Spáum 0,25% hækkun verðlags í september

Spáum 0,25% hækkun verðlags í september

Við spáum að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,25% milli mánaða í september sem er vægari hækkun en við gerðum ráð fyrir í síðustu skammtíma spá okkar. Ástæðan er fyrst og fremst að við teljum að hratt hægi á áhrifum húsnæðisverðs og aukin samkeppnisáhrif sem setja verðhækkunum takmörk nú að loknum sumarútsölum. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í 1,5%.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Við spáum því að verðlag hækki um 0,25% í október, hækki um 0,1% í nóvember og hækki um 0,3% í desember. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í 2,1% í desember.

Samspil vaxandi samkeppni og gengis krónurnar

Rifjum upp helstu tíðindi síðustu verðbólgumælingar. Sumarútsölu gengu lítillega til baka í ágúst og voru verðhækkanir töluvert minni en við gerðum ráð fyrir. Við höfðum spáð vægari hækkunum en sést höfðu undanfarin ár vegna opnunar H&M ásamt vægari útsöluáhrifum í júlí. Við spáðum 4% hækkun á fatnaði og skóm í ágúst en liðurinn hækkaði um aðeins 2,4% milli mánaða. Sumarútsölur ganga sögulega til baka í ágúst og september, spurningin er því hvort áhrifin séu komin fram eða hvort sé um tilfærslu milli mánaða að ræða, í síðari tilfellinu gæti þetta þýtt verulega verðhækkanir í september. Einnig hefur krónan verið að gefa eftir undanfarið sem sögulega hefur leitt til verðhækkana. Við teljum áhrif aukinnar samkeppni gera að verkum að fatnaður og skór hækki minna en hefur gerst á þessum tíma árs og spáum við 2,7% hækkun milli mánaða, en eftir á að koma í ljós hversu lífsseig þessi samkeppnisáhrif eru.
Þrátt fyrir aukna samkeppni á dagvörumarkaði skilaði gengisveikingin sér í verðlagshækkunum á mat og drykk í ágúst og vega þar hækkanir á ávöxtum (4,11%) og grænmeti (4,76%) þyngst. Aðrir undirliðir hækkuðu minna eða lækkuðu milli mánaða. Við spáum 0,44% hækkun á mat og drykk milli mánaða í september, eða því sem svarar til 0,06% áhrifa á vísitölu neysluverðs. Við gerum þannig ráð fyrir minni verðhækkunum í september þar sem við teljum að gengisáhrifin á mat og drykk hafi skilað sér að miklu leiti út í verðlag í ágúst.

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Ferðaliðurinn: Flugið lækkar en svarta gullið hækkar

Eftir miklar verðhækkanir í júlí lækkuðu flugfargjöld til útlanda í ágúst eins og gjarnan gerist á þessum tíma ársins. Við spáum áframhaldandi verðlækkun í september og gerum við ráð fyrir um 11% lækkun milli mánaða, eða 0,12% áhrifum á VNV.
Heimsmarkaðsverð á hráolíu í bandaríkjadölum hefur hækkað um tæp 3% milli mánaða, sama má segja um verðhækkun í krónum talið. Við spáum því að eldsneytisverð hækki lítillega milli mánaða, eða sem samsvarar 0,02% áhrifa á VNV.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Thomson-Reuters, Greiningardeild Arion banka

Húsnæðismarkaðurinn: Verðbólgumótorinn útbrunninn?

Loksins dró úr verðhækkunum og hækkaði húsnæðisliðurinn aðeins um 0,43% milli mánaða í ágúst. Reiknuð húsaleiga, sem hefur knúið verðbólguna áfram síðustu mánuði og misseri, hækkaði um aðeins 0,55% milli mánaða í ágúst en hefur undirliðurinn hækkað um 1,8% að meðaltali fyrstu sjö mánaða ársins. Árstakturinn lækkaði þannig úr 24,2% niður í 22,9%. Það voru verðhækkanir á sérbýli á höfuðborgarasvæðinu sem drifu verðbólguna áfram og nam sú hækkun 1,5% milli mánaða í ágúst, hinsvegar hækkaði fjölbýli um aðeins 0,32% milli mánaða en ekki hefur sést eins lítill hækkun frá því í mars 2016. Við spáðum að húsnæðismarkaðurinn myndi hægja verulega á sér í ágúst vegna framboðsaukningar og bentum við í því sambandi á stöðuga fjölgun auglýstra fasteigna frá mars síðastliðnum. Við bentum einnig á að vísitala íbúðarverðs hefði hækkað lítillega í júní og júlí. Tölurnar frá Hagstofunni komu okkur því ekki á óvart og teljum við að þessi þróun haldi áfram þótt mögulega sé eitthvert loft eftir í sérbýlisblöðrunni. Við spáum 0,4% hækkun milli mánaða í september.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Skammtíma verðbólguhorfur

Við höfum síðustu mánuði fjallað um verðhjöðnun þegar litið er á ársverðbólgu án húsnæðis, aukinnar samkeppni, gengisstyrkingar og þýðingar þessara þátta fyrir innlendan verðbólguþrýsting. Við höfum einnig fjallað um hvernig húsnæðisverðshækkanir hafa knúið verðbólguna áfram síðustu mánuði og misseri en nú er toppinum á húsnæðisverðshækkunum mögulega náð. Ef svo er, þá var stigið ansi hart á bremsuna í ágúst. Athyglisverðir tímar eru fram undan, þar sem áhugavert verður að sjá hvernig samspil gengisáhrifa og aukinnar samkeppni verður. Við teljum verðhjöðnun innfluttra vara þokkalega lífsseiga, a.m.k. það sem eftir er af árinu, og gerum við ráð fyrir hóflegum verðhækkunum á húsnæði. Við teljum því að verðbólgan haldist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans út þetta ár.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Október +0,25%: Húsnæðisverð hækkar, matur og drykkjarvörur hækkar, aðrir liðir hækka/lækka lítillega.
  • Nóvember +0,1%: Flugfargjöld lækka hressilega, föt og skór hækka, húsnæðisverð hækkar.
  • Desember +0,3%: Húsnæðisverð hækkar, flugfargjöld hækka, aðrir liðir hækka/lækka lítillega.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka