Hvað kosta stjórnarslit?

Hvað kosta stjórnarslit?

Það er stundum sagt að vika sé stuttur tími í pólitík en eftir atburði síðustu viku þarf líklega að endurskoða þann frasa og segja að kvöldstund sé stuttur tími í pólitík. Allir þekkja atburðarásina – ríkisstjórnin er sprungin og Íslendingar ganga til Alþingiskosninga í þriðja sinn á fimm árum þann 28. október nk. Í framhaldinu hafa hugtök eins og „pólítískur óstöðugleiki“ margoft skotið upp kollinum sem og umræða um áhrif á eignamarkaði og efnahagshorfur svo eitthvað sé nefnt. Í tilefni að því tókum við saman nokkur atriði sem varpa ljósi á kostnað sem hlýst af pólitískum óstöðugleika til lengri og/eða skemmri tíma. Þar á meðal eru kostnaður við kosningar, glötuð þingmál, hærri vextir, lækkun á virði eigna, tapaðar vinnustundir og almennt viðurkennd skaðleg áhrif pólitísks óstöðugleika á lífskjör.

Einu sinni var haft eftir Winston Churchill að lýðræði væri versta form stjórnarfars, fyrir utan öll hin. Mikið er til í þeim ummælum því lýðræði, í víðri skilgreiningu, hefur hingað til reynst besta stjórnarfarið sem maðurinn hefur náð tökum á en um leið fylgja því ýmsar áskoranir sem birtast okkur svo vel í dag. Rétt er að taka fram að hér er ekki tekin afstaða til þess hver ber ábyrgð á atburðum síðustu daga. Þá er ekki tekið tillit til að ný ríkisstjórn með nýjum þingmönnum að baki sér muni mögulega reynast happaskref fyrir landsmenn þegar allt kemur til alls. Okkar nálgun og áhersla er því býsna neikvæð og takmörkuð, en að okkar mati er hún mikilvægt veganesti inn í komandi mánuði. Kostnaðurinn við pólitískan óstöðuguleika og áframhaldandi vandræði ætti að vera hvatning fyrir alla að stuðla að öflugu Alþingi sem gerir það sem því er ætlað að gera á þeim fjórum árum sem kosið er til.

Beinn kostnaður við kosningar og glötuð þingmál

Fyrir það fyrsta er talsverður kostnaður fólgin í því að halda kosningar og er hann talin vera a.m.k. 350 m.kr. að þessu sinni, eða sem nemur meðal mánaðarlaunum 619 ríkisstarfsmanna. Þar með er ekki allt talið. Í fjáraukalögum í fyrra var gert ráð fyrir 121 m.kr. í biðlaun og annan kostnað vegna fráfarandi þingmanna, en þó má ætla að sá kostnaður verði lægri nú. Enn fremur var gert ráð fyrir 47 m.kr. í ýmis útgjöld vegna búnaðar fyrir nýja þingmenn og standsetningu á húsnæði svo eitthvað sé nefnt.

Þá er ótalinn kostnaður ríkissjóðs vegna vinnu sem fer í súginn eða frestast á Alþingi, en rekstur þess kostar um 3,5 ma.kr. á ári. Því til viðbótar er einnig margvísleg vinna sem frestast í ráðuneytunum eða fer í súginn þar. Á þingmálaskrá fyrir þingið, sem nú hefur verið rofið, voru 147 frumvörp og 34 þingsályktunartillögur. Ljóst er að stór hluti þeirra mála er í uppnámi eða frestast. Ef til vill er það jákvætt í hugum margra þar sem slík mál eru ætíð umdeild og eru eflaust misgóð fyrir land og þjóð. Þarna leynast þó mál sem fela í sér jákvæðar breytingar sem frestast nú eða daga uppi, hugsanlega án þinglegrar meðferðar, og í því felst hreinn kostnaður.

Heimild: Fjárlög 2017

Stjórnarslitin þurrkuðu út 35 milljarða í Kauphöllinni og gætu þýtt hærri vexti

Áhrif stjórnarslitanna á fjármálamarkaði eru meðal þeirra sem auðveldast að festa fingur á. Krónan veiktist t.d. um 1,3% gagnvart evru á föstudaginn sl. í kjölfar tíðinda um stjórnarslit. Þá lækkaði verð óverðtryggðra ríkisskuldabréfa þannig að ávöxtunarkrafa þeirra hækkaði um allt að hálfu prósenti. Verðtryggð skuldabréf héldu velli svo að verðbólguálag rauk upp bæði til 5 og 10 ára. Verðbólguálag er einn af þeim mælikvörðum sem peningastefnunefnd Seðlabankans horfir til en það hefur hækkað um u.þ.b. eitt prósentustig á þremur mánuðum sem hefur lækkað raunstýrivexti miðað við verðbólguálag sem því nemur. Ekki þarf að fjölyrða um áhrif þess á líkur á stýrivaxtalækkunum á næstunni: Þær eru minni en áður.

Heimildir: Kodiak, Greiningardeild Arion banka.

Hækkun ávöxtunarkröfu á markaði smitast á löngum eða skemmri tíma yfir í annað vaxtastig í landinu. Vextirnir sem ríkissjóði bjóðast mynda grunn fyrir annað vaxtastig og því má með mikilli einföldun segja að stjórnarslitin og óvissan sem tekur við hafi hækkað vaxtastig á Íslandi. Þessar breytingar á ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa og óvissa vegna stjórnarslita hafði einnig mikil áhrif á hlutabréfamarkaðinn þar sem nær öll félög á aðalmarkaði Kauphallarinnar lækkuðu og því lækkaði úrvalsvísitalan um 2,9% og hefur haldið áfram að lækka um samtals 5,7% þegar þetta er skrifað, sem má hugsanlega einnig rekja til pólitískrar óvissu.

