Sterk króna rýrir viðskiptaafganginn

Sterk króna rýrir viðskiptaafganginn

Í gær birti Seðlabanki Íslands bráðabirgðatölur um greiðslujöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins fyrir annan ársfjórðung. Segja má að í þeim birtist eilítið skýrari mynd af því hvers vegna gengi krónunnar hefur ekki almennt verið að leita í ákveðna átt á árinu, en gengisþróunin hefur verið æði sveiflukennd á árinu og sumarstyrkingin sem flestir bjuggust við breyttist í sumarveikingu. Þannig er gengi krónunnar nú á svipuðum slóðum og í apríl sl. (og í nóvember 2016 ef út í það er farið).

Viðskiptaafgangur nam 16,3 ma.kr. sem er um helmingi minni afgangur en á sama tíma í fyrra, á gengi hvors árs. Tölurnar eru í fínu samræmi við okkar spá, en í uppfærðri hagspá okkar frá því í ágúst spáðum við 19. ma.kr. afgangi. Á föstu gengi er munurinn nokkuð minni, enda er krónan ennþá nokkuð sterkari en á sama tíma fyrir ári síðan. Hin hlið peningsins, fjármagnsjöfnuður, virðist ekki benda til fjármagnsflutningar til og frá landinu séu sérstaklega sterkir í aðra áttina, enda var fjármagnsjöfnuðurinn neikvæður um einungis 3,6 ma.kr. Á hinn bóginn voru talsverðar hreyfingar á liðum innan fjármagnsjafnaðar sem gæti að einhverju leyti skýrt sveiflur í gengi krónunnar á 2. ársfjórðungi. Hér á eftir eru fimm atriði sem sérstaklega vöktu athygli okkar.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Leiðrétt fyrir slitabúum bankanna.

1. Vöru- og þjónustujöfnuður við útlönd minnkar

Á öðrum ársfjórðungi voru áhrif sterkrar krónu á utanríkisviðskiptin nokkuð bersýnileg. Vöruskiptahallinn var 46 ma.kr. og jókst um 41% milli ára á föstu gengi, einkum vegna mikils innflutnings. Allar líkur eru á að sú þróun haldi áfram í meginatriðum enda hagkerfið enn á fullri siglingu, krónan sterk og heimilin standa vel. Þannig nam vöruskiptahallinn í í júlí einum og sér 23 ma.kr., sem að raunvirði er mesti halli í einum mánuði síðan í júlí 2008. Þrátt fyrir að vöxtur ferðaþjónustu hafi verið mikill á 2. ársfjórðungi, enda fjölgaði ferðamönnum um 29% milli ára, jókst þjónustujöfnuðurinn lítið í erlendri mynt og dróst saman í krónum talið. Ástæðurnar eru tvíþættar. Annars vegar dróst annar þjónustuútflutningur en ferðaþjónusta saman um 7% á föstu gengi, sem líklegt er að tengist styrkingu krónunnar og hækkun launakostnaðar. Hins vegar jókst þjónustuinnflutningur mjög mikið, sérstaklega innflutningur tengdur ferðaþjónustu s.s. ferðalög landsmanna erlendis, eða um 26% milli ára. Erfitt er að líta framhjá áhrifum sterkari krónu og aukins kaupmáttar í erlendri mynt í því samhengi, en alls lögðu 176 þúsund Íslendingar land undir fót á fjórðungnum, sem er nýtt met.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

2. Hver ferðamaður eyðir meiru í sinni eigin mynt

Áhrif sterkrar krónu á ferðaþjónustuna hefur verið mikið í umræðunni síðustu mánuði og sitt sýnist hverjum. Á öðrum ársfjórðungi var erfitt að sjá áhrif krónunnar á heildartekjur ferðaþjónustu, enda jukust þær um 8% í krónum talið og 33% mælt í erlendri mynt. Áhrif krónunnar sjást þó annarsstaðar, t.d. í breyttu ferðamynstri, styttri dvalartíma og minni neyslu á hvern ferðamann í krónum talið. Engu að síður benda tölur um ferðaþjónustuútflutning til þess að neysla hvers erlends ferðamanns í erlendri mynt hafi aukist á fjórðungnum, sem er í takt við þróun undanfarna ára. Erfitt er að túlka það öðruvísi en að markmiðið um betur borgandi ferðamenn hafi náðst, nema að hátt verðlag á Íslandi þvingi ferðamenn til að verja sífellt hærri fjárhæðum í er mynt. Sem dæmi neytti erlendur ferðamaður sem kom til landsins á 2. ársfjórðungi sl. fyrir um 1.350 evrur, sem er 19% aukning frá sama tíma árið 2013. Ef tekið væri tillit til atriða eins og fjölgunar sjálftengifarþega um Keflavíkurflugvöll, sem ýkir fjölda ferðamanna, og styttri dvalartíma er þróunin enn athygliverðari og rennir sterkari stoðum undir kenninguna að vel hafi tekist að laða betur borgandi ferðamenn til landsins. Um þessi atriði og fleiri verður fjallað í nýrri úttekt Greiningardeildar á ferðaþjónustu sem kynnt verður í næstu viku.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

