Norður, suður, austur og vestur, hvert fara ferðamennirnir?

Norður, suður, austur og vestur, hvert fara ferðamennirnir?

Nýlega birti Rannsóknarsetur verslunarinnar í fyrsta sinn gagnvirt hitakort sem lýsir dreifingu ferðamanna á Íslandi. Kortið byggir á upplýsingum um staðsetningu og fjölda erlendra símtækja sem eru í reiki hjá Símanum og er staðsetning tækjanna skráð tvisvar á sólarhring, klukkan 03:00 og aftur klukkan 15:00. Gögnin ná frá júní 2016 til febrúar 2017. Þar sem fyrirliggjandi gögn um íslenska ferðaþjónustu eru takmörkuð að ýmsu leyti er þetta kærkomin viðbót við þá flóru og gefur vísbendingu um hvernig ferðamenn dreifast á vinsæla ferðamannastaði.

Gögnin veita upplýsingar um hvernig ferðamenn dreifast um landið í heild og yfir tíma, líkt og sjá má hér að neðan. Líkt og tölur um gistinætur sýna eru um tvöfalt fleiri ferðamenn á landinu yfir sumartímann en hvar þeir dvelja er misjafnt eftir árstíðum. Eins og sést hér, sem og í tölum um gistinætur, er fjöldi ferðamanna á höfuðborgarsvæðinu svipaður á sumrin og veturna. Í öðrum landshlutum, sérstaklega fyrir utan suðvesturhornið, koma aftur á móti fáir ferðamenn utan háannatíma.

Heimildir: Síminn, RSV, Greiningardeild Arion banka. *Austurland nær vestur fyrir Skaftafell hér en ekki að Höfn í Hornafirði líkt og í tölum Hagstofunnar. 

Svipað margir á Þingvöllum og Mývatni á sumrin – mikill munur á veturna

Þegar skilyrðin eru þrengd enn frekar sést að mikill munur er á árstíðarsveiflunni eftir einstaka ferðamannastöðum. Til að mynda virðist sem að á sumardögum leggi fleiri ferðamenn leið sína til Mývatnssveitar en á Þingvelli, en á hvorum stað eru 3-4% allra ferðamanna sem staddir er á landinu miðað við tölur Símans. Annað er uppi á teningnum á veturna en þá er hlutfallið 4% á Þingvöllum, en um 1% á Mývatni. Svipaða sögu má segja um aðra staði en svo virðist að því nær Keflavíkurflugvelli sem staðurinn er, því betur heldur hann velli í vinsældum yfir vetrartímann. Það samræmist ágætlega því að eftir því sem ferðamenn dvelja skemur á landinu því nær flugvellinum halda þeir sig og meðalferðamaðurinn dvelur skemur á landinu á veturna en sumrin.

 

Heimildir: Síminn, RSV, Greiningardeild Arion banka.

Ferðamenn verja nóttunni í Reykjavík – deginum úti á landi

Annað sem vekur athygli, en kemur kannski ekki á óvart, er hvernig ferðamenn dreifast eftir tíma dags. Líkt og áður sagði er gögnunum safnað saman tvisvar á dag, að degi og nóttu til. Í ljós kemur að ferðamenn eyða nóttinni frekar á höfuðborgarsvæðinu en nýta daginn til að skoða sig um og ferðast út á land, en 45% símtækja eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu um miðja nótt samanborið við 35% um eftirmiðdaginn. Það sama má segja um miðborgina þar sem rúmlega 20% ferðamanna dvelja á hverjum degi. Miðað við fjölda ferðamanna, dvalartíma og áætlaða stærð miðbæjararins af korti RSV eru á milli 3-5 þúsund ferðamenn á hvern ferkílómeter í miðbænum á hverri nóttu í ár.

 

Heimildir: Síminn, RSV, Greiningardeild Arion banka.