Lækkanir á verði skulda- og hlutabréfa á föstudaginn hafði talsverð áhrif á sparnað landsmanna en markaðsvirði skráðra hlutabréfa, ríkisbréfa, íbúðabréfa og sértryggðra skuldabréfa lækkaði um samtals rúma 32 milljarða króna. Þar af virðast eignir lífeyrissjóðanna hafa rýrnað að lágmarki um 14 ma.kr., en þeir eru langstærstu eigendur íslenskra verðbréfa. Ef þessar lækkanir ganga ekki til baka ef/þegar óvissunni léttir má því segja að stjórnarslitin hafi lækkað sparnað landsmanna um tugi milljarða króna.

Heimildir: Bloomberg, Nasdaq Iceland, Lánamál, Kodiak, Greiningardeild Arion banka.*Eingöngu bein eign sjóða á topp 20 listum félaga

Glatast landsframleiðsla við endalaust „refresh“ ?

Þegar mikil tíðindi verða í samfélaginu hópast landsmenn gjarnan fyrir framan sjónvarpsskjái, endurhlaða fréttasíður í gríð og erg, skeggræða landsmálin við vinnufélaga o.s.frv. Hvort og hversu mikið þessi áhugi landsmanna á málefnum líðandi stundar skaðar afkastagetu þeirra er erfitt að festa fingur á, enda hafa að okkur vitandi ekki verið gerðar sérstakar rannsóknir á slíkri hegðun. Það er þó hugsanlegt að skert athygli vinnandi fólks vegna stórra tíðinda, umfram það sem góðu hófi gegnir, feli í sér tapaða framleiðslu fyrir hagkerfið. Hversu mikið treystum við okkur ekki til að fullyrða nokkuð um en til þess að hægt sé að gera sér í hugarlund um hver áhrifin eru höfum við áætlað tap þjóðarbúsins miðað við meðallaun annars vegar og verga landsframleiðslu hins vegar að gefnu vinnutapi hvers vinnandi manns á Íslandi. Ljóst er að jafnvel þó meðalstarfsmaður tapi athyglinni í korter hleypur kostnaðurinn á hundruðum milljóna króna.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Pólitískur óstöðugleiki er dýrkeyptur og kemur niður á okkur öllum

Þegar allt kemur til alls er öll óvissa og skortur á stefnumörkun skaðleg fyrir framþróun hagkerfisins eins og sást glögglega á fjármálamörkuðum í kjölfar stjórnarslita. Samfélagið breytist og ný þekking verður til á hverjum einasta degi. Því þurfa stjórnvöld hverju sinni að bregðast við til að leggja sitt að mörkum við að þróa samfélagið áfram og það blasir við að þau eru ófær um það ef þau eru annað hvort varla til staðar eða geta ekki komið sér saman um niðurstöðu mikilvægra málefna. Skortur á stefnu og stöðugleika fælir þar að auki frá bæði innlenda og erlenda fjárfesta sem dregur úr hagvexti til lengri tíma. Þar með getur áframhaldandi pólitísk óvissa, óstöðugleiki og stefnuleysi varanlega rýrt lífskjör á Íslandi. Vangavelturnar hér að framan eru ekki úr lausu lofti gripnar en til er urmull rannsókna um skaðleg áhrif pólitísks óstöðugleika á lífskjör og þau eru umtalsverð. Einnig sýna myndirnar hér að neðan að mikil fylgni er milli lífskjara og stjórnarfars, sem virðist vera vegna beins orsakasambands.

Heimildir: Alþjóðabankinn, World Governance Indicators Project, Greiningardeild Arion banka.

Flestar slíkar rannsóknir á þessu málefni miðast við mun fátækari ríki en Ísland og oft tilfelli þar sem pólitíski óstöðugleikinn birtist í vopnuðum átökum. Til að átta sig betur á hvernig óstöðugleiki getur haft áhrif í friðsælum þróuðum ríkjum er Ítalía áhugavert dæmi. Frá lokum seinna stríðs hefur Ítalía haft 64 ríkisstjórnir á 71 ári og hefur orðspor á sér fyrir frekar óstöðugt stjórnarfar. Þar að auki hefur stjórnarmyndun, t.d. síðustu ár, verið tímafrek. Í því samhengi er áhugavert að skoða efnahagsþróun á Ítalíu en þar hefur hagkerfið í raun staðið í stað frá 2001 og er áætlað að landsframleiðslan í ár verði litlu minni en hún var það ár. Að hve miklu leyti óstöðugleiki í stjórnmálum er þar sökudólgurinn skal ekki segja, en það er nokkuð ljóst að óstöðugt stjórnarfar hefur ekki hjálpað efnahagslífinu á Ítalíu. Líklegt er að sama muni eiga við hér á landi ef þróunin síðustu misseri er það sem koma skal.

Heimildir: OCED, Wikipedia, Greiningardeild Arion banka. *Nokkuð víð skilgreining á ríkisstjórnarskiptum. T.d. telst það hér sem ríkisstjórnarskipti þegar Geir H. Haarde tók við Halldóri Ásgrímssyni sem forsætisráðherra árið 2006.