3. Fjölgun erlends vinnuafls eykur fjármagnsflutninga frá landinu

Liðurinn rekstrarframlög í viðskiptajöfnuði fær sjaldan mikla athygli en að þessu sinni fangaði hann auga okkar, nánar tiltekið framlög einstaklinga frá Íslandi, eða peningasendingar einstaklinga frá landinu. . Milli ára meira en tvöfölduðust þessi framlög úr 2,6 ma.kr. í 5,3 ma.kr. Losun fjármagnshafta hefur hér líklega eitthvað að segja, en stóri undirliggjandi þátturinn er að erlendu vinnuafli hefur fjölgað gríðarlega upp á síðkastið og á öðrum ársfjórðungi fjölgaði erlendum ríkisborgurum hér á landi um 5.580 milli ára. Þekkt er að fólk sem flytur til hátekjuríkja eins og Íslands sendi peninga heim til fjölskyldu og ættingja og slíkar peningasendingar standa undir stórum hluta gjaldeyristekna margra ríkja, einkum í Afríku sunnan Sahara, víða í Asíu og austanverðri Evrópu. Líklegt er að framlög einstaklinga frá Íslandi verði áfram mikil, svo lengi sem atvinnuleysi helst lítið, en ekki má gleyma að um er að ræða óverulegan lið í stóra samhenginu.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

4. Takmarkað fjármagnsútflæði við afnám hafta

Annar ársfjórðungur var fyrsti heili ársfjórðungurinn eftir afnám fjármagnshafta og er því sérstaklega athyglisvert að skoða hvernig fjármagnsjöfnuðurinn þróaðist að þessu sinni. Enn um sinn virðast áhrifin vera takmörkuð og landsmenn stíga varlega til jarðar en fjármagnsjöfnuðurinn var neikvæður um 3,6 ma.kr. á fjórðungnum. Það þýðir að Íslendingar drógu nettó úr eign sinni gagnvart eign útlendinga hérlendis um sem nemur þeirri fjárhæð. Hér ber þó að hafa í huga að eignarhaldsfélög sem stofnuð voru í kjölfar nauðasamninga föllnu bankanna eru enn starfandi og getur það skekkt myndina talsvert. Þar að auki geta fyrirtæki sem skráð eru á Íslandi en starfa að mestu erlendis einnig skekkt myndina.

Það skýtur nokkuð skökku við að íslenskir aðilar drógu úr eign sinni erlendis á fjórðungnum eftir að hafa verið lokaðir innan hafta í hátt í áratug. Þar munar mestu um seðla og innistæður en einnig gjaldeyrisforða og ýmislegt annað. Á móti drógu erlendir aðilar úr eign sinni hér á landi og munar þar mestu um skuldabréf og beina fjárfestingu sem fólgin er í lánum. Á hinn bóginn jukust önnu lán til Íslands um nærri 20 ma.kr.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

5. Stutt gaman sem lánveitandi við útlönd

Þrátt fyrir að hallinn á fjármagnsjöfnuði hafi verið lítill varð talsverð breyting á erlendri stöðu þjóðarbúsins og var Ísland ekki lengur lánveitandi við útlönd við lok 2. ársfjórðungs. Sem hlutfall af landsframleiðslu var erlend staða jákvæð um 3,2% í lok mars en er nú neikvæð sem nemur 2,5%. Neikvæðar virðisbreytingar á beinni fjárfestingu íslenskra aðila erlendis virðast vera helsti orsakavaldurinn. Erfitt er að átta sig á hvað er hér á seyði, en að okkar mati er ólíklegt að það sé eitthvað sem skipti verulegu máli fyrir undirliggjandi stöðu þjóðarbúsins. Sem dæmi gæti verið um að ræða virðisbreytingu á erlendum eignum fyrirtækja sem skráð eru á Íslandi. Verð áframhald á viðskiptaafgangi má ætla að ekki líði að löngu þar til Ísland verði aftur lánveitandi við útlönd

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.