Spáum að vísitala neysluverðs lækki um 0,3% í júlí

Spáum að vísitala neysluverðs lækki um 0,3% í júlí

Við spáum að vísitala neysluverðs lækki um 0,3% milli mánaða í júlí og vega þar áhrif af sumarútsölum þyngst, líkt og síðastliðin ár. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í 1,6%. Samhliða vaxandi samkeppni gerum við ráð fyrir áframhaldandi verðlækkun á eldsneyti, mat og drykk ásamt tómstundum og menningu, en að lækkun verði töluvert minni en í síðasta mánuði. Líkt og undanfarna mánuði og misseri er hækkun húsnæðisverðs helsti drifkraftur verðbólgunnar en teljum við einnig að flugfargjöld til útlanda hækki hressilega í júlí.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Við spáum því að verðlag hækki um 0,3% í ágúst og í september en hækki um 0,4% í október. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í 1,7% í október.

Sumarútsölur komnar í gang

Við gerum ráð fyrir að sumarútsölurnar hafi mest áhrif á verðlag í júlí, líkt og síðastliðin ár. Þá spáum við að föt og skór lækki um 10,6%, sem er dálítið minni lækkun en á sama tíma og í fyrra. Föt og skór hækkuðu minna í ár þegar vetraútsölurnar gengu til baka og spáum við því vægari útsöluáhrifum í júlí. Verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hefur verið að lækka jafnt og þétt undanfarin misseri, en hefur verðþróun síðustu mánuði verið nokkuð ólík því sem hefur gerst undanfarin ár. Að vissu leiti má reka þessar lækkanir til aukinnar samkeppni, en einnig hefur gengisstyrkingin haft sitt að segja. Þótt krónan hafi verið að gefa eftir undanfarnar vikur teljum við líklegt að töluverð töf sé á áhrifum gengissveiflunnar, og búumst við áframhaldandi verðhjöðnun innfluttra vara næstu mánuði. Við spáum því að húsgögn og heimilisbúnaður haldi áfram að lækka og lækki um tæplega 1% í júlí mánuði (-0,04% áhrif á VNV). 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Er loftið að fara úr húsnæðismarkaðinum?

Húsnæðisverðið er vafalaust sá liður sem hefur drifið verðbólguna áfram undanfarna mánuði og misseri. Kröftugar hækkanir hafa átt sér stað og hækkaði húsnæðisverð um land allt um 1,24% milli mánaða í júní, en var sú hækkun töluvert meiri í maí eða 2,54%. Að okkar mati er útlit fyrir frekari hækkanir en teljum einnig að hækkun húsnæðisverðs muni hægja á sér næstu mánuði vegna framboðsaukningar. Eins og við fjölluðum um nýlega eru vísbendingar um að framboðið sé byrjað að taka betur við sér og höfum við séð stöðuga fjölgun auglýstra fasteigna frá mars síðastliðnum. Framboðshliðin gæti byrjað að taka við sér af fullum krafti á næsta ári, en mikill hraði hefur færst í uppbyggingu nýs íbúðarhúsnæðis sem mun hafa áhrif á markaðinn. Spurningin er hversu hratt nýtt framboð kemur inn og hvernig eftirspurnin þróast á móti. Við spáum því vægari hækkun en hefur sést undanfarna mánuði og spáum við að húsnæðisverð hækki um 1% í júlí. Hér er vert að hafa í huga að nokkrir mánuðir líða jafnan frá því að breytingar á auglýstu verði á fasteignavefjum hafa áhrif á þinglýsta kaupsamninga. Við spáum því að aðrir undirliðir húsnæðisliðarins muni einnig hækka og eru heildaráhrif húsnæðisliðarins til 0,22% hækkunar vísitölu neysluverðs.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Ferðaliðurinn hækkar þrátt fyrir hægari fjölgun ferðamanna

Í síðasta mánuði spáðum við því að gríðarleg framboðsaukning á flugi mundi setja pressu á flugfaragjöld og draga úr hefðbundnum árstíðarsveiflum yfir sumarið. Flugfaragjöld til útlanda hækkuðu hinsvegar langt umfram okkar spá og var hækkun milli mánaða ekki ólík því sem gerðist í fyrra. Þótt ferðamönnum til landsins fjölgi hægar en síðasta ár og að flugfélögum sem fljúga til landsins allan ársins hring hafi fjölgað, virðast áhrifin af árstíðarsveiflum flugfargjalda til útlanda minniháttar. Við spáum því að undirliðurinn hækki hressilega eða um 11% milli mánaða líkt og hefur gerst síðustu árin. Neysla hvers erlends ferðamanns í krónum talið hefur lækkað og hefur dvalartími styst ef miðað er við gistinætur á hótelum. Hér hefur áhrif þróun nýtingar á hótelum, ekki síst sem staðsett eru fjarri höfuðborgarsvæðinu. Við teljum að hótel og veitingarstaðir bregðist við og fari að lækka verð og að verðlag á hótelum og veitingastöðum standi því í stað milli mánaða. Áhrif aukinnar samkeppni á heildsölumarkaði sem kemur m.a. fram í lækkun verðlags í mat og drykk mun einnig finna sér farveg í gegnum þróun verðlags á veitingastöðum.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Skammtíma verðbólguhorfur

Aðrir undirliðir verðbólgunnar hreyfast lítið samanborið verðlækkanir sökum sumarútsala annars vegar og hækkun húsnæðisverðs og flugfaragjalda til útlanda hins vegar. Síðustu mánuði hefur mælst verðhjöðnun þegar litið er á ársverðbólgu án húsnæðis og mældist hún -3,1% í júní. Því er erfitt að færa rök fyrir því að innlendur verðbólguþrýstingur sé verulegur og teljum við óvissuna heldur vera niður á við frekar en til hækkunar. Við gerum ráð fyrir að aukin samkeppni og vísbendingar um hægari vöxt ferðaþjónustunnar muni veita aðhaldi og vega á móti áhrifum launahækkana sökum endurnýjun kjarasamninga. Þótt krónan hafi verið að gefa eftir þessar síðastliðnu vikur, og hefur hún verið lykilatriði hvað varðar verðbólguþróunina undanfarið, teljum við verðhjöðnun innfluttra vara lífsseiga og að verðbólgan verði lítil áfram út þetta ár.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Ágúst +0,3%: Útsölurnar ganga til baka, húsnæðisverð hækkar en flugfargjöld lækka.
  • September +0,3%: Útsölum lýkur, húsnæðisverð hækkar en flugfargjöld lækka.
  • Október +0,4%: Smásöluverslun hækkar ásamt húsnæðisverði og flugfargjöldum, fáir liðir lækka.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka