1,4% verðbólga þrátt fyrir hækkun húsnæðisverðs

1,4% verðbólga þrátt fyrir hækkun húsnæðisverðs

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,14% milli mánaða í september og lækkar ársverðbólgan þannig úr 1,7% í 1,4%. Verðbólgutölur eru undir spám greiningaraðila en þær lágu á bilinu 0,25% til 0,5%. Við spáðum 0,25% hækkun milli mánaða eða 1,5% ársverðbólgu. Það sérstaklega hækkun húsnæðisverðs og lok útsala sem knúði verðbólguna áfram í september en á móti vegur hressileg lækkun flugfargjalda til útlanda og verðlækkun á mat og drykkjarvörum.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banki

Árstaktur húsnæðisliðar nálgast 20%

Við fögnuðum síðustu verðbólgutölum þar sem verulega dró úr verðhækkunum á húsnæðisliðinum og námu hækkanir aðeins 0,43% milli mánaða í ágúst. Húsnæðisliðurinn tók aðeins við sér í september og hækkaði liðurinn um 0,81% milli mánaða í september. Reiknuð húsaleiga, sem hefur knúið verðbólguna áfram síðustu mánuði og misseri, hækkaði um 1,21% milli mánaða en árstakturinn lækkaði úr 22,9% í 20,4%. Það voru verðhækkanir á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu (3,81% milli mánaða) ásamt verðhækkunum fyrir utan höfuðborgarsvæðið (1,37% milli mánaða) sem drifu verðbólguna áfram í þetta sinn. Það vekur athygli að fasteignaverð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði aðeins um 0,23% milli mánaða og dró úr verðhækkunum frá því í síðasta mánuði þegar fasteignaverð hækkaði um 0,32%. Við teljum að verðþróun á fjölbýli gefi vísbendingu um betra jafnvægi á markaðinum en óvist er hversu lengi sérbýli haldi áfram að hækka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Föt og skór hækka

Sumarútsölurnar gengu til baka í september og hækkaði undirliðurinn föt og skór töluvert meira en við gerðum ráð fyrir. Sumarútsölur ganga sögulega til baka í ágúst og september en og í síðasta mánuði gengu þær lítillega til baka og hækkaði undirliðurinn aðeins um 2,4% milli mánaða. Við veltum því fyrir okkur hvort um væri að ræða tilfærslu milli mánaða eða varanaleg áhrif aukinnar samkeppni. Samkvæmt mælingum Hagstofunnar gengu útsöluáhrif hressilega til baka í september en nettó útsöluáhrif virðast vera meiri en síðustu ár, eins og sést á myndinni hér að neðan, og skipta hér hóflegar verðhækkanir í ágúst öllu máli.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banki

Flugfargjöld til útlanda lækka, gisting lækkar

Flugfargjöld til útlanda lækkuðu hressilega milli mánaða líkt og yfirleitt gerist á þessum tíma árs og nam sú lækkun 18,8%.
Undirliðurinn hótel og veitingastaðir lækkaði lítillega milli mánaða líkt og gerðist í fyrra en þetta er annar mánuðurinn í röð sem nánast engar verðbreytingar hafa verið á undirliðnum. Veitingastaðir hækkuðu verðlag um 0,18% milli mánaða en á móti kom 2,84% verðlækkun á gistingu.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banki

Matur og drykkur lækkar hressilega

Miklar verðlækkanir voru á mat og drykk milli mánaða og kemur það nokkuð á óvart hvað liðurinn lækkaði hressilega þrátt fyrir gengisveikingu. Verð á mat og drykkjarvörum hefur verið að lækka jafnt og þétt undanfarna mánuði en liðurinn hækkaði rífega í ágúst og töldum við veikingu krónurnar vera þar að baki. Við spáðum minni verðhækkunum í september þar sem við töldum að gengisáhrifin á mat og drykk hefðu skilað sér að miklu leiti út í verðlag í ágúst. Við gerðum ekki ráð fyrir þerra miklu verðlækkun sem mældist í september. Verðlækkanir í september ná til nánast allra undirliða matar og drykkjarvara en vega hér lækkanir á grænmeti (2,27%) og gosdrykkjum, saft og vatni (2,21%) þyngst. Athyglisvert verður að fylgjast með hvernig verðlagi á mat og drykkjarvörum þróast í samspili við aukna samkeppni og gengi krónurnar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Skammtíma verðbólguhorfur

Húsnæðisverð tók aftur við sér í september og þótt árstakturinn sé að nálagst 20% virðist ennþá vera svigrum fyrir verðhækkanir þá sérstaklega á sérbýli. Húsnæðisverðshækkanir hafa knúið verðbólguna áfram síðustu mánuði og misseri en þrátt fyrir þessar hækkanir er ársverðbólgan í lágmarki. Innlendur verðbólguþrýstingur er neikvæður þrátt fyrir veikingu krónurnar og hefur síðustu mánuði mælst verðhjöðnun þegar litið er á ársverðbólgu án húsnæðis og mældist hún 3,1% í september. Við töldum veikingu krónurnar hafa haft áhrif á verðlag á mat og drykkjarvörum í ágúst og því kom þessi hressilega verðlækkun í september okkur nokkuð á óvart. Líkt og við lýstum í spánni okkar þá eru athyglisverðir tímar fram undan, þar sem áhugavert verður að sjá hvernig samspil gengisáhrifa og aukinnar samkeppni verður. Eins og staðan er í dag þarf innlendur verðbólguþrýstingur að aukast verulega til að koma verðbólgunni afstað ef húsnæðisliðurinn er að gefa eftir líkt og við teljum líklegt.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Október +0,3%: Húsnæðisverð hækkar, matur og drykkjarvörur hækkar, aðrir liðir hækka/lækka lítillega.
  • Nóvember +0,1%: Flugfargjöld lækka umtalsvert, föt og skór hækka, húsnæðisverð hækkar.
  • Desember +0,3%: Húsnæðisverð hækkar, flugfargjöld hækka, aðrir liðir hækka/lækka lítillega