Óbreyttir vextir – vaxtalækkanir á pásu

Óbreyttir vextir – vaxtalækkanir á pásu

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun ákvörðun sína um að halda meginvöxtum bankans óbreyttum í 4,5% í takt við okkar væntingar. Helstu rökin fyrir óbreyttum vöxtum virðast hafa verið kunnugleg orð um að spenna í þjóðarbúskapnum kalli á peningalegt aðhald. Þrátt fyrir að verðbólga sé enn lítil og sumt sem hnígi að því að Seðlabankinn geti haldið vaxtalækkunarferli sínu áfram á næstu misserum virðist sem hækkandi verðbólguvæntingar og veiking krónunnar hafi gert gæfumuninn líkt og við höfðum spáð fyrir um. Miðað við nýlega þróun og spá Seðlabankans eru frekari vaxtalækkanir á árinu ólíklegri en aftur á móti sjáum við fram á að peningastefnunefnd gæti í staðinn lækkað vexti lítillega á næsta ári. Seðlabankastjóri ræddi stefnu bankans um inngrip á gjaldeyrismarkaði. Að okkar mati fela orð hans í sér að bankinn vilji að stefnan sé áfram óljós og óskýr og því má áfram vænta að Seðlabankinn haldi sér til hlés, nema að honum finnist miklar sveiflur kalla á inngrip.

Vaxtahækkun áður en vextir lækka meira?

Í nýútkomnum Peningamálum má sjá að tveir sterkir kraftar toga vextina í sitthvora áttina. Annars vegar hafa verðbólguhorfur á næsta ári lítillega versnað, sem kallar á hærri vexti en ella. Á hinn bóginn er að hægja á í hagkerfinu og framleiðsluspenna fer minnkandi. Að gefnum forsendum um jafnvægisraunvexti og Taylor reglu gætu vextir þess vegna hækkað nú á fjórða ársfjórðungi. Aftur á móti er svo útlit fyrir að vextirnir fari lækkandi þegar líður á næsta ár. Miðað við þessar forsendur finnst okkur þó líklegast að vextir verði óbreyttir næstu mánuði en að þeir gætu lækkað á næsta ári. Í nýlegri hagspá Greiningardeildar Arion banka er gert ráð fyrir tveimur vaxtalækkunum á árinu. Að okkar mati er sú sviðsmynd ekki eins líkleg nú, bæði vegna spár Seðlabankans, en einnig vegna hækkandi verðbólguálags á markaði.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka *Meðalvextir á ársfjórðungi

Það sem getur þó breytt öllu því sem hér er rakið er hver sýn Seðlabankans er á hæfilegt raunvaxtastig. Svo virðist sem það hafi lækkað milli funda og augljóst virðist að peningastefnunefnd miði við talsvert lægra jafnvægisraunvaxtastig. Eins og svo oft áður voru jafnvægisraunvextirnir ræddir á kynningarfundi í kjölfar vaxtaákvörðunar og nokkur samhljómur virðist vera um að raunvaxtastig hafi varanlega lækkað á Íslandi. Óvissan liggur í hversu mikið það hafi lækkað.

Mögulega meiri ró framundan á húsnæðismarkaði

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar var sérstaklega tekið fram að breytingar gætu verið framundan á húsnæðismarkaði sem vakti nokkra athygli okkar. Í Peningamálum er vikið að því að meðalsölutími hafi lengst, íbúðum til sölu fjölgað og kaupsamningum fækkað. Á kynningarfundi peningastefnunefndar kom enn fremur fram að vísbendingar séu um að hægja sé á húsnæðismarkaði, líkt og við höfum einnig bent á. Ljóst er að peningastefnunefndin vill sjá betur hvernig þróunin verður áður en hún bregst við, en ef miklar verðhækkanir á húsnæðismarkaði eru um garð gengnar má ætla að verðbólguhorfur batni sem kallar á lægra vaxtastig en ella.

Seðlabankinn telur að hægja sé á í ferðaþjónustu...

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar er einnig vikið að því að framundan séu breytingar í utanríkisverslun. Loðið orðalag í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir lítið meira en í Peningamálum og á kynningarfundinum kom í ljós að hér er fyrst og fremst um að ræða að sterkar vísbendingar séu um að hægja sé farið á í ferðaþjónustu. Hér að neðan má sjá mynd sem birtist í Peningamálum og talar hún sínu máli um að mesti vöxturinn í ferðaþjónustu sé liðinn. Þar má sjá að á Google er minna leitað að efni sem tengist ferðalögum á Íslandi, meðalútgjöld hafa dregist saman og að leiðrétt fyrir árstíðasveiflum sé mesta fjölgun ferðamanna liðin. Enn fremur var styttri dvalartími nefndur og að mati Seðlabankans kann styrking krónunnar að styðja þessa þróun að einhverju leyti. Þessar tölur endurspeglast í því að spá bankans um þjónustuútflutning hefur verið færð niður. Hægari vöxtur í ferðaþjónustu leiðir líklega til minni spennu sem kallar á minna peningalegt aðhald, en á sama tíma verður þróun gengis krónunnar tvísýnni svo of snemmt er að segja til um hvaða áhrif þessi þróun og breytta sýn mun hafa á vexti Seðlabankans.