Takmarkað samræmi við gistinætur eftir þjóðernum

Þó að þessi nýja tölfræði veiti ákveðna innsýn og sýni möguleika „Big Data“ eru gögnin enn takmörkunum háð enda ná þau yfir stutt tímabil, eru bara frá einu símafyrirtæki og segja má að þau séu unnin í tilraunaskyni. Gott dæmi um slíkar takmarkanir má sjá hér að neðan þegar hlutfall ferðamanna eftir heimsálfum er áætlað annars vegar með gistinóttum og hins vegar með gögnum frá Símanum. Mun hærra hlutfall ferðamanna virðist vera frá Evrópu skv. gögnum Símans heldur en skv. gistinóttum og munar þar heilum 20 prósentustigum eins og sést hér að neðan. Þessu er hinsvegar öfugt farið varðandi ferðamenn frá Norður-Ameríku. Í þessu tilfelli má ætla að skráðar gistinætur gefi gleggri mynd á skiptingu ferðamanna þar sem hlutfall gistinátta ferðamanna frá Norður-Ameríku (26%) er áþekkt hlutfalli fjölda ferðamanna þaðan (30%).

 

Heimildir: Síminn, RSV, Hagstofa Íslands, Ferðamálastofa, Greiningardeild Arion banka.

Lítil fjölgun gistinátta á hótelum í maí – hápunkti ferðamannasprengjunnar náð?

Undanfarið hafa fréttir um afleiðingar af mikilli gengisstyrkingu s.s. afbókanir ferðaheildsala og versnandi horfur í ferðaþjónustunni almennt verið áberandi í fjölmiðlum. Lítið hefur þó borið á þessum fregnum í hagtölum, enda er ferðamönnum enn að fjölga, kortavelta þeirra í heild að aukast o.s.frv. Þó virðist sem nýjustu tölur um gistinætur erlendra ferðamanna á hótelum, sem og ýmislegt annað, beri með sér að toppnum í vextinum sé að öllum líkindum náð. Rétt er að taka strax fram að minni vöxtur er ekki það sama og samdráttur, og hrun ferðaþjónustunnar er ekki fyrirsjáanlegt líkt og fjallað er um í nýlegri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Ísland, þó það sé vissulega ekki ómögulegt.

Eftir gríðarlega fjölgun gistinátta á hótelum á síðasta ári og byrjun þessa árs, eða 20-60% fjölgun milli ára, hægði verulega á vextinum í maí og fór hann í 6,1%, þrátt fyrir að ferðamönnum hafi fjölgað um tæp 18% skv. talningu Ferðamálastofu. Það sem er einnig athyglisvert er að gistinóttum á hótelum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði um 1% milli ára í maí, en eins og sést hér að neðan hafa hótel á höfuðborgarsvæðinu borið uppi fjölgun gistinátta síðustu misseri. Þessi framvinda er að hluta til framhald af þeirri þróun sem hófst á síðasta ári þegar dvalartími ferðamanna tók að styttast þannig að gistinóttum fjölgaði hægar en ferðamönnum. Það kann einnig að vera að sterkt gengi krónunnar sé að leiða til þess að ferðamenn séu í auknum mæli að kjósa ódýrari gistingu, t.d. í tjöldum, heimahúsum, í húsbílum eða á gistiheimilum.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka. 

Þrátt fyrir að hægt hafi á fjölgun gistinátta eru nýtingartölur almennt mjög sterkar og í flestum landshlutum var nýting hótelherbergja að batna milli ára í maí. Helsta undantekningin var þó höfuðborgarsvæðið þar sem nýtingin fór úr 79,4% niður í 70,6%. Hafa ber í huga að tölurnar fyrir 2017 eru bráðabirgðatölur, Hagstofan hefur reglulega endurskoðað þær og aðeins er um að ræða hótel sem eru opin allt árið. Enn á eftir að birta tölur fyrir júní en þó gæti leynst vísbending í nýtingartölum Icelandair Hotels að maí hafi ekki verið einsdæmi. Herbergjanýting þeirra var 80% í júní samanborið við 84,5% á síðasta ári. Þá var sérstaklega tekið fram í tilkynningu félagsins að „Eftirspurn bókana með skömmum fyrirvara var minni en áætlað var ásamt því að meira var um afbókanir hópa en á sama tíma í fyrra“.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.