu og Kovalyova.

Hagvöxtur, framfarir og vellíðan haldast vel í hendur

Ársfjórðungslega eru birtar tölur um vöxt vergrar landsframleiðslu (VLF). Vöxtur VLF, sem í daglegu tali er kallaður hagvöxtur, er talinn það mikilvægur að fjölmargir íslenskir og erlendir efnahagsgreinendur birta reglulega spár um þróun þessarar stærðar. Greiningardeild Arion banka þar engin undantekning. En hvað er hagvöxtur og hvers vegna leggjum við svona mikla áherslu á hann? Í grófum dráttum er VLF fjárhagslegt virði allrar vöru og þjónustu sem framleidd er í landi yfir ákveðið tímabil. Samkvæmt þessu er hagvöxtur mikilvæg forsenda þess að auka samanlagða fjárhagslega stöðu íbúa, fyrirtækja og hins opinbera. Þessi áhersla á fjárhagslegt virði hefur þó skiljanlega leitt til þess að áhersla á hagvöxt er gagnrýnd fyrir að vanrækja aðra þætti sem skipta máli fyrir vellíðan íbúanna og komandi kynslóðir. Líta framhjá því sem ekki verður metið til fjár.

Nýir mælikvarðar hafa rutt sér til rúms til hliðar við VLF sem mæla lífsgæði með öðrum hætti, dýpka samanburð milli landa og styðja við ákvarðanatöku. Einna áhugaverðastur þessara mælikvarða er Vísitala félagslegra framfara (VFF). Vísitalan fyrir árið 2017 var birt í skýrslu Social Progress Imperative (SPI) nú í júní. Til allrar hamingju fyrir unnendur hefðbundinna þjóðhagsreikninga virðist flest benda til að verg landsframleiðsla haldist í þétt í hendur við vellíðan og lífsgæði í víðari skilningi. Það er þó ekki algilt.

VFF hefur það að markmiði að leggja mat á uppbyggingu samfélagsins og vellíðan fólks. Vísitalan er reiknuð fyrir 128 lönd. Við útreikning hennar er spurt þriggja lykilspurninga:

  1. Hvernig er íbúum tryggt aðgengi að grunnþörfum eins og næringu, húsaskjóli og persónulegu öryggi?
  2. Hvernig eru grunnstoðir velferðar? Þar er horft til aðgengis að grunnmenntun og upplýsingum, heilbrigði og umhverfisgæði.
  3. Hvaða möguleika hafa íbúar á að bæta líf sitt? Þar er t.d. litið til persónufrelsis, umburðarlyndis og aðgengi að æðri menntun.

Þessar spurningar eru greindar niður í fimmtíu fjölþætta undirliði á borð við aðgengi að hreinu vatni, kynjasamsetningu í framhaldsnámi, dauðsföll í umferðinni og trúfrelsi. Vísitalan aðskilur sig frá öðrum vísitölum um lífsgæði eins og „World Happiness Report“ að því leyti að hún beinir sjónum beint að árangri frekar en útgjöldum. Þannig á vísitalan að gefa vísbendingu um hversu vel ríki nýta tekjur sínar til að bæta lífsgæði landsmanna. Áhersla er lögð á að vísitalan sé samanburðarhæf milli ólíkra heimshluta, landa og svæða.

Skýrsla SPI flokkar lönd eftir tekjum og eru þau borin saman við lönd með sambærilega VLF. Nokkuð gott samræmi er milli þessara mælikvarða með nokkrum undantekningum. Mest áberandi í hópi ríkustu landa eru Kúveit og Sádí-Arabía. Kemur kannski ekki á óvart að það er t.d. á ýmsa mælikvarða sem snúa að tækifærum einstaklinga til að bæta líf sitt sem þessi ríki fá slaka niðurstöðu. Þar vegur persónulegt og pólitískt frelsi og jafnrétti þungt.

Heimildir: Social Progress Imperative (SPI), IMF, Greiningardeild Arion banka. 

Eru hefðbundnir mælikvarðar orðnir úreltir?