Heimild: Seðlabanki Íslands – mynd úr Peningamálum 17/3

...engu að síður er mikill hagvöxtur í kortunum

Samhliða vaxtaákvörðuninni voru birt ný Peningamál með uppfærðri þjóðhagsspá Seðlabankans og þar er ekki að sjá niðursveiflu í hagkerfinu þrátt fyrir að hægja sé farið á í ferðaþjónustu. Hagvaxtarspá fyrir árið í ár hefur þó verið færð talsvert niður, eða um rúmt prósentustig, úr 6,3% í 5,2%. Munurinn felst fyrst og fremst í breyttri sýn bankans á utanríkisverslun, en nú er gert ráð fyrir minni útflutningsvexti en áður var talið og meiri innflutningsvexti. Í kjölfar þessarar breytingar er þjóðhagsspá bankans mjög sambærileg uppfærðri hagspá okkar sem birt var fyrr í þessum mánuði, en áður höfðum við furðað okkur spá bankans um jákvætt framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar í ár í ljósi sterkrar krónu og vaxandi vöruskiptahalla.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Stefna, sveiflur og spíralar

Undanfarið hefur borið nokkuð á gagnrýni á gjaldeyrisinngrip Seðlabankans úr ýmsum áttum, m.a. frá okkur. Í umfjöllun um stýrivaxtaspá okkar í gagnrýndum við þátttöku eða þátttökuleysi Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði í sumar. Við teljum að þær sveiflur sem hafa orðið á gengi krónunnar í sumar hafi verið óhóflegar, þvert á það sem við töldum vera markmið gjaldeyrisviðskipta bankans eftir að formlegri forðasöfnun lauk. Að okkar mati hafa þær sveiflur sem orðið hafa á gengi krónunnar milli vikna og mánaða í sumar ekki verið í samræmi við fyrri stefnu um að draga úr óhóflegum sveiflum. Seðlabankastjóri sá ástæðu til að skýra stefnu bankans á kynningarfundi í morgun. Þar kom fram að í sumar hefði verið óvenju erfitt að greina á milli stefnu og flökts í gengi krónunnar í og þau litlu inngrip sem þó áttu sér stað hefðu haft þann tilgang að koma í veg fyrir spíralmyndun þegar gengið sveiflaðist mikið innan dags eða um 1,9%-3%.

Hvort komandi gjaldeyrisinngrip muni hér eftir taka mið af því hvenær Seðlabankinn metur að krónan sé að „stefna“ í ákveðna átt eða „flökta“ skal ósagt látið. Hvernig Seðlabankanum tekst síðan fram í tímann að greina þar á milli verður sögulegt að sjá. Hins vegar vísaði seðlabankastjóri á skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Ísland í sumar. Þar segist starfslið AGS styðja minni inngrip á markaði og þróun inngripastefnu sem samræmist verðbólgumarkmiði. Í hreinskilni sagt þá grunar okkar að Seðlabankinn sé einfaldlega að feta sig ótroðnar slóðir á gjaldeyrismarkaði og meðan svo er hentar líklega ágætlega að stefnan sé áfram óljós og óskýr. Hver og ein aðgerð bankans (og aðgerðaleysi) kallar a.m.k. á harða gagnrýni úr ólíkum áttum. Því má áfram vænta að Seðlabankinn haldi sér til hlés, nema að honum finnist miklar sveiflur kalla á inngrip og til að koma í veg fyrir spíralmyndun.


Heimild: Seðlabanki Íslands

Markaðurinn tók frekar illa í vaxtaákvörðunina

Þrátt fyrir að greiningaraðilar hafi spáð óbreyttum vöxtum og að almennt séð hljóði spár upp á fremur litlar breytingar á vöxtum á næstu misserum virðist sem markaðsaðilar hafi að einhverju leyti tekið illa í ákvörðun peningastefnunefndar. Gengi krónu veiktist um 2% gagnvart evru í morgun en sú veiking gekk að hluta til baka. Það hefur smitast yfir á hlutabréfamarkaðinn þar sem félög í útflutningi eða með mikla erlenda starfsemi hafa almennt hækkað en félög með meiri innlenda starfsemi hafa lækkað. Einnig hefur ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa hækkað lítillega, en það á við bæði óverðtryggð og verðtryggð skuldabréf þannig að verðbólguálag er lítið breytt þrátt fyrir talsverða gengisveikingu á stuttum tíma. Í aðra röndina er hér áframhaldandi gengisveiking sem enn rýrir verðbólguhorfur og gæti kallað á hærri stýrivexti en ella. Í hina röndina er hér áframhald á því sem var rætt á kynningarfundi vaxtaákvörðunar: Verðbólguvæntingar til lengri tíma hafa nýverið ekki verið eins næmar fyrir skammtímasveiflum í gengi krónunnar, sem gæti gert peningastefnunefnd kleyft að ná verðbólgumarkmiði með lægri vöxtum en áður.

Heimildir: Kodiak, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.