Vaxtalækkun frestað

Vaxtalækkun frestað

Miðvikudaginn 23. ágúst nk. tilkynnir peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands um vaxtaákvörðun sína og spáum við óbreyttum stýrivöxtum þannig að meginvextir verði 4,5%. Þó að verðbólga sé áfram lítil, útlit sé fyrir að framleiðsluspenna fari dvínandi og ýmislegt annað hnígi í átt að því að lækka megi vexti teljum við að peningastefnunefnd sitji á sér að þessu sinni. Meginástæða þess að við teljum að vextir verði óbreyttir er hækkun verðbólguálags og talsverð lækkun raunstýrivaxta, en hvort tveggja hefur vegið þungt í vaxtaákvörðunum undanfarið. Síðustu vikur hefur Seðlabankinn algjörlega haldið sér til hlés á gjaldeyrismarkaði sem kemur á óvart þar sem sveiflur í gengi krónunnar í sumar hafa að okkar mati verið óhóflegar. Það verður fróðlegt að sjá hvort nefndin hafi sýn á gjaldeyrisinngripastefnu bankans horft fram á við.

 

Lækkun raunstýrivaxta og veikari króna heldur aftur af vaxtalækkun

Í nýlegum Markaðspunkti leiðum við að því líkur að meginvextir Seðlabankans myndu lækka á næstu mánuðum, líklegast um 0,5 prósentustig. Þar er vísað til nýlegra ummæla seðlabankastjóra um að bankinn sé að lækka vexti sem leiði til minni vaxtamunar við útlönd og að í framhaldinu verði hægt að slaka á bindiskyldu á erlenda fjárfestingu. Enn fremur sjáum við teikn á lofti um að framleiðsluspenna í hagkerfinu gæti farið dvínandi á næstum misserum, sem gefur tilefni til lægri raunstýrivaxta/aðhaldsstigs en ella. Þó að rökin fyrir vaxtalækkun eigi í sjálfu sér enn við teljum við að skörp hækkun verðbólguálags á markaði og meiri veiking krónunnar leiði til þess að peningastefnunefnd kjósi að halda vöxtum óbreyttum að þessu sinni. Þá er í okkar huga ekki eins líklegt og áður að vextir lækki um 0,5 prósentustig á næstu mánuðum nema að meiri stöðugleiki færist yfir gengi krónunnar.

Í vaxtákvörðunum upp á síðkastið hefur nefndinni verið tíðrætt um ýmsa mælikvarða á raunstýrivöxtum og hvernig þeir þróast milli funda. Fyrir ári síðan, þegar bankinn lækkaði vexti um 0,5 prósentustig, og við vaxtalækkun í júní vó hækkun raunvaxtastigs miðað við tiltekna mælikvarða nokkuð þungt. Að þessu sinni hefur raunvaxtastigið í öllum tilfellum lækkað fyrir þá mælikvarða sem til eru ný gögn um. Þó að verðbólguvæntingar markaðsaðila hafi breyst lítið, eru raunstýrivextir miðað verðbólguvæntingar þeirra mun lægri en í síðustu könnun í maí. Ef tekið er meðaltal af mælikvörðunum hér að neðan má sjá að raunstýrivextir eru um 0,6 prósentustigum lægri en þeir voru fyrir vaxtákvörðun í júní.

Þrátt fyrir þetta eru sem fyrr segir rök fyrir því að vextir geti lækkað meira á næstunni, eins og talið er upp í töflunni hér að ofan. Ef nefndin hins vegar kýs að lækka vexti nú þyrfti hún að líta framhjá þeim þætti sem hún einna helst horfði til við síðustu vaxtaákvörðun – verðbólguvæntingar. Þar með er það spurning um trúverðugleika nefndarinnar hvort vextir verða lækkaðir nú þar sem röksemdarfærslan með raunstýrivöxtunum bendir í raun frekar til þess að hækka eigi vexti. Ef nefndin er á þeirri skoðun að meginvextir geti lækkað meira reiknum við með því að hún bíði frekar með að lækka vextina fram á haust.

Heimildir: Kodiak, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Seðlabankinn í sumarfríi á gjaldeyrismarkaði?

Frá 2014 og fram eftir yfirstandandi ári var Seðlabankinn mjög fyrirferðamikill á gjaldeyrismarkaði með miklum gjaldeyriskaupum, sérstaklega þegar krónan var í styrkingarfasa. Á síðasta ári stóð Seðlabankinn t.d. undir meira en helmingi veltu á millibankamarkaði með gjaldeyri. Á síðustu mánuðum hafa kraftarnir á gjaldeyrismarkaði að einhverju leyti snúist við sem birtist í veikingu krónunnar. Á sama tíma hefur Seðlabankinn tilkynnt um að gjaldeyrisforðasöfnun sé lokið í bili og reglulegum gjaldeyrisinngripum sömuleiðis. Engu að síður hefur það verið skýrt tekið fram af hálfu Seðlabankans að hann grípi inn á gjaldeyrismarkaði til að leggjast gegn sveiflum, nánar tiltekið óhóflegum sveiflum á gengi krónunnar. Að okkar mati hefur þróun á gengi krónunnar í sumar verið til þess fallin hækka áhættuálag sem birtist í hærra verðbólguálagi. Þessar gengissveiflur draga úr fyrirsjáanleika og auka þar með áhættu allra þeirra sem stunda viðskipti milli landa og bera áhættu í krónum sem hækkar viðskiptakostnað. Sú áhætta er líkleg til að endurspeglast í verðþróun innfluttra vara. Þannig er ekki aðeins veiking krónunnar sem hækkar verðlag heldur einnig gengissveiflur í sjálfu sér. Þess vegna veldur vonbrigðum að ekki skuli hafa tekist að koma í veg fyrir óhóflegar sveiflur á gengi krónunnar síðustu mánuði.

Á tímabilinu frá maí og fram í ágúst var velta á millibankamarkaði með krónur á dag um 1,6 ma.kr. að meðaltali. Það álíka fjárhæð og dagleg meðalkaup Seðlabankans á gjaldeyri árið 2016. Í ljósi yfirlýsinga stjórnenda bankans um að beita sér gegn óhóflegum sveiflum er mjög undarlegt að bankinn hafi ekki verið stærri þátttakandi á markaði í vor og sumar. Í flestum opnum hagkerfum er ekki ætlast til þess að Seðlabankar séu ráðandi aðilar á gjaldeyrismarkaði. Staða Íslands er hins vegar þannig að hömlur eru á innflæði erlends fjármagns inn á skuldabréfamarkað og í innlán. Aukinheldur eru framvirk gjaldeyrisviðskipti óvarinna aðila með krónuna óheimil. Hvort sem fólki líkar það betur eða verr þá draga þessar takmarkanir úr veltu á gjaldeyrismarkaði. Þá er eðlilegt að horft sé til Seðlabankans sem hefur síðustu ár verið langstærsti þátttakandinn á markaðinum, hefur sagt það stefnu sína að draga úr óhóflegum sveiflum á gengi krónunnar og hefur það lögbundna hlutverk að stuðla að verðstöðugleika.

Seðlabankinn hefur nú verið í nær samfelldu tveggja mánaða sumarfríi frá gjaldeyrismarkaði. Það er því eðlilegt að nú síðsumars sé enn og aftur kallað eftir því að Seðlabankinn skýri hvaða stefnu hann hefur í inngripum á gjaldeyrismarkaði. Sú stefna „að draga úr óhóflegum á gjaldeyrismarkaði“ hljómar satt að segja ekki sérstaklega trúverðug.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Gögn um gjaldeyriskaup ná til 15. ágúst