Spáum 0,4% hækkun verðlags í ágúst

Spáum 0,4% hækkun verðlags í ágúst

Við spáum að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,4% milli mánaða í ágúst sem er meiri hækkun en við gerðum ráð fyrir í síðustu skammtíma spá okkar. Ástæðan er fyrst og fremst töluverð hækkun eldsneytisverðs. Helstu drifkraftar verðbólgunnar eru hækkun húsnæðisverðs, lok sumarútsala og hækkun eldsneytisverðs en á móti kemur lækkun flugfargjalda til útlanda. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í 1,9%.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Við spáum því að verðlag hækki um 0,4% í september, hækki um 0,3% í október og hækki um 0,1% í nóvember. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í 2,3% í nóvember.

Sumarútsölur ganga til baka

Í júlí sl. gengu hinar árlegu sumarútsölur í garð og lækkuðu föt og skór um tæplega 11%. Við gerum ráð fyrir að útsöluáhrifin gangi til baka í ágúst og september. Við spáum 4% hækkun á fötum og skóm sem er töluvert minni hækkun en oft áður á þessum árstíma. Ástæðan er fyrst og fremst vægari útsöluáhrif í júlí en einnig teljum við líklegt að fyrirtæki stigi varlega til jarðar með hækkanir vegna aukinnar samkeppni sem blasir við með opnun H&M í lok mánaðarins. Einnig hækkar undirliðurinn aðrar vörur og þjónusta vegna lok útsala og er hér aðallega um snyrtivörur og skartgripi að ræða.

Verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hefur verið að lækka jafnt og þétt undanfarna mánuði og hefur verðlækkun verið meiri en hefur sést undanfarin ár. Að vissu leiti má rekja þessar lækkanir til aukinnar samkeppni, en vissulega hefur gengisstyrkingin haft sitt að segja. Krónan hefur verið að gefa eftir undanfarnar vikur og þótt við teljum að töf sé á áhrifum gengissveiflunar þá búumst við samt sem áður við örlítilli verðhækkun vegna lok sumarútsala. Við spáum 0,25% hækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Ferðaliðurinn togast í báðar áttir

Þrátt fyrir vísbendingar um kólnun í ferðamannaþjónustunni hækkuðu flugfargjöld til útlanda hressilega í júlí og nam sú hækkun 20,4%. Við höfum áður talið að framboðsaukning á flugi ásamt vísbendingum um minni vöxt í ferðamannageiranum myndu draga úr hefðbundnum árstíðasveiflum en það hefur ekki gerst. Við gerum því ráð fyrir að flugfargjöld til útlanda lækki eins og gjarnan gerist á þessum tíma ársins. Við spáum um 13,9% lækkun í ágúst og áframhaldandi lækkun í september.

Heimsmarkaðsverð á Brent hráolíu í bandaríkjadölum hefur hækkað um tæp 16% frá því í lok júní þegar verðið var sem lægst. Samhliða því hefur krónan veikst gagnvart bandaríkjadal sem ýtir enn undir verðhækkunina. Við spáum því að eldsneyti hækki í verði um tæp 5% í ágúst.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Thomson-Reuters, Greiningardeild Arion banka

Jafnvægi í aðsigi?

Gera má ráð fyrir að fasteignaverð haldi áfram að hækka líkt og undanfarna mánuði en samtímis hafa ýmsar vísbendingar komið fram sem benda til þess að hægja fari á húsnæðisverðshækkunum. Í síðasta mánuði birti Þjóðskrá Íslands vísitölu íbúðaverðs fyrir júní mánuð og hækkaði vísitalan aðeins um 0,2% milli mánaða. Ekki hefur sést eins lítill hækkun á milli mánaða síðan í ágúst 2015. Í júní gáfum við út Markaðspunkt þar sem við lýstum þeirri skoðun að hækkun húsnæðisverðs myndi hægja á sér vegna framboðsaukningar. Hér má sjá hvernig auglýstum fasteignum hefur fjölgað frá því í mars mánuði.

Heimildir: Vísir.is, Þjóðskrá Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Við teljum að hækkun húsnæðisverðs muni hægja á sér næstu mánuði og teljum við vísitölu íbúðarverðs frá Þjóðskrá Íslands ásamt framboðsaukningu á sölusíðu fasteignasala undanfarna mánuði vera fyrstu áþreifanlegu merkin um betra jafnvægi á markaðinum. Það er vert að hafa í huga að nokkrir mánuðir líða jafnan frá því að breytingar á fasteignavefjum hafi áhrif á þinglýsta kaupsamninga og að líða aukalega nokkrir mánuðir þangað til að þessi áhrif birtast í mælingum Hagstofunnar.
Við spáum því að húsnæðisverð hækki um 0,8% í ágúst og að árstakturinn lækki úr 24,2% í 23,2%. Við spáum einnig að aðrir undirliðir húsnæðisliðarins muni hækka í ágúst og eru heildaráhrif húsnæðisliðarins til 0,20% hækkunar vísitölu neysluverðs.

Skammtíma verðbólguhorfur

Síðustu mánuði hefur mælst verðhjöðnun þegar litið er á ársverðbólgu án húsnæðis en mældist hún -3,1% í bæði júní og júlí. Þannig er erfitt að tala um innlendan verðbólguþrýsting og spyrja má hvort hann hafi horfið sökum aukinni samkeppni og gengisstyrkingar. Krónan hefur verið lykilatriði hvað varðar verðbólguþróunina undanfarið og gerum við ráð fyrir í nýuppfærðri Hagspá að krónan haldi áfram að sveiflast á milli mánaða en að meðaltali verði gengið á svipuðum stað og í dag næstu mánuði. Við teljum því verðhjöðnun innfluttra vara lífsseiga og að verðbólgan haldist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans út þetta ár. Óvíst er hversu lengi húsnæðisverð heldur áfram að hækka og hvað hart verði stigið á bremsuna eftir að toppinum er náð? Vert er að hafa í huga að vægi húsnæðisliðarins er um þriðjungur í vísitölu neysluverðs og því eru verðbólguhorfur verulega tengdar þróun á fasteignamarkaðinum.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • September +0,4%: Útsölum lýkur, húsnæðisverð hækkar en flugfargjöld lækka.
  • Október +0,3%: Húsnæðisverð heldur áfram að hækka, aðrir liðir hækka lítillega. Hótel og veitingastaðir lækka.
  • Nóvember +0,1%: Húsnæðisverð hækkar líkt og í október, aðrir liðir hækka nokkuð. Flugfargjöld lækka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka