Vextir á niðurleið og bindiskylda á útleið?

Vextir á niðurleið og bindiskylda á útleið?

Í síðustu viku birtist athyglisvert viðtal fréttamiðilsins Bloomberg við Má Guðmundsson seðlabankastjóra. Þar boðar hann slökun eða afnám bindiskyldu á erlenda fjárfestingu sökum þess að vextir fari lækkandi hér en hækkandi í flestum öðrum ríkjum. Erfitt er að túlka það öðruvísi en að frekari vaxtalækkanir séu í kortunum. Í nýrri hagspá Greiningardeildar er gert ráð fyrir tveimur 25 prósentustiga vaxtalækkunum það sem eftir lifir ársins sem myndi þýða að vaxtamunur við útlönd verður sögulega lítill. Engu að síður er ekki allt sem bendir til þess að svigrúm sé til vaxtalækkana og ber þar helst að nefna hækkandi verðbólguálag á markaði í kjölfar veikingar krónunnar.

Skýr skilaboð um að stefnt sé að frekari lækkun vaxta og afnámi bindiskyldu.

Í viðtali Bloomberg við Má segir hann nokkuð skýrt að bankinn sé að vinna í því að lækka vexti sína á meðan annars staðar fari þeir hækkandi (eða eins og hann segir í viðtalinu: „We’re coming down with our interest rates and the rest of the world is coming up“). Þetta er nokkuð annar tónn en oft hefur heyrst frá meðlimum peningastefnunefndar, en yfirlýsingar nefndarinnar upp á síðkastið hafa boðað nokkuð hlutlausa framsýna leiðsögn. Engu að síður hefur mátt lesa á milli línanna að a.m.k. hluti nefndarinnar sé í vaxtalækkunargír.

Okkar túlkun er sú að talsverður vilji sé í Svörtuloftum til að halda áfram að lækka vexti og samhliða því slaka á eða afnema alveg bindiskylduna á erlent fjármagn eftir því sem vaxtamunur við útlönd minnkar. Þetta er nokkuð á skjön við ýmsar fyrri yfirlýsingar, sem lúta t.d. að því að hagkerfið sé einfaldlega á þeim stað að það kalli á mikið peningalegt aðhald á meðan önnur ríki eru að reyna að örva hagkerfi sín. Þá hefur það virst vera á reiki hversu mikið peningastefnunefndin tekur tillit til vaxtamunar. Við lækkun vaxta í desember sl. sagði seðlabankastjóri að nefndin væri ekki að lækka vexti vegna vaxtamunar við útlönd, en í fundargerð peningastefnunefndar stóð aftur á móti að mikill vaxtamunur við útlönd væri rök fyrir vaxtalækkun.

Í viðtalinu bendir Már réttilega á að lægri vextir dragi úr hvata til vaxtamunarviðskipta og að þar með opnist svigrúm til þess að draga úr bindisskyldu á erlenda fjárfestingu sem ætlað er að halda aftur af slíkum viðskiptum. Í dag gildir þessi bindisskylda fyrir erlenda fjárfestingu í skuldabréfum og innlánum þar sem binda þarf 40% fjárfestingarinnar á vaxtalausum reikningi í eitt ár. Þó að áður hafi verið gefið í skyn að bindiskyldan sé sífellt til endurskoðunar og það gæti verið slakað á henni hefur það þó sjaldan komið jafn skýrt fram að ósk Seðlabankans sé að hún sé ekki varanleg. Í fréttinni segir seðlabankastjóri um bindisskylduna: „It’s not our wish to have this as a permanent feature.“

Nú þegar virðist vera svigrúm til þess að slaka á bindisskyldunni, en búið er að skrúfa nær alveg fyrir fjárfestingu útlendinga í íslenskum skuldabréfum og innlánum. Það sést t.d. ef skoðuð eru gögn um verðbréfafjárfestingu erlendra aðila á fyrri hluta ársins. Nánast allt innflæði hefur verið í hlutabréf, en á síðasta ársfjórðungi virtist hægjast verulega á því og jafnvel snúast við útflæði. Á sama tíma hafa íslenskir aðilar verið að auka fjárfestingu sína erlendis, enda ekki bundnir af fjármagnshöftum, sem skapar að einhverju leyti svigrúm fyrir aukna erlenda fjárfestingu hér á landi.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. Útflæði erlendra aðila í mars skýrist fyrst og fremst af samkomulagi við aflandskrónueigendur.

Við búumst við 50 punkta vaxtalækkun á næstu mánuðum

Út frá nýrri langtíma verðbólguspá okkar gerum við ráð fyrir lækkun vaxta um 50 punkta það sem eftir lifir árs en að vextir standi svo í stað í 4% út árið 2018. Helstu rökin fyrir því að vextir lækki eru að verðbólga verður að líkindum áfram nálægt markmiði á næstunni. Jafnvel þó að verðbólga muni líklega aukast á næsta ári vegur á móti að á sama tíma dregur talsvert úr spennu í hagkerfinu sem mun draga úr þörf á peningalegu aðhaldi. Um þetta ríkir þó að sjálfsögðu mikil óvissa og hafa ber í huga að peningastefnunefnd byggir ákvarðanir sínar á eigin verðbólguspám og ýmsum öðrum þáttum.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Meðalvextir eftir ársfjórðungum, metið með Taylor-reglu.

Stefnir í sögulega lítinn vaxtamun við útlönd?

Ef við reiknum með þessum vaxtalækkunum um samtals hálft prósentustig og horfum til væntinga greiningaraðila um vaxtaþróun í Bandaríkjunum og á Evrusvæðinu er útlit fyrir að vaxtamunur muni áfram fara lækkandi á næstu mánuðum, sérstaklega gagnvart Bandaríkjunum. Gangi það eftir verður skammtímavaxtamunur við Bandaríkin orðin rúm 2% undir árslok 2018, sem er mun minni munur en hefur áður sést. Sem dæmi var vaxtamunurinn tæp 10% árið 2007 og tæp 6% þegar bindiskyldunni var komið á fyrir rúmu ári síðan. Ef þessi sviðsmynd rætist eru enn sterkari rök fyrir því að slakað verði á bindiskyldunni.

Heimildir: Bloomberg, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Mun hækkun verðbólguálags halda aftur af stýrivaxtalækkunum?

Það er þó ekki allt sem mælir með því að vextir lækki á næstunni. Í fyrsta lagi er gengi krónunnar enn mjög sterkt og að okkar mati er áhættan varðandi krónuna frekar í átt að veikingu heldur en verulegri styrkingu, þó að mikil veiking kæmi okkur á óvart. Í öðru lagi er hagkerfið enn á fljúgandi siglingu sem kallar á peningalegt aðhald. Í þriðja og síðasta lagi, sem er jafnframt líklega einna mikilvægast, hefur verðbólguálag á markaði hækkað um hátt í hálft prósentustig frá því í júní sem endurspeglast í því að raunstýrivextir miðað við 5 ára verðbólguálag hafa lækkað um ca. 40 punkta. Líklega má rekja þessa hækkun verðbólguálags til þess að krónan hefur veikst um rúmlega 10% á sama tíma.

Verðbólguvæntingar á markaði eru einn af þeim mælikvörðum sem peningastefnunefnd horfir til þegar aðhald peningastefnunnar er metið og í júní sl. var lækkun verðbólguvæntinga og því aukið taumhald peningastefnunnar ein helstu rökin fyrir lækkun vaxta. Þó að við reiknum ekki með því, mætti samt með þessu færa rök fyrir því að peningastefnunefnd hækki vexti, eða haldi þeim óbreyttum, ætli hún að vera samkvæm sjálfri sér.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Kodiak, Greiningardeild Arion banka.