Loksins er farið að hægja á húsnæðisverðshækkunum, 1,7% ársverðbólga

Loksins er farið að hægja á húsnæðisverðshækkunum, 1,7% ársverðbólga

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,25% milli mánaða í ágúst og lækkar ársverðbólgan þannig úr 1,8% í 1,7%. Verðbólgutölur eru undir spám greiningaraðila en þær lágu á bilinu 0,4% til 0,6%, en spáðum við 0,4%. Þá er það sérstaklega hækkun húnæðisverðs, verð á mat og drykkjarvörum og lok útsala sem knúði verðbólguna áfram í ágúst en á móti vega árstíðarsveiflur í flugfargjöldum og lækkun verðlags á tómastund og menningu.

 

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banki

Útsöluáhrif ganga lítillega til baka

Sumarútsölurnar gengu til baka í ágúst en hækkun verðslags af þeim sökum var töluvert minna en oft áður á þessum árstíma. Við gerðum ráð fyrir töluvert minni hækkunum en undanfarin ár og töldum við ástæðuna vera vægari útsöluáhrif í júlí en einnig að fyrirtæki myndu stíga varlega til jarðar með hækkanir vegna aukinnar samkeppni sem blasir við með opnun H&M. Við spáðum 4% hækkun á fatnaði og skóm. Verðhækkanir voru hinsvegar afar hóflegar og hækkaði liðurinn um aðeins 2,4% milli mánaða. Hvort um sé að ræða varanleg áhrif á verðlag vegna aukinnar samkeppni skýrist á næstu mánuðum.

Verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hækkaði um 0,9% milli mánaða en kemur sú hækkun í kjölfar margra mánaða verðlækkana. Aðrar vörur og þjónusta hækkuðu um 0,6% milli mánaða en skartgripir og úr héldu áfram að lækka og lækkuðu um 2,6% milli mánaða. Snyrtivörur hækkuðu um 1% milli mánaða. 

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banki

Húsnæðismarkaðurinn loksins farinn að kólna

Við spáðum því að húsnæðismarkaðurinn myndi hægja verulega á sér í ágúst vegna framboðsaukningar og bentum við í því sambandi á stöðuga fjölgun auglýstra fasteigna frá mars síðastliðnum. Við bentum einnig á að vísitala íbúðarverðs hefði hækkað lítillega í júní og júlí. Við vöktum athygli á að nokkrir mánuðir líða jafnan frá því að breytingar á fasteignavefjum hafa áhrif á þinglýsta kaupsamninga og að aukalega líða nokkrir mánuðir þangað til að þessi áhrif birtast í mælingum Hagstofunnar. Loksins dró úr verðhækkunum og hækkaði húsnæðisliðurinn aðeins um 0,43% milli mánaða og hækkaði reiknuð húsaleiga um 0,55% milli mánaða (0,11 áhrif á VNV). Árstakturinn lækkar þannig úr 24,2% í 22,9%. Í þetta sinn voru það verðhækkanir á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu sem knúðu verðbólguna áfram og nam sú hækkun 1,5% milli mánaða. Það vekur athygli að fasteignaverð á fjölbýli hækkaði aðeins um 0,32% milli mánaða en ekki hefur sést eins lítil hækkun frá því í mars 2016 þegar hún mældist 0,29% milli mánaða. Það er samt sem áður óvíst hvað gerist á næstu mánuðum, en við teljum þetta vera skýrar vísbendingar um að markaðurinn sé farinn að kólna og að betra jafnvægi sé í kortunum.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banki

Flugfargjöld til útlanda lækka, hótel og veitingar standa í stað

Flugfargjöld til útlanda lækkuðu hressilega milli mánaða líkt og gerist yfirleitt á þessum tíma árs. Lækkun nam 12,6% milli mánaða sem hefur 0,14% áhrif til lækkunar á vísitölu neysluverðs en við spáðum 0,15% áhrifum til lækkunar vísitöluneysluverðs.

Það vekur athygli að engar verðbreytingar voru á undirliðnum hótel og veitingastaðir. Við höfum að undanförnu bent á fréttir um fallandi neyslu hvers ferðamanns í krónum talið og styttingu dvalartíma. Við töldum að þessir þættir myndu skila sér út í verðlag á gistingu og veitingum og virðist sem svo hafi orðið. Bæði veitingastaðir og seljendur gistingar hafa brugðist við og stóð verðlag í stað milli mánaða. 

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banki

Matur og drykkur hækkar hressilega

Miklar verðhækkanir voru á mat og drykk milli mánaða og kemur það nokkuð að óvart hvað liðurinn hækkaði hressilega. Verð á mat og drykkjarvörum hefur verið að lækka jafnt og þétt undanfarna mánuði. Að vissu leyti má rekja þessar verðlækkanir til aukinnar samkeppni en vissulega hefur gengisstyrkingin haft sitt að segja. Óvíst hefur verið hversu mikið hefur mátt rekja til samkeppnisáhrifa og hversu mikið hefur mátt rekja til gengisáhrifa. Krónan hefur verið að gefa eftir undanfarnar vikur og virðist sem að gengisveikingin hafi nú þegar skilað sér í verðlagshækkunum á mat og drykk.  

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banki

Skammtíma verðbólguhorfur

Við sáum loksins áhrif af þeirri framboðsaukningu sem við höfum séð á vefsíðum fasteignasala og dró verulega úr verðhækkunum húsnæðisverðs í ágúst. Haldi sú þróun áfram og er húsnæðisliðurinn að gefa eftir þarf innlendur verðbólguþrýstingur að aukast verulega til að koma verðbólgunni af stað. Aðrir undirliðir verðbólgunnar hreyfðust lítið þegar litið er burt frá árstíðabundnum sveiflum slík og sumarútsölum og flugfaragjaldslækkunum. Síðustu mánuði hefur mælst verðhjöðnun þegar litið er á ársverðbólgu án húsnæðis og var ágúst mánuður engin undantekning, en mældist hún 3,0% í ágúst. Krónan hefur verið lykilatriði hvað varðar verðbólguþróunina undanfarna mánuði en hún fór að gefa eftir í sumar. Eins og áður sagði þá virðist sem að gengisveikingin hafi nú þegar komið fram í verðlagi á mat og drykkjarvörum en eftir á að koma í ljós hversu lífsseig verðhjöðnun innfluttra vara mánuðina þar á undan er og hvernig gengi krónunnar mun þróast út þetta ár. 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banki

 Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • September +0,4%: Útsölum lýkur, húsnæðisverð hækkar en flugfargjöld lækka.
  • Október +0,3%: Húsnæðisverð heldur áfram að hækka, aðrir liðir hækka lítillega. Hótel og veitingastaðir lækka.
  • Nóvember +0,1%: Húsnæðisverð hækkar líkt og í október, aðrir liðir hækka nokkuð. Flugfargjöld lækka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banki