Allt frá því á fjórða áratugnum hafa þjóðhagsreikningar á borð við VLF verið að ryðja sér til rúms sem mælikvarðar á þróun og framfarir. Það var þó aldrei ætlun þeirra sem þróuðu hugtökin að þau yrðu mælikvarðar á vellíðan íbúanna. Það er því áhugavert að sjá hversu góð samsvörun er milli þessa tveggja mælikvarða en fylgni mælist um 80 prósent. Af þessu má draga tvær ályktanir. Annars vegar að VLF er þrátt fyrir allt þokkalegur mælikvarði á vellíðan íbúa og fjárhagsleg afkoma er samofin vellíðan þeirra. Hins vegar að vísitala á borð við VFF sé nánast betrumbætt útgáfa af landsframleiðslu – uppfærð 21. aldar útgáfa – og gæti komið í stað hennar. Skynsamlegasta niðurstaðan er samt sú að ástæðulaust er að tefla ólíkum mælikvörðum upp á móti hver öðrum, þeir einfaldlega styðja við hvern annan.

Veruleikinn er enda sá að þó leiðtogar flestra ríkja séu sammála um að byggja upp sjálfbæra háa landsframleiðslu eru þeir mjög á öndverðu meiði um ýmis önnur mál sem skila hárri útkomu þegar kemur að Vísitölu félagslegra framfara. Sheremetev greifi og aðrir aðalsmenn þess tíma voru líklega sammála því að meiri matvæli, betri hergögn, bættar samgöngur og íburðarmeiri byggingar væru af hinu góða. Hins vegar hefði Sheremetev tekið undir með leiðtogum þeirra ríkja sem telja trú- og tjáningarfrelsi, aðgengi allra þjóðfélagshópa að menntun og jafnrétti kynjanna ríkjum sínum og þegnum ekki til framdráttar.

Pólitískt hlutleysi vergrar landsframleiðslu

Þó rannsóknir bendi til að félagslegar framfarir haldist í hendur við verðmætasköpun þá er mæling hennar hlutlaus gagnvart því hvernig verðmætasköpunin á sér stað. Hún er ópólitísk í þeim skilningi og fellir enga siðferðislega dóma. Þá hefur mæling á landsframleiðslu verið gagnrýnd fyrir að taka ekki nægilega tillit til aukningar í gæðum eða tæknilegum framförum. Þannig getur reynst erfitt að mæla áhrif framfara í þjónustu, hátækni, umhverfismálum og samfélagslegri ábyrgð á landsframleiðslu. Ein birtingarmynd þess er að þrátt fyrir að internetið kalli á þjóðfélagsbreytingar sem helst má líkja við iðnbyltinguna þá hefur mældur hagvöxtur í helstu iðnríkjum heldur hægt á sér eftir því sem áhrif þess fara vaxandi.

Þessi mælivandi kristallast t.d. í þróun á framleiðslu á lýsingu síðustu tvöhundruð árin. Ef breyting framleiðsluverðs er reiknuð út á hvert eintak, þ.e. kostnaðinn við að framleiða eitt kerti miðað við nútíma hágæðaljósaperur, þá hefur kostnaður hækkað lítillega. Ef breyting framleiðsluverðs er hinsvegar reiknuð út á tíma og magn lýsingar sem hvert eintak skilar þá hefur framleiðsluverðið lækkað verulega. Eins og kemur fram í þessu dæmi þá er ekki alltaf auðsótt mál að yfirfæra tækniþróun yfir á þjóðhagsreikninga.

Ísland - þriðja best í heimi

Norðurlöndin eru góður staður á búa á ef marka má skýrslu SPI. Samkvæmt henni er Danmörk besta land í heimi þegar kemur að félagslegum framförum, Finnland næst besta og er Ísland þriðja besta land í heimi, ásamt Noregi. Ísland og önnur vestræn iðnríki koma vel út í þessum samanburði og hafa gert það frá upphafi vísitölunnar.

 

Heimildir: Social Progress Imperative (SPI)

Þetta er í fjórða skipti sem vísitalan er gefin út og hefur Ísland ávallt skorað hátt á kvarðanum hvort sem er á alþjóðavísu eða í samanburði við nágrannaþjóðirnar. Milli ára lækkaði vísitalan fyrir Ísland lítið eitt. M.v. við umræðu síðustu missera kemur kannski ekki á óvart að undir liðnum „aðgangur að húsnæði á viðráðanlegum kjörum“ sem Ísland skilar niðurstöðu undir meðallagi þessara 128 ríkja. Þá kemur Ísland ekki vel út þegar kemur að liðnum „líffræðileg fjölbreytni og umhverfi“ og líklega er fátt við því að gera norður undir heimsskautsbaug.

Heimildir: Social Progress Imperative (SPI)