Einkaneysluhagvöxtur mættur á svæðið - 3,4% hagvöxtur á 2F

Einkaneysluhagvöxtur mættur á svæðið - 3,4% hagvöxtur á 2F

Hagstofa Íslands birti nú í morgun þjóðhagsreikninga annars ársfjórðungs þessa árs. Þrátt fyrir hægari vöxt en undanfarna fjórðunga er mikill kraftur í hagkerfinu, þá einkum og sér í lagi innlendri eftirspurn. Tölurnar draga dám af sterkri krónu, stórauknum kaupmætti og mögulega, og við ítrekum mögulega, komu Costco inn á innlendan markað. Þrátt fyrir að hagvöxtur á fjórðungnum hafi verið nokkuð minni en við reiknuðum með fóru nær allir undirliðir landsframleiðslunnar fram úr væntingum okkar. Það bendir til þess að við höfum að einhverju leyti vanmetið kraftinn í innlendri eftirspurn, sem drífur hagvöxtinn áfram um þessar mundir. Á móti vegur að vöxtur útflutnings var nokkuð minni en við höfðum áður áætlað, sem rekja má til minni vaxtar í þjónustuútflutningi, öðrum en ferðaþjónustu, en við höfðum spáð.

Hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi mældist 3,4%, samanborið við 4,6% vöxt á öðrum ársfjórðungi í fyrra og 5% vöxt á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Að þessu sinni var einkaneyslan driffjöðrin enda jókst hún um 9,5%, sem er mesti vöxtur á einum fjórðungi síðan 2007. Eftir mikinn uppgang í fyrra hefur hægt á vexti fjárfestingar, en hún jókst um 5,8%. Mestu munar um talsverðan vöxt íbúðafjárfestingar, sem nam 25,4%, en atvinnuvegafjárfesting, sem vegur þyngst í heildarfjárfestingu, jókst aðeins um 2,8%. Ekki má grauta saman minni vexti og samdrætti – þrátt fyrir hægari vöxt er fjárfesting ennþá umtalsverð og í kringum 22% af landsframleiðslu á 2F.

Áhrif sterkrar krónu og aukins kaupmáttar sjást bersýnilega í innflutningstölunum, en innflutningur jókst um 16,2%. Innflutt þjónusta, sem inniheldur meðal annars utanlandsferðir landsmanna, jókst um hvorki meira né minna en 23,5%, sem er mesti vöxtur á einum fjórðungi frá árinu 2005. Þessi miklu vöxtur kemur í sjálfu sér ekki á óvart þegar litið er til ferðagleði landsmanna, en alls héldu 176 þúsund Íslendinga utan á fjórðungnum, sem er nýtt met. Nokkuð kröftugur vöxtur var í vöruútflutningi, eða 7,6%, á meðan hægt hefur á vexti þjónustuútflutnings, sem nam 8,5% á fjórðungnum. 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Í ljósi þess að vöxtur innflutnings var talsvert umfram vöxt útflutnings var framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar neikvætt, ólíkt síðustu fjórðungum. Líkt og áður sagði var það einkaneyslan sem keyrði hagvöxtinn áfram, en fjárfesting og samneyslan lögðu einnig lóð sín á vogaskálarnar. Framlag birgðabreytinga var neikvætt, þar sem birgðir drógust saman um 9,6 ma.kr. á verðlagi ársins. Munar þar mestu um samdrátt í birgðum sjávarafurða en einnig drógust birgðir saman í stóriðju og kísil- og rekstrarvörum.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Síðan-fyrir-hrun metin falla og falla

Að þessu sinni voru það þrír undirliðir landsframleiðslunnar sem slógu nýtt síðan-fyrir-hrun met. Það voru einkaneyslan, samneyslan og þjónustuinnflutningur. Einkaneyslan hefur ekki vaxið svona mikið á einum fjórðungi síðan 2007 og veltum við fyrir okkur hvort innkoma Costco spili hér rullu. Hversu mikil þessi áhrif geta verið skal látið ósagt.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Þrátt fyrir að hafa tapað toppsætinu erum við ennþá að spila í úrvalsdeildinni þegar kemur að hagvexti á 2F, líkt og sjá mér hér að neðan.

Heimild: Hagstofa Íslands

Upp stigann en ekki lyftuna á síðari helmingi ársins

Landsframleiðslan á fyrri helmingi ársins (1H) jókst um 4,3%, sem er sambærilegur vöxtur og á fyrri helmingi síðasta árs. Einkaneyslan jókst um 8,3%, samneyslan um 2,2% og fjárfesting um 5,2%. Þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, jukust alls um 5,2%, samanborið við 9,4% vöxt á 1H síðasta árs. Minni vöxtur atvinnuvegafjárfestingar skiptir hér höfuðmáli. Þá jókst innflutningur um 10% og útflutningur um 6,4% en hafa ber í huga að sjómannaverkfallið sem stóð yfir í byrjun árs hefur áhrif á samanburð á milli ára.

Í ágúst uppfærðum við hagspá okkar frá því í mars og færðum hagvaxtarspá okkar fyrir árið í ár niður á við. Við spáum 5,3% hagvexti í ár, sem er svipaður vöxtur og Seðlabankinn spáir. Til þess að spá okkar gangi eftir þarf landsframleiðslan á seinni helming ársins að vaxa um 6,2%. Í ljósi þess að innflutningur hefur vaxið mikið, og við áætlum að hann muni vaxa enn meira á 2H, og hægt hefur á útflutningsvexti sem og vexti fjárfestingar, gæti svo farið að sú spá sé full bjartsýn. Engu að síður er útlit fyrir að hagvöxtur í ár verði nokkuð yfir meðalahagvexti, en að hægja taki á vextinum á næsta ári.