Verðbólga eykst milli mánaða – húsnæðisverði um að kenna

Verðbólga eykst milli mánaða – húsnæðisverði um að kenna

Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,02% milli mánaða í júlí, en við spáðum 0,3% lækkun milli mánaða. Ársverðbólgan hækkar því úr 1,5% í 1,8%. Þróun ársverðbólgunnar er í samræmi við spár greiningaraðila að meðaltali, en þær lágu á bilinu -0,3% til +0,1% milli mánaða. Það eru sérstaklega hækkun húsnæðisverðs og flugfaragjalda til útlanda sem knúa áfram verðbólguna í júlí en á móti vega áhrif vegna sumarútsala. Við áttum ekki von á því að húsnæðisverð myndi hafa eins mikil áhrif til hækkunar vísitölu neysluverðs í júlí og raun bar vitni en einnig var 20% hækkun flugfargjalda milli mánaða talsvert umfram okkar spá. 

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banki

Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,02% milli mánaða í júlí, en við spáðum 0,3% lækkun milli mánaða. Ársverðbólgan hækkar þannig úr 1,5% í 1,8%.

Sumarútsölur farnar á flug

Sumarútsölurnar eru komnar í gang og eru áhrif þeirra á vísitölu neysluverðs viðtækari en oft áður, að síðasta ári undanskildu. Samsetning sumarútsala virðist hafa breyst og eru áhrif húsgagna, heimilisbúnaðar og annarra vara og þjónusta vegameiri. Við spáðum vægari útsöluáhrifum á fatnaði og skóm og er það í samræmi við mælingar Hagstofunnar, undirliðurinn lækkar um 11% milli mánaða en við spáðum 10,6% lækkun. Það sem kom á óvart var 3,63% lækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði, en við spáðum aðeins 1% lækkun, þar sem verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hefur verið að lækka jafnt og þétt undanfarin misseri og gerðum við því ráð fyrir áframhaldandi lækkun en ekki af þessum krafti. Einnig lækkuðu snyrtivörur um 1,57% milli mánaða og skartgripir um 4,84% milli mánaða. 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banki

Húsnæðismarkaðurinn á svipuðu róli

Við spáðum því að húsnæðismarkaðurinn myndi hægja verulega á sér í júlí, en samkvæmt mælingum Hagstofunnar var frekar stigið á bensíngjöfina. Húsnæðisliðurinn hækkaði um 1,12% milli mánaða (0,38% áhrif á VNV) og líkt og undanfarna mánuði var það reiknuð húsaleiga sem knúði verðbólguna áfram með 1,7% hækkun milli mánaða (0,34% áhrif á VNV). Árstakturinn hækkar þannig úr 23,2% í 24,4%. Í síðasta mánuði mældist verðhjöðnun utan höfuðborgarsvæðisins en nú í júlí er annað upp á teningnum og mældist um 5% hækkun á reiknaðri húsaleigu milli mánaða á landsbyggðinni. Einnig mældist hressileg hækkun á fasteignaverði í fjölbýli á höfuðborgarasvæði, eða 1,5% milli mánaða.

Það vekur athygli að Þjóðskrá Íslands birti núna í vikunni vísitölu íbúðaverðs fyrir júní mánuð og voru tölurnar um margt merkilegar þar sem vísitalan hækkaði um aðeins 0,2% milli mánaða. Ekki hefur sést eins lítill hækkun á milli mánaða síðan í ágúst 2015. Þá vakti einnig sérstaka athygli að fjölbýli lækkaði um 0,2% frá því í maí, en fjölbýli hefur ekki lækkað í verði milli mánaða frá því í júní 2015. Í júní gáfum við út Markaðspunkt þar sem fram kom sú skoðun að hækkun húsnæðisverðs myndi hægja á sér vegna framboðsaukningar og bentum við á í því sambandi á stöðuga fjölgun auglýstra fasteigna frá mars síðastliðnum. Hér er vert að hafa í huga að nokkrir mánuðir líða jafnan frá því að breytingar á fasteignavefjum hafa áhrif á þinglýsta kaupsamninga og teljum við vísitölu íbúðarverðs frá Þjóðskrá Íslands ásamt framboðsaukningu á sölusíðum fasteignasala undanfarna mánuði vera fyrstu áþreifanlegu merkin um betra jafnvægi á markaðinum. Kemur í ljós á næstu mánuðum hvort að þessi þróun heldur áfram og að húsnæðisverð sé verulega farið að hægja á sér en hér er vert að hafa í huga að vægi húsnæðisliðarins er um þriðjungur í vísitölu neysluverðs.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banki

Ferðaliðurinn heldur áfram að hækka

Flugfargjöld til útlanda hækka hressilega milli mánaða og nemur sú hækkun 20,4%. Flestir greiningaraðilar spáðu svipuðum hækkunum og í fyrra og vorum við meðal þeirra, en þá hækkuðu flugfargjöld til útlanda 13,5% milli mánaða. Í kjölfar vísbendinga um kólnun á ferðamannageiranum kemur það okkur nokkuð á óvart að flugfargjöld hækki umfram það sem gerðist í fyrra og er þessi hækkun sú mesta sem hefur sést í júlí undanfarin ár, að árinu 2015 undanskildu. Við töldum einnig að fréttir um fallandi neyslu hvers ferðamanns í krónum talið og stytting dvalartíma myndi skila sér í óbreyttu verðlagi á gistingu, en gisting hækkaði um 5,23% milli mánaða. Hinsvegar hafa veitingarstaðir brugðist við og stóð verðlag í stað milli mánaða samkvæmt væntingum okkar. 

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banki

Skammtíma verðbólguhorfur

Aðrir undirliðir verðbólgunnar hreyfast lítið samanborið við verðlækkanir sökum sumarútsala og hækkun húsnæðis og flugfaragjalda til útlanda. Síðustu mánuði hefur mælst verðhjöðnun þegar litið er á ársverðbólgu án húsnæðis og var júlí mánuður engin undantekning, en mældist hún 3,1% í júlí. Við gerum ráð fyrir að sú framboðsaukning sem við höfum séð á vefsíðum fasteignasala muni skila sér út í verðlagið á næstu mánuðum og teljum við einnig að við séum að sjá fyrstu skýru vísbendingar um betra jafnvægi á markaðinum í formi vægari hækkun vísitölu íbúðarverðs milli mánaða í júní. Haldi sú þróun áfram og fari húsnæðisliðurinn að gefa eftir þarf innlendur verðbólguþrýstingur að aukast verulega til að koma verðbólgunni af stað. Styrking krónunnar hefur verið lykilatriði hvað varðar verðbólguþróunina undanfarna mánuði, að húsnæðisverði undanskildu, en hefur hún verið að gefa eftir undanfarið. Það á eftir að koma í ljós hversu lífsseig verðhjöðnun innfluttra vara er og hvernig gengi krónunnar mun þróast út þetta ár. 

  Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banki 

 Verðbólguþróun næstu mánuði: 

  • Ágúst +0,3%: Útsölurnar ganga til baka, húsnæðisverð hækkar en flugfargjöld lækka.
  • September +0,3%: Útsölum lýkur, húsnæðisverð hækkar en flugfargjöld lækka.
  • Október +0,4%: Smásöluverslun hækkar ásamt húsnæðisverði og flugfargjöldum, fáir liðir lækka.

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banki